Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
Nýr mennta- og barnamálaráðherra, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, segir hlutverkið leggjast gríðarlega vel í sig. Hún sé þó með smáhnút í maganum enda sé ráðuneytið mjög stórt, margt sé undir þegar komi að málaflokknum og um mikið ábyrgðarhlutverk að ræða. „Ég er búin að fara í ráðuneytið og hitta allt fólkið. Þarna er verið að vinna virkilega gott starf og mér hefur verið einstaklega vel tekið. Ég hlakka bara til þess sem fram undan er.“
Ásthildur Lóa starfaði sem grunnskólakennari til margra ára. Hún segir það að koma barni til manns vera þróun og telur að grípa þurfi fyrr inn í þau vandamál sem koma upp í skólunum til að koma í veg fyrir að þau vaxi og versni. Tryggja þurfi forvarnir og fjárfesta í farsæld barna. Börn fái oft þjónustu of seint þannig að vandinn geti vaxið mikið og börn geti þurft þunga og sérhæfða þjónustu síðar.
Kraftaverk á hverjum degi
„Það eru gríðarlega margir þættir sem spila inn í hvernig tekst til að mæta börnum á þeim stað sem þau eru og við heyrum af þeim sem verst gengur hjá. Við heyrum ekki af öllum þeim sem grunnskólinn nær að mæta,“ segir Ásthildur og bætir við að mjög gott starf sé unnið á öllum skólastigum og kraftaverk unnin á hverjum degi. „Það er margt vel gert og vel unnið inni í skólunum og oft við mjög erfiðar aðstæður.“ Ásthildur segir aðspurð að örugglega þurfi að einhverju leyti að vinna að málum með öðrum ráðuneytum. Ríkisstjórnin ætli að vinna saman en ekki lokast inni í einhverjum sílóum og að unnið verði eftir þörfum með þeim ráðherrum og ráðuneytum sem komi að viðkomandi málaflokki.
Ásthildur segir nýja ríkisstjórn hefja störf á svolítið furðulegum tíma, rétt inni í jólaleyfinu. Hún segist hafa hitt stóran hluta fólksins í ráðuneytinu en sitt fyrsta verk í embætti verði að fara um ráðuneytið, sjá að hverju fólk er að vinna og átta sig á því hvernig allt liggur áður en farið verði í að vinna þingmálaskrá og þess háttar. Ráðherrann, sem tók við lyklunum að ráðuneytinu fyrir rúmri viku, hefur nú þegar átt fundi með ráðuneytisstjóra og nokkrum öðrum innan ráðuneytisins en segir starfið fara á fullt eftir áramótin.
Bæta þurfi kjör kennara
Ráðherrann segir allt of mörg börn ekki koma almennilega læs út úr skólakerfinu og jafnvel mjög illa læs. Þá segir hún kerfið ekki ná nægilega vel utan um innflytjendur hvað íslenskuna varðar. Ef fólk læri ekki íslensku geti það illa orðið fullir þátttakendur í þjóðfélaginu. Ásthildur telur að hugsanlega þurfi að endurskoða samræmt námsmat en á síður von á að horfið verði aftur til baka til gömlu samræmdu prófanna – ekki sé stemning fyrir því. Þá er hún frekar fylgjandi einhvers konar símabanni eða takmörkunum á snjallsímanotkun í grunnskólum.
„Við fullorðna fólkið ráðum varla við samfélagsmiðlana og getum varla lagt tækin frá okkur, hvað þá börn. Það þarf að skoða mjög vel hugmyndir um símabann og ég er frekar meðmælt því,“ segir ráðherrann.
Erfitt er fyrir Ásthildi Lóu, sem tók við fyrir skömmu, að svara því hvort hún muni beita sér í kjaradeilu kennara en hún telur að kjör þeirra þurfi að bæta og segir alvarlegt ef ríkið hefur ekki efnt samkomulag við þá síðan 2016.