Hreinn Bergsveinsson, f. 6. júlí 1934 i Óafsvik Hann lést á heimili sínu í Kópavogi 17. október 2024.
Foreldrar hans voru Bergsveinn Haraldsson kennari í Ólafsvík f. 4. september 1895, d. 6. október 1945, og Magdalena Ásgeirsdóttir frá Fróðá f. 13. nóvember 1903, d. 14 október 1992. Systkini eru Knútur 1925-2011, Auður Ólína 1927-1928, Auðunn 1929-2016, Ragnhildur Guðrún 1931-2017, Auður Jóhanna 1936-2014 og Bergljót f. 1942.
Hreinn lauk Landsprófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar í Reykjavík 1952 og hóf nám við Menntaskólann í Reykjavík sem hann lauk ekki. Hann sótti margháttuð námskeið i tryggingarfræðum, sölutækni o.fl. frá 1963. Hreinn var afgreiðslumaður í Kiddabúð í Reykjavík 1953-55 og verslunarstjóri KRON á Bræðraborgarstíg 1955-58, útibússtjóri Kaupfélags Árnesinga í Þorlákshöfn 1958-63. Hreinn var starfsmaður Samvinnutrygginga í Reykjavík frá 1963, tjónaeftirlitsmaður 1963-64, fulltrúi í tjónadeild 1964-67, fulltrúi í söludeild og umsjónarmaður með umboðum félagsins 1967-74, fulltrúi í fjármáladeild og starfsmannastjóri frá okt. 1974. Þá var hann deildarstjóri bifreiðadeildar og síðast deildarstjóri fjármáladeildar VÍS.
Hreinn sat í stjórn slysavarnardeildar í Þorlákshöfn frá stofnun hennar. Hreinn var formaður félags starfsmanna Samvinnutrygginga og Andvöku 1969, sat í stjórn launþegadeildar starfsmanna VR 1969-74 og í trúnaðarmannaráði, samninganefnd og kjararáði V.R. 1969-74. Hann sat í stjórn VR 1974-75. Í fulltrúaráõiVinnumálasambands samvinnufélaganna frá 1980. Hann var í Rótarýklúbbi Kópavogs þar af forseti árin 2004-5. Hann var virkur stjórnandi og þátttakandi í púttklúbbi Ness og í Leikfimihópi Breiðabliks og var sæmdur heiðursnafnbótinni Gull Bliki árið 2005.
Hreinn kvæntist Valgerði Pálsdóttur, f. 2. nóvember 1936, þann 2. nóvember 1954. Foreldrar hennar voru Páll Guðmundur Þorleifsson frá Siglunesi, f. 20. desember 1910, d. 8. maí 1977, og Elka Guðbjörg Þorláksdóttir, f. 23. janúar 1915, d. 15. maí 1992.
Börn þeirra eru Páll, f. 5. september 1957, Bryndís, f. 2. ágúst 1959, gift Hilmari Sighvatssyni, f. 1959, börn þeirra eru Árni Hjörvar, Torfi Geir og Diljá. Nanna, f. 30. desember 1961, gift Gísla Björgvinssyni f. 1959, börn þeirra eru Bryndís og Andri. Bergljót, f. 19. ágúst 1965, gift Magnúsi Möller, f. 1963, börn þeirra eru Björn Valgeir, Daði Már og Heiðrún María. Hreinn Valgerðar f. 14. maí 1968, giftur Halldóru Dýrleifar Gunnarsdóttur, f. 1959, börn Halldóru eru Hallgerður Guðrún og Bergþóra. Langafabörnin eru sjö talsins.
Útför Hreins fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 30. október 2024, klukkan 13.
Elsku hjartans uppáhaldspabbinn minn hefur nú kvatt okkur að sinni. Eftir stutt en snörp veikindi sem hann tæklaði með heiðri og sóma gaf líkaminn sig og krabbameinið sigraði. Ég vakti yfir honum tvær dýrmætar nætur og fékk að verða aftur litla stelpan hans um stund, halda í höndina sem hefur leitt mig gegnum lífið og styrkt mig, verndað og leiðbeint af kærleik og hlýju og gafst þar með tækifæri til að gefa honum örlítið til baka. Fyrir það er ég endalaust þakklát.
Pabbi sagðist alltaf hafa fengið að vera sólarmegin í lífinu, fann ástina ungur og átti mjög innihaldsríkt og gott líf. Hann fann mömmu í Skagafirðinum þar sem hann vann við vegavinnu á sumrin frá þrettán ára aldri og þau giftu sig með leyfi forseta átján og tuttugu ára gömul. Sagan af verkamanninum og vinnukonunni í Felli varð söngleikur sem barnabörnin fluttu á sextugsafmæli kappans og sló rækilega í gegn! Pabbi ólst upp við kröpp kjör í Bjarnahúsi í Ólafsvík ásamt fimm systkinum en talaði alltaf vel um æskuna sína og átti ljúfar og fallegar minningar frá árunum undir Jökli. Pabbi hans var kennari og vörubílstjóri í aukastarfi og voru þeir feðgar mjög nánir. Það var honum ,11 ára gömlum, því mikill og sár missir þegar pabbi hans dó úr hvítblæði í október 1945. Mamma hans tók þá erfiðu ákvörðun ári síðar að flytja með barnahópinn sinn suður yfir heiðar og keypti lítið hús við Borgarholtsbraut í Kópavogi. Þannig varð Kópavogurinn okkar bær og þó hann og mamma hafi byggt sér hús bæði í Þorlákshöfn og á Seltjarnarnesi var einhver taug sem togaði og þegar ég var ársgömul fluttum við í Voginn okkar góða og þau festu rætur þar og hafa ekki búið annars staðar síðan. Það var gott að alast upp í Kópavogi og pabbi og mamma tóku þátt í öllu sem við systkinin tókum okkur fyrir hendur. Þau voru frábærir foreldrar og leyfðu okkur að vera við sjálf, njóta okkar og styrkleika okkar, voru hvetjandi og uppörvandi og dugleg að koma á viðburði og taka þannig virkan þátt í lífi okkar og starfi. Ég var ekki auðveldasta barnið, þrjósk og mjög ákveðin, en pabbi kunni vel á mig og við áttum mjög sterk og góð tengsl. Hann og mamma voru dugleg að lesa fyrir okkur sem börn og fimm ára gömul tók ég ástfóstri við bækur Þórbergs og Laxness og elskaði að hlusta á pabba lesa upphátt og leika Sobbeggi afa, Mömmugöggu og Lillu Heggu, Bör Börson og lesa upp ljóð úr bókum Laxness og Jóhannesar úr Kötlum. Ég held að ég hafi verið sjö eða átta ára þegar ég átti að koma með sjálfvalið ljóð í ljóðatíma í Kársnesskóla. Ég og pabbi ræddum málin og ég valdi ljóðið Karl faðir minn eftir Jóhannes. Pabbi var pínu efins en hafði lúmskt gaman af þessu vali og beið spenntur eftir að heyra hvað kennaranum fannst. Ég man, ég las þetta ljóð upp fyrir bekkinn minn og það voru allir ein augu og eyru en svipurinn á kennaranum mínum var óborganlegur þegar ég bunaði út úr mér:
Hann pabbi er skrýtinn og sköllóttur karl,
sem á skinnhúfu og tekur í nefið.
Og bleksterkt kaffi og brennivín
er það besta, sem honum er gefið.
En ég var ánægð með þetta val og við pabbi skellihlógum þegar ég sagði
honum að krökkunum hefði fundist þetta frábært ljóð en að kennarinn hefði
sagt að það væri betra næst að velja bara ljóð úr Skólaljóðum! Ég er pabba
og mömmu þakklát fyrir hve þau voru dugleg að ota að okkur bókum og hvetja
til að lesa og sækja bækur i bókasafnið. Ég átti líka auðvelt með að skrifa
sögur og frásagnir og pabbi hvatti mig sífellt áfram á því sviði og þau
mamma voru dugleg að lesa yfir og leiðrétta fyrir mig texta og ritgerðir og
pabbi nýtti ljóðin mín og texta við alls konar tækifæri sem gladdi litlu
mig. Hann var mjög hissa þegar ég valdi hjúkrunarfræði í HÍ eftir
stúdentinn og benti mér á að eftir sumarvinnu á göngudeild
krabbameinslækninga væri augljóst að ég væri of viðkvæm fyrir slík störf og
tæki veikindi fólks allt of nærri mér, heillavænlegra væri að velja
bókmenntir. Ég hlustaði ekki en eftir á að hyggja hafði hann rétt fyrir
sér. Þrjóska ég fór þó ekki alveg að ráðum hans og valdi leikskólakennslu
sem lífsstarf. Honum fannst það ekki besta valið en hefur í gegnum tíðina
séð að þar var ég alveg á réttri hillu. En ég mátti bara ekki hætta að
skrifa.
Pabbi vann í Samvinnutryggingum eftir að við fluttum í Kópavoginn. Hann var mikill samvinnumaður og verslaði að sjálfsögðu aðeins við Sambandið og fyrirtæki þess og það gat stundum verið þreytandi. Goða-pylsurnar til dæmis, þær voru vondar, en hann reyndi að sannfæra okkur um að þær væru bestar. Sem betur fer vann amma Elka hjá SS og bjargaði okkur með því að koma oft heim með SS-pylsur, álegg og hangikjöt. Sama hvað pabbi reyndi að plata okkur, við vissum alltaf hvað var hvað! En hann var trúr sínu og útskýrði fyrir okkur að Sambandið væri grunnur að okkar velferð. Hann át því bara sínar Goða-pylsur einn meðan við hin fengum SS!
Pabbi var mikill bílakall og skipti oft um bíla. Mér fannst það pínu erfitt þar sem ég tók alltaf ástfóstri við bílana og fannst óþarfi að breyta. Þegar ég sagði vinkonum mínum að pabbi myndi skutla okkur t.d. á skátafund eða á einhvern viðburð spurðu þær gjarnan: Á hvernig bíl eruð þið núna? og uppskáru skellihlátur þegar ég sagðist ekki vita það. Hann kom nefnilega ekkert endilega heim á sama bíl og hann fór á til vinnu þann daginn.
Pabbi átti mörg áhugamál og voru ferðalög og veiði þeirra á meðal. Við ferðuðumst öll sumur um landið og veiðistöngin var alltaf með. Samvinnutryggingar áttu bústaði við Bifröst og þar dvöldum við mörg sumur. Þá var veitt í Hreðavatni og einhverjum ám í Borgarfirði, gengið á Grábrók og Baulu og Paradísarlaut og Glanni heimsótt. Ég hélt í alvöru að við ættum Paradísarlautina og Glanna en komst löngu seinna að því að svo var nú ekki. Það var alltaf verkefni að komast af stað í sumarfríið og pabbi var heillengi að púsla farangri sjö manna fjölskyldu í bílinn. Auðvitað var varadekkið alltaf neðst og hann því orðinn meistari í að grafa það upp þegar sprakk, sem gerðist oftast, og endurraða svo öllu í skottið. Snæfellsnes og Siglufjörður voru alltaf heimsótt og þegar hringvegurinn var opnaður fórum við hringinn nokkrum sinnum. Það voru líka fastir liðir að stoppa einhvers staðar og afhenda fólki viðurkenningar og gullúr fyrir vel unnin störf og kíkja á skrifstofur Samvinnutrygginga hingað og þangað um landið. Og alltaf vildi fólk bjóða í kaffi eða mat. Pabbi var frændrækinn og þau mamma dugleg að halda utan um fjölskyldurnar sínar og bjóða í veislur. Pabbi var mikill sælkeri og kökukall og þannig nýtti hann öll tækifæri til að slá tvær flugur í einu höggi, bjóða heim og fá þannig almennilegt með kaffinu. Hann var líka frumkvöðull þegar kemur að skyrtegundum, ég var smástelpa þegar hann var að hræra sultu og alls konar sætmeti út í skyrið sitt! Hann kom alltaf heim í hádegismat og þá var skyr eða súrmjólk það sem hann fékk sér. Fyrsta barnabarnið, Bryndís, var oft stödd í Melgerðinu þegar afi kom heim og hún var fljót að tilnefna hann afa Súrmjólk. Hún átti annan afa og það var afi Harðfiskur! Pabbi hafði gaman af að segja sögur og það var skemmtilegt að hlusta á hann segja frá. Hann elskaði að segja frá því þegar ég fór í fyrsta sinn með sparibaukinn minn til hans Pálma í Samvinnubankanum. Þá vildi ég sjá peningaskúffuna mína og varð öskureið þegar ég komst að hinum bitra sannleik að bankinn ruglaði mínum peningum saman við peninga allra landsmanna! Þvílík vonbrigði! Og misskilningurinn þegar við fórum á Laugarvatn að heimsækja mann sem hét víst Benjamín, en ég horfði hissa á þennan mann og spurði: Hvar er Beljan mín?
Einn kaldan vetur þegar Kópavoginn lagði ákváðu pabbi og mamma að fara í gönguferð með okkur litlu systkinin tvö og við þveruðum voginn alla leið að Álftanesi. Pabbi var með þykkan lurk í annarri hendi og kannaði ísinn og þau mamma drógu okkur á snjóþotum þarna yfir. Þvílíkt ævintýri að labba á sjónum! Ég held reyndar að eftir á hafi honum þótt þetta hið mesta glapræði, en ævintýri engu að síður sem við lifðum á lengi.
Pabba fannst þeim mömmu hafa tekist þokkalega með uppeldi barna sinna og því skildu þau ekki hvað varð til þess að yngsta dóttirin tók þá ákvörðun að verða Valsari. Eiturgrænum Blikunum þótti það algerlega óskiljanlegt en virtu þó alla tíð þessa ákvörðun. Sjálf voru þau strangheiðarlegir Blikar og sóttu bæði kvenna- og karlaboltann samviskusamlega og studdu sitt fólk. Þau voru alltaf mætt tímanlega í sætin sín og oft sagt í gamni að fyrst Hreinn og Vallý væru mætt gæti leikurinn hafist! Það gladdi þau ótrúlega mikið að vera heiðruð sem Gull-Blikar árið 2005 og hanga skjölin tvö í bókaherberginu þeirra. Þar úir líka og grúir af alls kyns bikurum og verðlaunagripum sem þau hjónin hafa unnið í púttinu gegnum tíðina en það áhugamál hafa þau stundað lengi.
Pabbi og mamma eru fólk sem hefur aldrei kunnað að láta sér leiðast. Þau byggðu upp og ræktuðu Sumarlandið sitt Nýlendu í Grímsnesi og dvöldu þar mörg sumur en pössuðu að mæta á alla Blikaleikina og í púttkeppnir á vegum Púttklúbbsins Ness þess í milli. Á veturna var það leikfimihópinn hjá Breiðabliki og tipphópurinn á laugardögum. Sólina sóttu þau svo til Tenerife eða Kanaríeyja og komu sólbökuð og fín inn í jólamánuðinn. Pabbi var sólskinbarn að sögn mömmu hans og systur og því alltaf stutt í brosið og glettnina en hann hafði líka sterkar skoðanir og fylgdi eigin sannfæringu alla tíð. Hann var hæfileikaríkur, þrjóskur, skemmtilegur, skapandi, ákveðinn, rökfastur, ábyrgur, leiðbeinandi, elskandi og gefandi alla daga. Algjör demantur sem við höfum verið svo heppin að eiga að og njóta.
Síðasta eina og hálfa árið fór að halla undan fæti í bókstaflegri merkingu. Hann greindist með krabbamein í vinstri fæti og í maí í fyrra var fóturinn tekinn fyrir neðan hné. Hann var ótrúlega jákvæður og tilbúinn að takast á við nýtt verkefni, að læra á nýja fótinn og halda bara áfram sínu striki. En krabbinn hafði dreift sér, lúmskur og eyðandi. Pabbi vissi hvert stefndi og sagðist vera sáttur og þakklátur fyrir árin sín 90. Morguninn sem hann lagði af stað í sína hinstu ferð skein sólin inn og lýsti honum leiðina í Sumarlandið.
Nú aldan brotnar hæg og hljóð við strönd í Ólafsvík,
jökullinn til himins rís, sú fegurð engu lík.
Um nesið hljóðlátt hvíslar golan fréttina um það
að hann sé kominn aftur heim á æskudraumastað.
Elsku pabbagullið mitt, takk fyrir allt og mest fyrir þig, sjáumst seinna í
Sumarlandinu.
Þín dóttir,
Bergljót.