Gísli Vilhjálmsson
Þeir sem hafa fylgst með fréttum nýjasta afkvæmis þéttingarstefnu borgarmeirihlutans í Reykjavík í Álfabakka 2 í Breiðholti eru hneykslaðir á getuleysi borgarfulltrúa Reykjavíkur. Enn á ný er því ljóstrað upp að gengið er freklega á sjálfsagðan rétt þeirra sem búa í íbúðahverfum með því að troða upp á íbúana risavöxnum fjölbýlishúsum eða atvinnustarfsemi sem þrengir að þeim sem fyrir eru með skertu útsýni, skuggavarpi, ónæði og aukningu umferðar.
Skipulagsyfirvöld í Reykjavík eru þó ekki einu sökudólgarnir á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir að Garðabær hafi mikið af lausu byggingarsvæði fyrir atvinnustarfsemi utan íbúðasvæða er verið að skipuleggja mikla atvinnustarfsemi í miðju íbúðahverfi, svokölluðu Arnarlandi, sem er í miðri lágreistri íbúðabyggð milli Akrahverfis og Arnarness í Garðabæ auk nágranna í Kópavogi. Þar áætlar Arion banki auk annarra fjárfesta að reisa þrjár risabyggingar, 6-8 hæða turnbyggingar, í hæsta hluta Arnarlandsins við Hafnarfjarðarveginn á gjábrúninni. Augljóst er að slíkir „skýjakljúfar“ sem gína yfir lágreistri byggð einbýlishúsa og raðhúsa valda skuggavarpi á lágreista byggðina í kring. Þar að auki verður takmarkað útsýni hjá þeim sem fyrir ofan turnana búa. Þessu fylgir aukin umferð um svæðið, sem nóg er fyrir.
Íbúar Garðabæjar og Kópavogs á svæðinu, sem sjá ekki bara fyrir sér 2-3 hæða „grænan vegg“ heldur 6-8 hæða „hamravegg“, hafa mótmælt deiluskipulaginu. Deiluskipulagið er unnið af eigendum landsins og þrátt fyrir ósk íbúa nágrennis um að hætt verði við þessi áform um atvinnuhúsnæði inni í miðju íbúðahverfi virðist stjórn bæjarins vera máttlaus við að losa okkur íbúana undan þessum óskapnaði. Það má þó segja stjórn Garðabæjar til hróss að þessar áætlanir eru vel kynntar, en lítið tillit verið tekið til athugasemda íbúa.
Arnarlandið hallast landfræðilega, er í raun aflíðandi brekka. Hæsti hluti brekkunnar er við Arnarnesveg þar sem hann þverar Hafnarfjarðarveg við gjána milli Arnarness og Akrahverfisins. Landinu hallar niður í dalverpið þar sem íþróttasvæði Kópavogs liggur með sínum stórbyggingum og Kópavogslækurinn rennur í sjó fram. Ef einhvers staðar ætti að setja niður atvinnuhúsnæði á þessum landskika, þá ætti að setja niður 2-4 hæða hús neðst í brekkuna við hálfmánalaga landamæri Kópavogs en ekki eins og nú er skipulagt í deiluskipulagi landeigenda á hæsta punkti landsins á gjábrún Hafnarfjarðavegar. Við þá breytingu myndi skuggavarpið lenda að mestu leyti á óbyggðu svæði og ekki eyðileggja útsýni þeirra sem ofar búa. Með núverandi tillögum gína skýjakljúfarnir yfir öllu nágrenninu með ígildi „risaveggjar“ sem eyðileggur allt útsýni fyrir þeim er búa fyrir aftan vegginn og varpar skugga á nágranna sem búa hinum megin við Hafnarfjarðar- og Arnarnesveginn.
Einbýlishúsaeigendur á Arnarnesi, og ég býst við að það eigi það sama eigi við í Akrahverfinu, hafa þurft að þola mjög strangar reglur um hæðartakmörk á húsum sínum þannig að þeir skyggi ekki á útsýni þeirra sem fyrir ofan götu búa. Ekki má muna sentimetra á auglýstum hæðarkvóta án þess að fá athugasemdir frá byggingarfulltrúa Garðabæjar. Hvernig má það vera að hins vegar leyfist öðrum í 200 metra fjarlægð hinum megin við Hafnarfjarðarveginn að reisa 6-8 hæða skýjakljúfa? Þar hallar á jafnræði íbúa Garðabæjar í boði Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Það er ekki verið að hugsa um velferð kjósenda með framkomnum hugmyndum eigenda landsins. Málið lyktar af peningahagsmunum en ekki velferð íbúa. Mig grunar að bæjarfulltrúar myndu ekki sjálfir vilja búa í skugga þessara mannvirkja, ekki frekar en íbúar Búseta á bakhlið græna veggjarins í Álfabakka 2.
Fyrir ofan „hamravegginn“ í suðurhluta Arnarlandsins er áætlað að reisa mikla íbúðabyggð, sem við fögnum sem á svæðinu búum. Með þeim hugmyndum sínum að reisa íbúðabyggð á bak við skýjakljúfana sem eru teiknaðir á hæsta hluta landsins eru þessir sömu eigendur Arnarlandsins að mínu áliti að minnka verðgildi íbúðabyggðarinnar sem fyrir ofan „hamravegginn“ á að byggja. Turnarnir þrír munu takmarka sjávarsýn út á Faxaflóa og voginn fyrir neðan. Margir íbúðarkaupendur eru nefnilega tilbúnir að greiða aukalega fyrir útsýni. Það virðist hafa farið fram hjá þeim sem eru að skipuleggja svæðið.
Í stað þess að reyna að troða atvinnuhúsnæði á þennan smáblett í miðju íbúðahverfi sem Arnarlandið er væri auðvitað heillavænlegast að núverandi eigendum Arnarlandsins væri boðin önnur lóð í landi Garðabæjar fyrir atvinnustarfsemina og Arnarlandið yrði hrein íbúðabyggð með ekki hærri byggingum en 2-4 hæða.
Heimila ætti aðeins tveggja hæða íbúðabyggingar eða bílhýsi við hæsta hluta landsins við Hafnarfjarðarveg. Atvinnuhúsnæði skapar aukinn umferðarþunga og slysahættu inni í miðri íbúðabyggð. Besta lausnin væri að stjórn Garðabæjar stæði í lappirnar og stöðvaði byggingu þessa risavaxna atvinnuhúsnæðis og kæmi því fyrir annars staðar í Garðabæ. Það er nóg annað landrými í Garðabæ með betri aðkomu og nægum bílastæðum fyrir atvinnustarfsemi. Lærum af mistökum annarra.
Höfundur er íbúi í Garðabæ.