Lundúnir Mohamed Salah fagnar ásamt Diogo Jota en báðir tveir skoruðu í 5:0-sigri Liverpool-liðsins á West Ham í ensku deildinni í gærkvöldi.
Lundúnir Mohamed Salah fagnar ásamt Diogo Jota en báðir tveir skoruðu í 5:0-sigri Liverpool-liðsins á West Ham í ensku deildinni í gærkvöldi. — AFP/Adrian Dennis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Liverpool er með átta stiga forskot á toppi hinnar ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu eftir stórsigur á West Ham, 5:0, í Lundúnum í gær. Mohamed Salah fór enn einu sinni á kostum í liði Liverpool en hann skoraði mark og lagði upp tvö

Enski boltinn

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Liverpool er með átta stiga forskot á toppi hinnar ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu eftir stórsigur á West Ham, 5:0, í Lundúnum í gær. Mohamed Salah fór enn einu sinni á kostum í liði Liverpool en hann skoraði mark og lagði upp tvö. Hann er því kominn með 17 mörk og 13 stoðsendingar í deildinni. Hin mörk Liverpool skoruðu Luis Díaz, Cody Gakpo, Trent Alexander-Arnold og Diogo Jota.

Liverpool lýkur því árinu og fyrri helmingi tímabilsins með 45 stig eftir 18 leiki. Liverpool hefur unnið 14 leiki, gert þrjú jafntefli og tapað aðeins einum leik í deildinni undir nýja stjóranum Arne Slot. Þá hefur liðið skorað 45 mörk og fengið á sig 17.

Forest spútnikliðið

Nottingham Forest, spútniklið ensku úrvalsdeildarinnar hingað til, vann þá góðan útisigur á Everton, 2:0, á Goodison Park. Forest-liðið er með 37 stig í öðru sæti eftir 19 leiki. Forest-menn hafa spilað frábærlega það sem af er tímabili, en með sigri í sínum leikjum geta bæði Chelsea og Arsenal komist yfir Forest í töflunni.

Chris Wood skoraði fyrra mark Forest á Goodison Park og bætti þar með við sínu ellefta marki í deildinni. Morgan Gibbs-White skoraði síðan seinna mark Forest. Everton-menn hafa átt slappt tímabil og eru í 16. sæti deildarinnar með 17 stig.

Loks vann Manchester City

Englandsmeistarar Manchester City unnu þá útisigur á Leicester, 2:0. Þetta var fyrsti sigur liðsins síðan í byrjun desember. Savinho og Erling Haaland skoruðu mörk City-liðsins sem er með 31 stig í fimmta sæti deildarinnar. Leicester er aftur á móti í 18. sæti, fallsæti, með 14 stig.

Tottenham gengur áfram erfiðlega í deildinni en liðið gerði jafntefli gegn Wolves, 2:2, á Tottenham-leikvanginum. Tottenham er með 24 stig í ellefta sæti deildarinnar eftir fyrri helming tímabilsins, og gæti farið enn neðar á töflunni ef Manchester United vinnur Newcastle í dag.

Rodrigo Bentancur og Brennan Johnson skoruðu mörk Tottenham en fyrirliðinn Son Heung-min klúðraði víti. Hee-Chan Hwang og Jörgen Strand Larsen skoruðu þá mörk Úlfanna sem eru í 17. sæti með 16 stig.

Hörkuleikur í Lundúnum

Fukham og Bournemouth gerðu þá 2:2-jafntefli í hörkuleik á heimavelli Fulham í Lundúnum. Bæði lið hafa fagnað góðu gengi á tímabilinu en Fulham er í áttunda sæti deildarinnar með 29 stig á meðan Bournemouth er í sjötta sæti með 30.

Raul Jimenez og Harry Wilson skoruðu mörk Fulham-liðsins en Evanilson og Dango Outtara skoruðu mörk Bournemouth.

Loks vann Crystal Palace Southmapton, 2:1, á Selhurst Park í Lundúnum en Eberchi Eze skoraði sigurmarkið. Tyler Dibling kom Southampton yfir snemma leiks en Trevoh Chalobah jafnaði metin fyrir Palace-menn.

Eftir slappa byrjun hefur Palace-liðið spilað betur undanfarið og er í 15. sæti deildarinnar með 20 stig. Nýliðar Southampton eru aftur á móti í botnsætinu með sex stig, tíu stigum frá öruggu sæti.

19. umferðin heldur áfram í kvöld en Aston Villa og Brighton, Manchester United og Newcastle og Ipswich og Chelsea mætast. Síðan á nýársdag fær Brentford Arsenal í heimsókn.

Höf.: Jökull Þorkelsson