Menntun Almar segir skólastjórnendur með góða yfirsýn yfir skóla en bæjarfulltrúar verði líka að fylgjast með.
Menntun Almar segir skólastjórnendur með góða yfirsýn yfir skóla en bæjarfulltrúar verði líka að fylgjast með. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í brennidepli Hólmfríður María Ragnhildard. hmr@mbl.is

Í brennidepli

Hólmfríður María Ragnhildard.

hmr@mbl.is

Garðabær vinnur nú að því að afla upplýsinga um námsárangur allra grunnskólanema bæjarins til að fá heildaryfirsýn yfir stöðu grunnskólanna og námsframvindu árganga. Þegar niðurstöður liggja fyrir verður tekið til skoðunar hvort innleiða eigi samræmd mælitæki fyrir grunnskóla svo bærinn geti fylgst betur árangri barna í námi.

Þetta segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar í samtali við mbl.is.

Hann tekur fram að skólastjórnendur hafi góða yfirsýn yfir það starf sem fari fram í skólunum en engu að síður sé mikilvægt að bæjarbúar og bæjarfulltrúar séu upplýstir um stöðu mála.

„Við virðumst hafa tapað einbeitingu á því hvað gögn um árangur geta skipt miklu máli. Auðvitað þarf að rýna þau rétt og fara rétt með þau. Það er vandasamt líka,“ segir bæjarstjórinn.

Átta grunnskólar

Á fundi skólanefndar Garðabæjar í ágúst var tekið til umræðu hvernig hægt væri að tryggja gæðaskólastarf.

„Skólanefnd telur nauðsynlegt að hafa samanburðarhæfar mælingar á námsárangri, meðal annars til að hægt sé að þróa kennsluaðferðir út frá árangri. Skólanefnd felur fræðslu- og menningarsviði að draga fram stöðu nemenda í Garðabæ varðandi námsárangur og námsframvindu í samstarfi við skólastjórnendur og hagaðila og gera tillögur til úrbóta eftir því sem við á,“ segir meðal annars í fundargerðinni.

Átta grunnskólar eru starfræktir í Garðabær, þar af tveir sem eru sjálfstætt starfandi. Í þremur af þessum átta skólum er kennsla á unglingastigi og eru tveir þeirra reknir af sveitarfélaginu.

Ólíkum kennsluaðferðum er beitt í skólunum, til að mynda styðst Garðaskóli við þá aðferð að skipta nemendum í hópa eftir námsgetu í einstaka fögum, eða í hægferð, miðferð og flugferð. Hefur skólinn beitt þessari aðferð í tugi ára.

„Í grunninn er verið að passa upp á það að þau sem komast lengra fái tækifæri til þess á meðan þau sem fara hægar yfir fái stuðning til þess að vinna úr því og bæta sig,“ segir Almar.

Nú hafa margir gagnrýnt þessa aðferð fyrir að skapa eins konar tossabekki sem margir eiga slæmar minningar um. „Reynslan í okkar skóla bendir ekki til að þetta hafi verið sérstakt vandamál á þennan hátt enda er þetta kerfi fjölbrautakerfi eins og það er kallað. Það þýðir að einstaklingur sem er mjög öflugur í stærðfræði fer á flugferð í stærðfræði en það getur verið að sami nemandi sé að ströggla í íslensku og þá fer hann í fyrirkomulag sem hentar honum þar. Það er ekki verið að draga börn í dilka einhliða heldur er verið að gera það eftir stöðu þeirra í námsgreinum og það er lykilatriði að nálgast þetta þannig.“

Almar segir bæinn ekki setja sig ekki upp á móti því að ólíkum kennsluaðferðum sé beitt svo lengi sem það sé í samræmi við aðalnámskrá og að markmiðum sé náð.

Almar segir auðvelt fyrir foreldra nemenda að nálgast upplýsingar um stöðu barna sinna í Mentor-kerfinu. Þá séu jafnframt gögn fyrir hendi sem veiti heildstæða yfirsýn yfir líðan barna í bænum og félagslega þátttöku þeirra. Þegar kemur aftur á móti að því að draga saman einkunnir barna í sama bekk, til að fá heildaryfirlit um stöðu árganga og skóla, flækjast málin.

„Þetta er miklu meiri vinna en ég hafði sjálfur áttað mig á. Þegar spurt er: Heyrðu, hvernig gengur bekknum hans, eða eftir atvikum árgangnum hans, þá er þetta bara mjög flókin vegferð að kalla fram með samræmdum hætti og skoða.“

Hann segir bæjarstjórn engu að síður staðráðna í að klára þetta verkefni.

„En það eru vonbrigði að gagnalega séð séum við ekki á betri stað. Þetta eru upplýsingar sem við ættum að geta framkallað með einni einfaldri skipun. Auðvitað hafa skólastjórnendur í hverjum skóla mjög góða tilfinningu og sýn sem við höfum ekki á vettvangi skólanefndar og bæjarstjórnar. Við höfum ekki áhyggjur af skólunum okkar. Þar er unnið gott starf og gengur vel. En við getum ekki sætt okkur við það sem bæjarfélag að við höfum ekki þessa yfirsýn,“ segir Almar.

„Næsta skref er að skoða þörfina á samræmdu námsmati þannig að við getum horft á sérhvern árgang og skoðað hvernig gengur í ákveðnum bekk frá ári til árs eða skoðað hvernig gengur yfir tíma hjá einstökum árgangi.“

MMS geti leyst vandann

Almar tekur fram að ekki sé búið að taka neinar ákvarðanir um samræmda námsmatið. Hann bendir á að Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sé að þróa samræmt námsmat, matsferilinn.

Eins og mbl.is hefur fjallað um á að innleiða matsferil í íslensku og stærðfræði á næsta skólaári. Ekki liggur fyrir hvenær matsferill verður tilbúinn til notkunar í fleiri fögum.

„Við fylgjumst að sjálfsögðu vel með þeim en við teljum líka nauðsynlegt að við sjálf tökum okkar ákvarðanir varðandi samræmt námsmat. Ef til dæmis þeirra vinna dregst þá segi ég fyrir hönd Garðabæjar að við höfum áhuga á að vinna þetta áfram og værum þá tilbúin að vinna það með öðrum sveitarfélögum – því það er mjög aðkallandi að við eigum einhvers konar samræmda mælikvarða,“ segir Almar og heldur áfram:

„MMS getur leyst vandann en við teljum að við þurfum grípa til þeirra ráða sem við sjálf höfum, hugsa um okkur og okkar skóla. Þetta er aðkallandi mál og við verðum að grípa til ráðstafana sjálf og hafa okkar gögn á hreinu ef það er það sem þarf.“

Höf.: Hólmfríður María Ragnhildard.