Kolbrún Bergþórsdóttir
Það er siður um áramót að líta fremur til baka en fram á veg. Þannig eru fjölmiðlar gríðarlega uppteknir á gamlársdag að rifja upp fyrir manni hvað gerðist á árinu sem er að líða. Til er fólk sem hefur engan áhuga á slíkum upprifjunum. Ljósvakahöfundur er þar á meðal og flýr því undan innlendum og erlendum annálum. Það verður ekki gert á annan veg en þann að hlusta ekki á útvarp og horfa ekki á sjónvarp þennan dag. Maður er ekki að missa af miklu því allar fréttirnar hafa verið sagðar áður.
Gamlársdagur er líka dagurinn þegar maður á að bíða spenntur eftir kvöldinu og áramótaskaupinu. Þannig hefur það verið í áratugi. Ljósvakahöfundur veltir því fyrir sér hvort það sé ekki nánast kjánalegt að heil þjóð, að vísu frekar fámenn, skuli einn dag á ári lifa fyrir það að geta næstu daga spurt þá sem hún hittir: Hvernig fannst þér skaupið?
Af vissum ástæðum hefur ljósvakahöfundur í mörg herrans ár ekki horft á skaupið á gamlárskvöld, oft einhverjum dögum seinna en stundum hefur hún alls ekki séð það. Fólki finnst það ekki gott mál og eiginlega ámælisvert. Það er víst eins konar þegnskylda að horfa á skaupið og segja sem flestum frá skoðun sinni á því. Annars telst maður alls ekki viðræðuhæfur.