Ólafur Hannesson
Ólafur Hannesson
Það er ljóst að hérna er eitthvað sem þarf að laga í bankakerfinu.

Ólafur Hannesson

Við fermingu fékk ég eins og svo margir aðrir aura frá ömmu og afa að gjöf. Þessir aurar voru lagðir inn á verðtryggðan bankareikning hjá forvera Arion banka. Ég ákvað að snerta ekki við þessum pening og leyfa honum að ávaxtast á reikningnum. Afi var séður með peninga og hann hefði haft gaman af því að vita af peningnum inni á reikningi til öryggis. Græddur er geymdur eyrir eins og sagt er.

Reglulega fékk ég svo yfirlit frá bankanum og fylgdist með sparnaðinum með þeim hætti. Svo hætti bankinn að senda yfirlit og maður fór mjög slitrótt inn á heimabankann til að skoða innstæðuna, þar sem þetta var eini reikningurinn minn hjá þessum banka. Ég vissi af aurunum þarna inni og hugsaði til afa og ömmu vitandi af þessum reikningi.

En einn daginn þegar ég ætlaði að kíkja á reikninginn var hann þó horfinn úr einkabankanum. Ég hringdi í bankann og fékk þau svör að ég ætti engan bankareikning hjá þeim. Ég bað hann um að fletta sögunni og sjá að ég hefði verið með reikning hjá þeim en ekkert fann maðurinn. Með rannsókn á gömlum skattaskýrslum fann ég númerið á bankareikningnum til að bankinn gæti flett upp reikningnum sem var einhverra hluta vegna ekkert tengdur mér í kerfinu.

Kom þá í ljós að reikningurinn hefði verið tekinn úr umferð og settur á biðreikning. Það sem vakti athygli mína voru nokkur atriði. Bankinn hafði tekið reikninginn minn úr umferð án þess að hafa fyrir því að láta mig vita, þeir höfðu ekki samband við mig til að spyrja mig um þetta eða láta mig vita um þetta þrátt fyrir að hafa tengiliðaupplýsingarnar mínar – hægur leikur hefði verið að láta mig vita. Annað sem mér fannst sérstakt var að reikningurinn var allt í einu hvergi sjáanlegur í tölvugögnum bankans um mig. Hvers vegna var saga reikningsins þurrkuð út úr mínum upplýsingum í kerfum bankans?

Bankinn hafði svo samband til að forvitnast um hvert ætti að millifæra peninginn, enginn áhugi var á að endurvirkja reikninginn og hann hafði í raun ekki áhuga á því að hafa mig áfram sem viðskiptamann. Ég spurði hvað þetta var mikið sem þeir ætluðu að millifæra og kom þá í ljós að þeir ætluðu einungis að millifæra það sem var á reikningnum þegar þeir hirtu hann af mér. Ég varð nú reiður og sagði að þeir þyrftu að lágmarki að greiða þá vexti og verðbætur sem hefðu tapast á þeim tíma er þeir héldu fjármununum í gíslingu, sem þeir að endingu gerðu.

Óneitanlega varð mér hugsað til þeirra sem gætu lent í sambærilegum málum en láta sér hugsanlega lynda að fá svarið hjá bankanum að þeir eigi engan reikning, eða þegar bankinn reynir að sleppa við að greiða vexti og verðbætur sem honum ber að greiða. Það er ljóst að hérna er eitthvað sem þarf að laga í bankakerfinu og veltir maður því fyrir sér hvort og þá hversu mikla fjármuni bankar hafa mögulega tekið frá fólki með þessum hætti. Hafa þeir tekið fermingarpeningana af fleirum? Eru það afar og ömmur okkar sem hafa lent í þessu, eldra fólk sem er ekki mikið að spá í hina og þessa reikninga sem þau gætu átt eftir að hafa nurlað saman sjóðum yfir ævina?

Höfundur er framkvæmdastjóri.

Höf.: Ólafur Hannesson