Tryggvi Björn Stefánsson fæddist 30. desember 1949 í Reykjavík og bjó í Vogahverfinu. „Við áttum heima í íbúð sem var í fiskverkunarstöð föður míns, Stefáns Guðnasonar, sem saltaði og herti fisk til útflutnings og rak frystihús í Súðarvogi 1. Uppeldisstöðvarnar voru því í fiskverkuninni og frystihúsinu.
Ég var í sveit í Garði í Fnjóskadal sumrin 1958 og 1960 og kynntist þar fornri og núna horfinni vinnu og búsetu til sveita og sitja eftir miklar og gagnlegar minningar frá þeim tíma.“
Fyrstu þrjú árin var Tryggvi í barnaskóla í Langholtsskóla en frá 10 ára í Vogaskóla og lauk landsprófi þar 1965. Hann var í Menntaskólanum í Reykjavík 1965-1969 og lauk stúdentsprófi frá stærðfræðideild. „Árin 1968 og 1969 voru ár byltinga og umróts hjá ungu fólki sem hafði mikil áhrif alls staðar í Evrópu. Veran í MR einkenndist af þessum áhrifum.“
Tryggvi byrjaði í líffræði í Háskóla Íslands haustið 1969 en hætti þar eftir eitt ár. Hann var í Háskólanum í Bergen í Noregi frá 1970-1973 í efnafræði og lífefnafræði en flutti þá aftur til Íslands og fór í læknadeild HÍ og lauk embættisprófi í læknisfræði vorið 1980. Haustið 1975 var hann í Lundi í Svíþjóð og las eðlisefnafræði eitt misseri. Hann var kandidatsár á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 1980-1981 og síðan í Siglufjarðarhéraði 1981-1982. Hann vann á handlækningadeild FSA 1982-1984.
Tryggvi flutti til Västerås í Svíþjóð sumarið 1984 og lærði skurðlækningar þar til 1989. Hann flutti til Uppsala og var þar í framhaldsnámi í skurðlækningum í fimm ár til ársins 1994. Hann var á brjóstholsskurðlækningadeild í sex mánuði og síðan á skurðlækningadeild í magaaðgerðum, bris- og lifraraðgerðum og í lokin í þrjú ár í ristil- og endaþarmsskurðlækningum. Tryggvi lauk doktorsprófi frá Uppsalaháskóla í nóvember 1984 (diverticulitis of the sigmoid colon).
Tryggvi byrjaði á Borgarspítalanum í Reykjavík í desember 1984 og síðar Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Hann flutti á Landspítalann 2003 við sameiningu sjúkrahúsanna og var þar til 2019. Frá 2006-2016 var hann í 50-70% vinnu á skurðlækningadeild sjúkrahússins í Västerås í Svíþjóð.
„Ég hafði alltaf móttökustarfsemi utan sjúkrahússins, var á St. Jósefsspítala 1995-1997, Lækningu í Lágmúla 1997-2000, Læknastöðinnni í Glæsibæ 2000-2021 og í Klíníkinni í Ármúla 9 frá 2021 til dagsins í dag. Ég var einnig oft í afleysingum á Sjúkrahúsinu á Akureyri og hafði móttöku á Læknastofum Akureyrar þangað til covid-faraldurinn kom 2020.“
Tryggvi sat í samninganefnd Læknafélags Íslands, hann hefur skrifað ritrýndar greinar um læknisfræði.
„Í frítímum hef ég mest verið í sumarbústað í Grímsnesi með börnum og barnabörnum. Ég hef haft gaman af stangveiði, bæði laxi og silungi, og farið nokkrar ferðir að Reykjavatni á Arnarvatnsheiði.“
Fjölskylda
Eiginkona Tryggva er Unnur Sigursveinsdóttir, f. 11.1. 1949. Þau bjuggu á Kársnesbraut í Kópavogi 1974-1980, á Akureyri 1980-1982, Siglufirði 1982-1983, Akureyri 1983-1984, í Västerås 1984-1989, Uppsölum 1989-1994 og Kópavogi síðan 1994. Núverandi búseta er í Lundarhverfi.
Foreldrar Unnar voru hjónin Sveinbjörg Rósantsdóttir, f. 18.8. 1924, d. 6.9. 2013, húsmóðir á Akureyri, og Sigursveinn Árnason, f. 21.6. 1919, d. 5.8. 1985, bílstjóri á Akureyri.
Börn Tryggva og Unnar eru: 1) Lilja, f. 23.10. 1978, vélaverkfræðingur hjá Orkuveitunni í Reykjavík; 2) Friðrik Þór, f. 13.12. 1984, háls-, nef- og eyrnalæknir í Västerås í Svíþjóð. Maki: Fjóla Ósk Aðalsteinsdóttir, f. 9.6. 1984, hagfræðingur hjá Nordea í Svíþjóð. Börn: Emilía Björg, f. 2013, og Laufey Kristín, f. 2013. 3) Valgerður, f. 3.5. 1988, sjúkraþjálfari í Reykjavík. Maki: Sigurjón Viðar Svavarsson, f. 4.6. 1982, tölvunarfræðingur og tæknistjóri hjá PaxFlow. Börn: Embla Björg, f. 2014, Þór Huginn, f. 2014, og Móey Sif, f. 2021.
Systkini Tryggva eru: 1) Þórarinn Stefánsson, f. 25.7. 1941, verkfræðingur og fv. kennari við Háskólann í Þrándheimi, búsettur í Noregi og Reykjavík; 2) Guðni Stefánsson, f. 9.6. 1947, menntunarfræðingur í Reykjavík; 3) Valgerður Stefánsdóttir, f. 8.9. 1953, táknmálssérfræðingur og fyrrverandi forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, búsett í Hafnarfirði, og 4) Ástríður Stefánsdóttir, f. 10.02. 1961, læknir og siðfræðingur, prófessor við HÍ.
Foreldrar Tryggva voru hjónin Stefán Guðnason, f. 5.8. 1911, d. 3.4. 1988, forstjóri í Reykjavík, og Anna Þórarinsdóttir, f. 23.7. 1918, d. 24.6. 2006, sjúkraþjálfari í Reykjavík.