Lilja Ásgeirsdóttir fæddist 2. júlí 1973 á Selfossi. Hún lést á heimili sínu 20. október 2024 eftir erfið veikindi.
Foreldrar hennar voru hjónin Ásgeir Jónsson, f. 22. mars 1942, og Helga María Halldórsdóttir, f. 6. mars 1936, d. 27. nóvember 2023. Systkini Lilju eru Halldór, f. 26.1. 1969, Guðrún, f. 8.9. 1971, og Bjarney, f. 28.5. 1975.
Eftirlifandi eiginmaður Lilju er Steindór Eiríksson, f. 28.8. 1970. Börn Lilju og Steindórs eru Helga María, f. 3.7. 1998, og Elías Pétur, f. 4.10. 2005.
Lilja ólst upp ásamt systkinum í foreldrahúsum í Hveragerði og gekk í grunnskóla þar. Hún fór kornung að vinna við barnapössun ásamt því að vinna við garðyrkju á sumrin. Að grunnskóla loknum las hún til stúdentsprófs frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hún vann á sambýlinu Vallholti samhliða námi og eftir stúdentspróf lá leiðin í hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist árið 2003. Lilja starfaði á hjarta-, lungna- og augnskurðdeild Landspítalans við Hringbraut um 19 ára skeið, fyrstu árin við hjúkrun en á seinni árum sem aðstoðardeildarstjóri og síðar sem deildarstjóri.
Lilja hafði alla tíð mikinn áhuga á hjúkrun hjarta- og lungnaskurðsjúklinga og brann fyrir sérgreininni. Hún lauk diplómanámi í hjúkrun aðgerðasjúklinga árið 2009 og hóf síðan meistaranám í hjúkrun aðgerðasjúklinga árið 2014. Hún lauk meistaraprófi frá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands 22. september 2020. Í meistaraverkefninu sínu fór hún af stað með rannsókn þar sem skoðuð voru einkenni og heilsutengd lífsgæði sjúklinga með skurðtækt lungnakrabbamein, fyrir og eftir skurðaðgerð, og var þeirri rannsókn haldið áfram eftir að Lilja hafði sagt skilið við Landspítalann. Árið 2019 var Lilja ráðin sem verkefnastjóri á heilbrigðissvið Hrafnistu en árið 2021 var hún einnig ráðin í hlutastarf við hjartadeild Landspítalans þar sem hún vann að rannsóknarverkefni í samvinnu við Sidekick Health. Hún starfaði því bæði á Hrafnistu og Landspítalanum þegar hún þurfti skyndilega að fara í veikindaleyfi haustið 2022.
Lilja og Steindór fluttust ung til Reykjavíkur, bjuggu fyrst í Gnoðarvogi en keyptu sér síðan íbúð við Bugðulæk árið 1999. Þau fluttust í stærra húsnæði í sömu götu árið 2006 þegar fjölskyldan hafði stækkað og hafa búið þar síðan.
Lilja var alla tíð ákaflega atorkusöm bæði í lífi og starfi, hún elskaði að vera úti í náttúrunni þar sem göngutúrar, hlaup, hjólreiðar og nú á síðari árum golf veittu henni mikla ánægju.
Útför hennar fer fram frá Laugarneskirkju í dag, 30. október 2024, klukkan 13.
Elsku hjartans ástin mín, nú ertu horfin á braut, sorgin og söknuðurinn er svo ólýsanlega erfiður. Hvernig verður lífið án þín elsku Lilja mín, þú sem gafst mér næstum allt? Frá því við urðum kærustupar fyrir 33 árum hefur svo margt yndislegt gerst í okkar lífi og öll þessi ár höfum við mótað hvort annað og gert að því sem við urðum.
Ég, sveitastrákurinn, sem var svo ótrúlega heppinn að eignast fallegustu og ljúfustu stelpuna á ballinu, hef eiginlega aldrei náð því almennilega hvernig ég varð svo lánsamur að eignast þig sem stóru ástina mína, lífsförunaut, besta vin og sálufélaga.
Þú hefur alltaf verið svo röggsöm og hispurslaus, sagt hlutina eins og þeir eru og eflaust er það ein af mörgum góðum ástæðum þess hve vinmörg þú ávallt varst. Hláturinn, brosið og blíðan verður mér alltaf ljóslifandi minning þegar ég hugsa til þín.
Við gengum í gegnum svo margt í lífinu og það var ekki allt dans á rósum, ekki frekar en hjá öðrum, þótt heilt yfir hafi það verið það. Þegar við kynntumst vorum við svo ólík á margan hátt en ég held að við höfum samt alltaf verið með eins hjartalag og það var kannski þess vegna sem við vorum svona hamingjusöm og einhvern veginn urðum sem eitt.
Þú gafst mér börnin okkar, ljósgeislana okkar, þú kenndir mér að trúa á sjálfan mig, hvattir mig til að sækja frekara nám og þú gerðir mig að þeim manni sem ég er.
Minningarnar sem við eigum saman eru svo fallegar, við börnin erum búin að vera að fara yfir allt myndasafnið, sem telur þúsundir mynda, og við erum svo óendanlega þakklát fyrir hversu dugleg þú hefur alltaf verið að taka myndir. Þær munu svo sannarlega ylja okkur um hjartarætur um ókomna tíð. Síðustu tvö ár hafa verið okkur öllum afar erfið en krafturinn, viljinn og trúin á sigur í baráttunni sem þú háðir var einstök.
Minningin um þig, elsku Lilja mín, mun lifa að eilífu, ég mun hugsa til þín á hverjum degi það sem ég á eftir ólifað og það gefur mér vonandi einhverja sálarró. Þú manst það sem við töluðum um, við fjölskyldan ætlum að eiga gott líf í framtíðinni, lífið sem þú skapaðir okkur.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sigurður Jónsson)
Þangað til við hittumst aftur.
Þinn ástkær eiginmaður,
Steindór.
Elsku hjartahlýja, yndislega, fallega og brosmilda mamma mín. Nú hefur þú fengið vængi þína og flogið inn í sumarlandið þar sem amma bíður þín. Þegar við sátum saman og skrifuðum síðustu orðin í minningargreinina hennar ömmu grunaði mig ekki að tæpu ári seinna myndi ég sitja ein á Bugðulæknum og skrifa þessi orð til þín. Hvað þetta líf getur verið óskiljanlegt og ósanngjarnt og brothætt. Hvað ég get ekki varist því að vera reið út í alheiminn yfir að allt hafi þurft að fara eins og það fór. En ég reyni að staldra ekki lengi við í reiðinni, ég veit að það gerir engum gott. Í staðinn hugsa ég til baka, skoða gamlar myndir og les gömul skilaboð frá þér, og þó svo að ég fyllist vissulega óbærilegri sorg og söknuði þá er það þakklæti sem stendur upp úr. Þakklæti fyrir að þú hafir verið og verðir alltaf mamma mín og þakklæti fyrir okkar einstaka mæðgnasamband. Því þú varst sú allra besta mamma sem hægt er að hugsa sér, svo einfalt er það. Þú varst alltumvefjandi í ást þinni og hlýju, alltaf tilbúin að hlusta á allar mínar vangaveltur og áhyggjur og einhvern veginn tókst þér alltaf að segja nákvæmlega það sem ég þurfti mest á að halda að heyra hverju sinni. Ætli það sé ekki dálítið lýsandi fyrir okkar samband, skólaverkefnið sem ég gerði í 1. bekk, þegar ég var beðin að teikna mynd af því sem mig langaði að verða í framtíðinni og ég teiknaði þig. Því rétt eins og þegar myndin var teiknuð, fyrir núna 20 árum, þá hefur þú alltaf verið mín mesta fyrirmynd og munt alltaf vera mitt leiðarljós.
Það er rétt sem Óskar prestur segir í minningarorðunum sínum: „Við tekur erfitt verkefni áfram; söknuðurinn yfir því sem var; en líka sorgin yfir því sem hefði átt að verða.“ Ætli það sé ekki sérstaklega seinna atriðið sem hann nefnir sem ég strögla allra mest með. Því við höfðum svo oft rætt um alla þá yndislegu hluti sem voru fram undan, málað upp svo fallega mynd af öllu þessu dags daglega og látið okkur dreyma um tilvonandi barnabörn, brúðkaup, heilsárshús og fleira í þeim dúr. Ég veit hreinlega ekki hvernig maður á að halda áfram án þín elsku mamma mín, hvernig maður á að leyfa sér að dreyma upp á nýtt, en eins og ég var búin að lofa þér þá mun ég gera mitt allra besta – fyrir þig elsku mamma.
Góða nótt, elska þig af öllu hjarta elsku besta mamma mín.
Þín mömmustelpa,
Helga María.
Nú hefurðu kvatt þennan heim elsku besta, fallega og einstaka mamma mín. Ég hreinlega veit ekki hvernig ég á að geta lifað lífinu án þín. Sorgin og söknuðurinn sem ég finn er ólýsanlegur, mér líður eins og það sé stórt gat í hjarta mínu og líklegast mun það aldrei gróa að fullu. Ég átta mig á því að sorgin sé komin til að vera en nú er það spurning um að læra að lifa með henni. En sorgin er ekki alslæm, hún sýnir mér hversu mikið ég elska þig mamma mín og mun alltaf gera. Næstu ár eiga eftir að verða ótrúlega erfið og ég veit að ekki mun koma sá dagur sem ég mun ekki hugsa til þín. En þannig vil ég að það sé, ég vil minnast þín, finna til hlýjunnar sem ég hef alltaf fundið í kringum þig og ástarinnar sem þú sýndir mér.
Mamma var svo yndisleg kona, hress og kát, lífsglöð, ávallt brosandi og alltaf gaman í kringum hana. Svona mun ég alltaf minnast mömmu. Það er erfitt að lýsa því með orðum hversu mikið henni þótti vænt um mig. Hún var alltaf gríðarlega hrædd um mig en á góðan hátt, þegar ég var krakki þá sleppti hún nánast aldrei takinu á mér, bókstaflega. Hún hefur alltaf passað upp á litla strákinn sinn og stutt mig í öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Hún mætti á alla fótbolta- og handboltaleiki hjá mér þegar ég var yngri og núna í seinni tíð labbaði hún með mér í frisbígolfi og við nutum útiverunnar. Sem krakki var ég svolítið viðkvæmur og t.d. svaf ég í rúminu hjá mömmu og pabba þar til ég nánast fermdist. En ég skammast mín ekkert fyrir það, leið einfaldlega best við hliðina á mömmu, þar var ég öruggur. Ég tel mig vera ágætis strák, það reyni ég allavega að vera en mamma á svo ótrúlega stóran þátt í því hver ég er. Hún ól mig upp af svo mikilli ást og umhyggju, var aldrei reið út í mig en samt ákveðin og sagði hlutina eins og þeir eru, enda hafði hún líka langoftast rétt fyrir sér. Allt það góða sem ég hef fengið frá mömmu er ég svo óendanlega þakklátur fyrir. Betri mömmu gæti ég ekki hugsað mér.
Ég á alltaf eftir að sakna þín elsku besta og yndislega mamma mín. Sakna þess að koma heim og fá strax spurninguna, hvernig var í skólanum, eða, hvernig var í vinnunni, sakna þess að leggjast upp í sófa til þín og láta þig strjúka á mér hárið og sakna þess að faðma þig að mér á hverjum degi. Ég er ótrúlega spenntur að verða pabbi og það er svo sárt að þú fáir ekki að vefja börnin mín af ástinni sem þú vafðir mig í. En minningu þinni verður alltaf haldið uppi og börnin mín eiga eftir að heyra og sjá ótal sögur og myndir af ömmu þeirra. Á útskriftardaginn minn sagðir þú mér að halda áfram að vera ég sjálfur, þá væru mér allir vegir færir og það ætla ég að gera. Eins erfitt og það verður að halda áfram án þín, þá var ég búinn að lofa þér að ég muni eiga bjarta framtíð og ætla ég mér að standa við það loforð. Svo varst þú einnig búin að lofa mér að þú munir vaka yfir mér og passa upp á mig alla ævi. Ég veit að þú munt standa við það.
Ég trúi því að einn daginn verðum við öll sameinuð á ný.
Góða nótt mamma, ég elska þig af öllu hjarta, alltaf.
Elías Pétur.
Það er með mikilli sorg sem ég kveð elsku tengdamóður mína, Lilju Ásgeirsdóttur. Hún var ávallt ljúf, umhyggjusöm og einstök kona, sem tók mér opnum örmum frá fyrstu kynnum. Ég verð ævinlega þakklát fyrir þá fallegu tengingu sem myndaðist milli okkar á svo stuttum tíma, því Lilja gaf sér alltaf tíma til hitta mig, jafnvel þegar Helga María mín var úti í Danmörku. Þegar frá okkar fyrstu kynnum varð mér ljóst að Lilja elskaði fólkið sitt og studdi okkur öll á sinn eigin einstaka hátt. Það leið ekki á löngu þar til ég fann að ég var hluti af fjölskyldunni á Bugðulæknum og var ég orðin fjórða afkvæmið (að Míó meðtöldum). Lilja passaði svo vel upp á alla í kringum sig og var sérlega hlý og nærgætin. Hún var líka einstaklega fyndin og með virkilega smitandi hlátur, sérstaklega þegar hún misskildi eitthvað sem ég sagði henni.
Ég finn djúpt þakklæti í hjarta mínu fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast þér elsku Lilja mín og fyrir allar þær dýrmætu stundir sem við áttum saman, þótt þær hafi verið alltof fáar. Minning þín mun lifa áfram í hjörtum okkar og munum við reyna að lifa lífinu í þínum anda, með kærleika og hlýju.
Elsku Lilja, það er erfitt að trúa að þú sért farin frá okkur og það skilur eftir sársauka, söknuð og tómarúm í hjörtum okkar. Ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast þér og ég mun varðveita fallega minningu um hjartahlýja og skemmtilega konu og góða móður. Kærleikur þinn og hlýja munu aldrei gleymast og ylja okkur að hjartarótum. Takk fyrir allt elsku Lilja, ég mun ávallt sakna þín.
Giovanna Steinvör.