Andalúsía
Suður af Extremadura er hin fornfræga Andalúsía. Á tímum Rómverja nefndist þetta hérað Baetica. En á 5. öld réðust Vandalar inn í héraðið og eftir það bar það nafn þeirra, Vandalúsía sem síðar varð Andalúsía. Í kjölfarið á Vandölum komu Vestgotar, en þeir urðu á endanum að lúta í lægra haldi fyrir Márum. Alhambrahöllin í Granada er ein af fegurstu menjum um veru Mára á Íberíuskaganum
Andalúsía er í huga sumra „spánskasta“ hérað Spánar. Hérað þetta er annálað fyrir gott og fjölbreytilegt hráefni til matargerðar, og mikið úrval er þar af gómsætum og þjóðlegum réttum. Hinir sérdeilis vinsælu tapas-smáréttir eru, að sumra sögn, upprunnir í Andalúsíu. Heiti tapassmárétta mun vera dregið af spænska orðinu tapar, sem merkir að hylja (e.t.v. skylt orðinu toppur). Ein sagan um uppruna tapasrétta er að um hafi verið að ræða brauð- eða kjötsneiðar sem sett voru á sérríglös á börum í Andalúsíu til þess að koma í veg fyrir að flugur leituðu í glösin. Nú eru tapasréttir ómissandi hluti af fæðuframboði veitingahúsa á Spáni og eru sennilega langt komnir með að leggja undir sig heiminn. En það er fleira en tapas sem á sinn fæðingarstað í Andalúsíu.
Ein sérkennilegasta dans- og tónlistarhefð á Spáni og þótt víðar væri leitað er flamenco, sem varð til í Andalúsíu í byrjun nýaldar og þróaðist þar í gegnum aldirnar. Uppruni flamenco er ráðgáta, en margir álíta að hann sé menningarlegur Paso doble, paradans. Táknræn átök nauts og nautabana, sambræðingur Sígauna (Rómafólks), Mára, gyðinga og Andalúsíubúa. Og hið umdeilda nautaat, sem mun hafa byrjað á frumstæðu formi á þorpstorgunum, er tengt Andalúsíu umfram önnur Spánarhéruð. Átökin við nautin koma skýrt fram í dönsum á borð við spænska paradansinn, paso doble.
Og fólk sem er að leita sér að góðum sólarströndum til að hvíla sig á fer ekki bónleitt til búðar. Í Andalúsíu er hin margfræga Costa del Sol, sem þýðir bókstaflega sólarströnd, og þar er að finna staði sem flestir hafa heyrt nefnda, svo sem Torremolimos, Málaga og Marbella. Ein af frægustu borgum Andalúsíu er Cádiz, þar sem er að finna fornfrægar kirkjur, rómverskt leikhús og fleira forvitnilegt, og í byrjun mars ár hvert (alveg frá byrjun 16. aldar) er þar haldin ein frægasta kjötkveðjuhátíð (karnival) á Spáni.
Syðsti hluti Spánar, Andalúsía, er fjölbreyttur heimur landslags og menningar. Eitt af því sem vekur bæði undrun og eftirtekt eru endalausar raðir ólívutrjáa, sem víða blasa þar við. „Hvernig ætli gangi að henda reiður á öllum þessum trjám, sinna þeim og taka uppskeruna í hús?“ Spurningar af þessu tagi leita á hugann. En þá þarf að hafa í huga að fólkið þarna hefur sinnt sínum aragrúa ólífutrjáa í þúsundir ára og þekkingin á þessari ræktun á sér djúpar rætur. Í fornöld var, ekki síður en nú, mikil verslun með ólífuolíu. Til að mynda keyptu íbúar Rómaborgar gríðarlegt magn af henni frá Andalúsíu. Olían var flutt sjóleiðis í amfórum, en það eru leirílát sem tóku tugi lítra og voru til forna einkum notuð til geymslu og flutnings á fljótandi varningi, svo sem víni, ólífuolíu og fisksósu, en einnig á hveiti.
Testaccio-hæð er manngerð hæð í Róm, mynduð úr brotnum amfórum undan innfluttri ólífuolíu á velmektartímum rómverska heimsveldisins. Hæðin sem er mynduð úr meira en 50 milljónum amfóra, er um kílómetri að ummáli og er á okkar tímum 35 metra há. Hún stendur nálægt austurbakka Tíberfljóts og er í um 20 mín. göngufæri frá Paðreimnum (Circus Maximus). Flestar amfórurnar í Testaccio-hæð rúmuðu um 70 lítra. Innflutningur olíunnar í amfórunum á þessari hæð var að mestu á vegum ríkisins, og búast má við að einkaaðilar hafi einnig stundað innflutning á ólívuolíu.
Megnið af olíu-amfórum þessum var flutt inn frá Baeticu, en það samsvarar nokkurn veginn núverandi Andalúsíu og var eitt af þremur skattlöndum Rómverja á Pýreneaskaganum. Einnig var nokkuð af amfórum frá Túnis og Líbýu. Sennileg ástæða fyrir því að amfórur þessar voru ekki endurnýttar er að það hafi ekki svarað kostnaði eða verið ómögulegt að hreinsa efnaleifarnar eftir olíuna. Sama gilti ekki um amfórur undan hveiti eða víni sem voru hreinar eftir notkun og því hægt að endurnýta þær.
Nú er nóg komið um amfórurnar. Sagt er að rómverska heiti Andalúsíu, Baetica, hafi komið af heiti stórárinnar Baetis, sem nú nefnist Guadalquivir. Fljót þetta er næst-stærst fljóta á Spáni (Ebró er stærst), og á tímum Rómverja var áin skipgeng alla leið upp til Cordoba, sem er höfuðborg samnefnds héraðs. Í Cordoba stendur enn voldug rómversk brú yfir Guadalquivir.
Þegar Rómarveldi hrundi og Rómverjarnir yfirgáfu svæðið, komu hinir sænsku Vestgotar. Síðar tóku Márarnir við og á þeirra tímum varð Cordoba miðstöð mennta og vísinda, og stærst borga í Evrópu. Þegar kristnir Spánverjar yfirtóku borgina seig frægðarsól hennar smám saman til viðar og á tímabili var þessi mikla heimsborg flestum gleymd. Við vesturbakka Guadalquivir í borginni, nálægt gömlu rómversku brúnni, er merkilegur staður sem endurspeglar að vissu marki sögu borgarinnar, en þar er að finna ummerki um helstu átrúnaði í borginni í meira en tvö þúsund ár. Þegar Rómverjar komu á svæðið fannst þeim upplagt að reisa musteri, helgað Janusi, á þessum stað. Leifar musteris þessa eru nú með öllu horfnar, en þegar Vestgotarnir komu á svæðið reistu þeir kirkju á sama stað.
Eitthvað hefur verið merkilegt við staðinn út frá sjónarhóli trúarinnar, því þegar Gotarnir höfðu hrökklast brott frá Cordoba og Márarnir tekið við stjórnartaumunum, þá byggðu þeir mosku mikla á sama stað og fyrrnefnd guðshús höfðu staðið. Moska þessi varð víðáttumikið flæmi fjölmargra og fagurskreyttra súlnaraða, og utan við hana garður mikill og turn.
Örlitlar menjar er að finna um kirkju Gotanna inni í moskunni. Svo kom að því að kristnir Spánverjar hröktu Márana í burtu og þá var ekki annað í stöðunni en að reisa myndarlega dómkirkju. En hvar? Jú, auðvitað nákvæmlega á sama stað og öll hin fyrrri guðshús. En Spánverjarnir höguðu byggingunni með algjörlega nýjum hætti og óvæntum. Ef til vill einsdæmi í heiminum: Þeir byggðu kirkjuna inni í moskunni og upp úr henni. Það er varla hægt að lýsa þessu furðuverki með orðum, en á bls. 118 er mynd af þessu sérstaka fyrirbæri. Spölkorn frá musteris- kirkju-mosku-dómkirkju-blendingi þessum er svo synagoga gyðinganna, fyrirferðarlítil og lætur hafa svolítið fyrir því að finna sig. Það hefði svo sem ekkert munað um að hola henni líka inn í moskuna á sínum tíma.
En þó að Márarnir hafi reist þessa miklu mosku í Cordoba, þá var eins og yfirstéttin kynni ekki almennilega við sig í glaumnum í þessari stórborg. Svo þeir byggðu bara aðra borg, Madinat al-Zahra í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Cordoba. Hafist var handa við byggingu þessarar borgar um 940, og 25 árum síðar var hún fullgerð. Það var fljótgert að byggja hana, en hún var heldur ekki lengi í notkun, í um 65 ár. Borg þessi, sem hýsti moskur, stjórnarráðsskrifstofur, móttökusali, verkstæði, garða, böð og íbúahverfi, var höfuðborg Andalúsíu, eða Al-Andalus þann tíma sem hún var við lýði. Í gegnum aldirnar hafa súlnaverk og veggir verið rifin niður og notuð sem byggingarefni í nágrenninu, en nú er rústaborg þessi friðuð og unnið að endurbyggingu.
Í mótsögn við glæsivistarverur höfðingja eru hin hefðbundnu híbýli íbúanna í bænum Guadix, í Suðaustur-Andalúsíu. Þar býr fólk nefnilega í hellum. Hellar þessir eru manngerðir, fleygaðir inn í gljúft bergið. Þetta hljómar ef til vill ekki vel í fyrstu, en kostir þessara vistarvera eru ýmsir. Til að mynda má fjölga herbergjum eftir því sem fjölskyldan stækkar, og hitaeinangrun er góð. Svipaður hiti innandyra allt árið. Þegar farið er inn í eina af kirkjum staðarins er innangengt þaðan í gömlu kirkjuna, sem var höggvin inn í bergið. Til gamans má geta þess, fyrir Íslendinga sem langar að fá sér hefðbundinn mat á ferðalagi sínu, að í smábúð einni á staðnum er hægt að kaupa dýrndis svínasultu. Guadix má muna fífil sinn fegri. Til að mynda er nú verið að grafa þar upp rómverskt leikhús og í eina tíð var bærinn mikilvægur staður fyrir Márana.