Þættinum barst góð kveðja frá Þórði Júlíussyni á Skorrastað á Norðfirði með jólavísu: Lötrar tíminn, löng er bið er lengir alla skugga. Stuttir fætur staldra við og stara á skó í glugga. Einnig barst skemmtileg kveðja frá Erlu Sigríði…

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Þættinum barst góð kveðja frá Þórði Júlíussyni á Skorrastað á Norðfirði með jólavísu:

Lötrar tíminn, löng er bið
er lengir alla skugga.
Stuttir fætur staldra við
og stara á skó í glugga.

Einnig barst skemmtileg kveðja frá Erlu Sigríði Sigurðardóttur, sem skellti í brag í léttum dúr um „spítalajólasveinana“. Hún bætti við til skýringar: „Veit ekki hvort þeir séu jafn skemmtilegir fyrir þá sem starfa ekki í heilbrigðisgeiranum en vonandi skiljast sem flestir. Held að sá fyrsti eigi nú vel við þar sem ég taldi 16 hálkuslys á bráðamóttökunni fyrr í vikunni.“ Gott að vita að heilbrigðisstarfsfólk hefur góðlátlegan húmor fyrir hlutunum – það er nauðsynlegt í öllu annríkinu. Fyrsta jólasveininn nefnir hún Hækjustaur:

Hækjustaur er stirður kall

staulast varla getur.

„Helvítis“ í honum gall

„ég hata þennan vetur!“

Falin ísing lymskuleg

lagði hann að velli

„Arka vil ég auðan veg,

ekki á skautasvelli!“

Annar jólasveinn nefnist Bjölluklingir:

Bjölluklingir kallar hátt

könnu þarf með röri.

Stuttu síðar bjallar brátt

brauð hann vill með smjöri.

Önug verð og argri gremst

endalausa gjallið.

En kannski hann langi fyrst og fremst

í félagsskap og spjallið.

Jón Jens Kristjánsson bregður á leik með limru:

Í Hákoti sorg og sút er

Sigurður falbýður hrút er

aldrei hann selur

því Ingibjörg telur

hann minna á Martein Lúther.

Ábót frá Rúnari Þorsteinssyni:

„Ég heyri að græðgi sé góð,“

sagði gaurinn og hlaðborði tróð

í sig og hló,

en hálfvitinn dó,

því ábótin í honum stóð

Föruvindar fjallið synda
fagra tinda hylur kóf.
Freramyndir fannir binda
frýs þá lind við klettagróf.