Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Í kaþólskum sið var fasta fyrir jólin og ekki til siðs að bera góðgæti á borð, enda átti að vera sem mestur munur á jólakræsingunum og föstumatnum. Þess vegna komst á sá siður að borða lélegt fiskmeti á þessum degi. Til marks um það er þessi vísa:
Á Þorláksdag í matinn minn
morkinn fékk ég hákarlinn
harðan fiskinn hálfbarinn
og hákarlsgrútarbræðinginn.
Skatan veiddist einkum á Vestfjarðamiðum og þótti enginn herramannsmatur, eins og lesa má í úttekt Árna Björnssonar á Vísindavefnum. „Í aldanna rás tókst Vestfirðingum á hinn bóginn að tilreiða úr skötunni mikið ljúfmeti eins og skötustöppuna, og mörgum þótti það óbrigðult merki þess að jólin væru í nánd þegar lykt tók að berast af skötustöppu.“ Skötuveislan á dánardegi Heilags Þorláks á því uppruna sinn fyrir vestan. Magnús Halldórsson yrkir um þennan þjóðlega sið:
„Fyrr var oft í koti kátt“
með kæsta skötu' á borðum.
Ef hurðin stóð í hálfa gátt
var hamingjan í skorðum.
Út á látið úrvals flot,
svo ilmur húsið fyllti.
Yfir krásum augun vot,
ekkert gleði spillti.
Eins við gerðum okkur þá
ekta skötustöppu.
Upp svo spruttu allir frá
andans geði slöppu.
„Margt eitt kvöld og margan dag“
ég mettur varð og rjóður.
Enda bætir allra hag
úrvals þjóðlegt fóður.
Ingólfur Ómar Ármannsson leggur út af því:
Skötuveisla vekur bros
vitin fyllir þefur.
Kæst og úldið eðaltros
engan svikið hefur.
Þá Reynhold Richter:
Skötu ljúfa Maggi minn
mörtólg út á læt,
ljúfa keytulykt ég finn
lygni augum; græt.
Halldór Guðlaugsson lætur ekki sitt eftir liggja um „vestfirska viðbitið“:
Ef hömsunum mótmælir maginn
og mörflot í æðarnar sest
er hnoðmör við heilsuna væginn
og hæfir því skötunni best.