Jón Sigurgeirsson
Nýkjörinn alþingismaður, Snorri Másson, heldur því fram í aðsendri grein að heimilt sé að beita hóp í viðkvæmri stöðu ofbeldi og þeir sem taka til varnar eigi ekki rétt á að fá styrki frá ríkinu. Hann heldur því fram að málfrelsi feli í sér rétt til ofbeldis. Samkvæmt því gæti ég sagt að Snorri væri vændissali og ég hefði rétt á að segja það án nokkurra sannana.
Nei, Snorri. Frelsið takmarkast við það að óheimilt er að ganga á rétt annarra til frelsis. Ég hef ekki heimild til að kalla þig ónefnum svo sem vændissala af því ég hef ekkert sem einu sinni gefur tilefni til þess, hvað þá heldur sannanir.
Einstaklingur með leg sem upplifir sig sem eitthvað annað en konu hefur rétt á að vera það meðan viðkomandi gengur ekki á rétt annarra. Það er kjarninn í vestrænum frelsishugmyndum. Frelsið er ekki eingöngu fyrir menn sem falla að reglustiku meðalmennskunnar heldur einnig hina sem skera sig úr.
Ég hef alltaf talið þá aumingja sem ráðast á minni máttar. Jaðarsettir hópar eru minnimáttar og rétt að veita þeim aðhald sem á þá ráðast.
Það er ekki skoðun að halda því fram að einstaklingur með leg geti ekki talið sig vera annað en kona. Það er ekki heldur staðreynd því viðkomandi þekkir ekki hvernig tilfinningin – fyrir hvers kyns viðkomandi er – mótast. Hún er ekki lærð. Hún breytist ekki vegna árása öfgamanna sem hafa enga ástæðu fyrir fullyrðingum sínum aðra en ofbeldishneigð.
Já, það er ofbeldi að niðurlægja aðra, ekki síst þegar um er að ræða jaðarsettan hóp. Stöðugar niðurlægingar valda ekki síðri skaða en þegar beitt er líkamlegu ofbeldi. Þú hefur skipað þér í hóp með ofbeldismönnum og snúið út úr hugtakinu málfrelsi. Ég vona að það sé vegna þess að þú sért illa upplýstur frekar en að vera illa innrættur.
Höfundur er aldraður lögfræðingur.