Ríkisstjórnin hefur gert það að einu af sínum helstu stefnumálum að láta þjóðina greiða atkvæði „um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu“, eins og það er orðað, og skuli kosningin fara fram eigi síðar en árið 2027. Þessi stefnuyfirlýsing felur í sér önnur af mestu svikum við kjósendur í þessum efnum. Hin voru þegar Vinstri-grænir ákváðu að loknum kosningum árið 2009 að fara með Samfylkingunni í sams konar ferðalag og Flokkur fólksins hyggst nú gera með Samfylkingu og Viðreisn.
Fyrir kosningarnar 2009 hafði formaðurinn, Steingrímur J. Sigfússon, talað skýrt um andstöðu flokks síns við aðild að ESB og lofað öllu fögru í þeim efnum svo kjósendur grunaði ekki hvað í vændum var. Sá flokkur missti helming fylgis síns í næstu kosningum og er nú horfinn af þingi.
Flokkur fólksins hefur ekki verið síður skýr um andstöðuna við aðild að ESB og það sem meira er; þingmenn flokksins, með formanninn fremstan á blaði, hafa ítrekað lagt fram tillögur á þingi „um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu“. Nánar tiltekið hafa þingmenn flokksins lagt tillöguna fram á fimm síðustu þingum, síðast 19. september á þessu ári! Engin önnur tillaga flokksins hefur fengið meira vægi og segja má að flokkurinn hafi snúist um tvennt: að bæta kjör hinna verst settu, með tilteknum hætti sem ekki sér stað í stjórnarsáttmálanum, og að tryggja að Ísland yrði aldrei aðili að ESB. Enn fremur að áhrif ESB í gegnum EES-samninginn yrðu sem minnst hér á landi.
En svo komu kosningar óvænt og boð um setu í ríkisstjórn. Meira þurfti ekki til að flokkurinn gæfi eftir afstöðuna til ESB.
Ítrekuð tilraun Flokks fólksins til að láta þingið sjálft draga umsóknina til baka er fjarri því það eina sem flokkurinn hefur gert til að leggja áherslu á andstöðu sína við aðild að Evrópusambandinu eða aukin áhrif sambandsins hér á landi. Formaður flokksins hefur ítrekað og við hvert tækifæri lagt áherslu á að flokkurinn vildi ekki að Ísland gengi í ESB og að verja þyrfti fullveldi landsins og sjálfstæði þess.
Formaðurinn var ekki eini talsmaður flokksins sem var skýr um þetta; Eyjólfur Ármannsson, þingmaður og nú samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var jafnvel enn skýrari, eða hafði sig í það minnsta enn meira í frammi í þessum efnum. Eyjólfur hefur gengið manna harðast fram gegn bókun 35, um almennan forgang EES-reglna, sem hann hefur sagt vera alveg „kristaltært“ að brjóti gegn stjórnarskránni. Um bókun 35 sagði hann í haust að þeir sem hefðu áhuga á að „verja fullveldi þessa samfélags, fullveldi Íslands, þeir munu berjast gegn þessu og ég ætla að gera það“.
Eyjólfi láðist að nefna það að ef honum byðist ráðherrastóll þá myndi hann ekki berjast gegn þessu, því að nú hefur hann upplýst að bókun 35 sé ekki stóra málið og að hann muni ekki setja sig upp á móti því í ríkisstjórn og geti vel hugsað sér að sitja hjá þegar bókunin kemur til kasta þingsins. Sitja hjá um stjórnarskrárbrotið, sem hann telur bókunina vera.
Allt er þetta með miklum ólíkindum og getur auðvitað ekki endað nema með ósköpum fyrir ríkisstjórnina, eins og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins bendir á í viðtali í nýjasta þætti Spursmála. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír eru algerlega ósamstiga í málinu og hafa enga sameiginlega stefnu um hvort sækja skuli um aðild að Evrópusambandinu, en stjórnin ætlar engu að síður að bera málið undir þjóðina.
Nú er að vísu afar ólíklegt að þjóðin samþykki slíkt feigðarflan sem nýjar aðlögunarviðræður við ESB væru, en hvað ef svo færi engu að síður? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera þá? Ætlar Flokkur fólksins að standa að slíkum viðræðum og hverju ætlar hann þá að fórna til að halda ráðherrastólunum og koma Íslandi inn í Evrópusambandið? Mun hann til dæmis samþykkja að færa völdin yfir fiskimiðunum til Evrópusambandsins?
Allir vita að aðlögunarviðræðurnar strönduðu um leið og erfiðu málin, meðal annars sjávarútvegurinn, voru tekin til umræðu á kjörtímabilinu sem lauk árið 2013. Stjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna gafst þá upp við að reyna frekara samtal við ESB um málið og „umsókn Íslands var eins og kunnugt er dregin til baka í kjölfar alþingiskosninga síðar það ár [þ.e. árið 2013]“, eins og segir í fréttabréfi utanríkisráðuneytisins frá 8. nóvember síðastliðnum, þar sem fjallað er um stöðu stækkunarmála Evrópusambandsins.
Utanríkisráðuneytið er bersýnilega þeirrar skoðunar að umsóknin hafi verið dregin til baka og í upptalningu þess á umsóknarríkjum, sem fengin er frá Evrópusambandinu sjálfu, er hvergi minnst á Ísland.
Ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins er þannig ekki að boða kosningu um „framhald viðræðna“ heldur um nýja umsókn og nýjar aðlögunarviðræður að ESB. Ljóst er að kjörtímabilið mun litast mjög af þessum mistökum stjórnarflokkanna, sem hafa ákveðið að sóa tímanum og kröftunum í óþurftarverk í stað þess að vinna að áframhaldandi vaxandi velferð landsmanna.