Útlendingamál lágu nánast í þagnargildi í kosningabaráttunni og ekkert af þeim heyrst við stjórnarmyndun. En gæti hugsast að kjósendur hafi tekið ómakið af stjórnmálamönnum og sent sín skilaboð í kjörklefanum?
Þrjú framboð í liðnum kosningum töluðu leynt og ljóst fyrir „opnum landamærum“. Þeim var öllum hafnað. Sósíalistar náðu ekki inn á þing og Pírötum og Vinstri-grænum var sópað út, misstu samtals 14 þingmenn!
Minna má á að fylgi Samfylkingar fór ekki á flug fyrr en Kristrún Frostadóttir losaði sig við Helgu Völu Helgadóttur og kúventi stefnunni. Í Viðreisn talaði Sigmar Guðmundsson eins og 7. píratinn þar til hann var látinn hætta að tala um útlendingamál og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður mælti fyrir norrænum fyrirmyndum. Um leið tók Viðreisn að rísa.
Miðflokkur og Flokkur fólksins voru afdráttarlaus um útlendingamál og juku fylgið mikið. Sjálfstæðisflokkurinn, sem einn stóð vörð um landamærin í fyrri ríkisstjórn, missti aðeins tvo þingmenn eftir sjö ár í ríkisstjórn, en Framsókn tók einhvern furðusnúning á útlendingamálum á síðustu stundu, sem skilaði flokknum minna en engu.
Gætu skilaboð kjósenda hafa verið skýrari?