Framtíðin er undir í skáldsögunni Breiðþotur eftir Tómas Ævar Ólafsson. Í þessari fyrstu skáldsögu sinni tekur höfundurinn fyrir loftslagsvána, stærðarinnar gagnaleka og uppgang fasisma en þetta er líka saga um vináttu. Þrátt fyrir að ógn steðji að heimsbyggðinni er hið mannlega í forgrunni. Breiðþotur er mikið verk og höfundur á hrós skilið fyrir að kasta sér út í þetta metnaðarfulla verkefni.
Lestu líka Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur og Veðurfregnir og jarðarfarir eftir Maó Alheimsdóttur.
Tjörnin eftir Rán Flygenring er leiftrandi skemmtileg barnabók sem fjallar um það þegar systkini finna uppþornaða tjörn í garðinum hjá sér og ákveða að hleypa lífi í hana á ný. Tjörnin verður afskaplega vinsæl en því fylgja ýmis vandamál. Myndir Ránar af þessari náttúru í borgarlandslaginu og uppátækjum systkinanna eru bæði fyndnar og fallegar. Þessi sniðuga bók er full af hversdagstöfrum.
Lesið líka Fíasól í logandi vandræðum eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og Halldór Baldursson og Dótarímur eftir Þórarin Eldjárn og Þórarin Má Baldursson.
Skáldævisaga Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Í skugga trjánna, er heillandi frásögn sem hverfist um tvö hjónabönd og tvo skilnaði. Þar skrifar höfundur af næmni um breyskleika sinn og fólksins í kringum sig. Frásögnin er oft nærgöngul, fátt dregið undan, en líka innileg og kærleiksrík. Ekki liggur í augum uppi hvar mörk skáldskapar og raunveruleika liggja í þessum texta, sem er beinskeyttur en um leið afar skáldlegur og fullur af von þrátt fyrir erfiðleika og dauða.
Lesið líka Himintungl yfir heimsins ystu brún eftir Jón Kalman Stefánsson og Eldri konur eftir Evu Rún Snorradóttur.
Lögreglumaðurinn Hörður Grímsson, rauðhærði risinn, hefur marga fjöruna sopið en ekki lent í öðru eins blóðbaði og blasir við í lok Dauðinn einn var vitni eftir Stefán Mána. Þetta er besta bókin um Hörð hingað til, spennan mest og fléttan fimlegust. Eins og vanalega er gagnrýnibroddur í bókinni og ýmsir fá til tevatnsins, ekki síst sértrúarsöfnuðir, og bókin rís hæst í uppgjöri óþokkans við foreldra sína.
Lesið líka Kvöldið sem hún hvarf eftir Evu Björgu Ægisdóttur og Voðaverk í Vesturbænum eftir Jónínu Leósdóttur.
Börn í Reykjavík eftir Guðjón Friðriksson segir frá lífi barna í Reykjavík frá því seint á 19. öld til okkar daga. Í bókinni, sem er ríkulega myndskreytt, segir Guðjón á lifandi og skemmtilegan hátt frá daglegu lífi reykvískra barna, skemmtun og skyldu og líka leikjum og ærslum. Á sama tíma segir hann sögu íslensks borgarsamfélags sem er að verða til, og því hvernig daglegt líf borgarbarna var oft þyrnir í auga þeirra sem vildu halda í húsaga sveitamenningarinnar.
Lesið líka Tónar útlaganna eftir Árna Heimi Ingólfsson og Jötnar hundvísir eftir Ingunni Ásdísardóttur.
Innanríkið – Alexíus eftir Braga Ólafsson er hér talin með ævisögum, en má deila um það í löngu máli, með mörgum neðanmálsgreinum, hvort hún sé yfirleitt ævisaga. Í henni eru vissulega birtir þættir úr ævi Braga og farið fram og aftur í tíma, en hængurinn er að ekki er víst hvort Bragi er stundum að skálda.
Lesið líka Strá fyrir straumi – Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur og Duna – Saga kvikmyndagerðarkonu eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur og Guðrúnu Elsu Bragadóttur.
NammiDagur eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og Sigmund Breiðfjörð er blóðug ástarsaga fyrir unglinga. Hún er framhald bókarinnar VeikindaDagur en þar komst aðalpersónan Dagur að því að hann væri haldinn sjúkdómi sem gerir hann sólginn í mannakjöt. Nú vaknar hann í líkhúsi með kærustuna sér við hlið. Í þessari bók skrifar Bergrún Íris meðal annars um fyrstu kynlífsreynsluna og gerir það mjög vel. Myndir Sigmundar gæða bókina lífi og eru í senn bráðskemmtilegar og hryllilegar.
Lesið líka Kasia og Magdalena eftir Hildi Knútsdóttur og Kærókeppnin eftir Emblu Bachmann.
Ljósmyndarinn Ólafur Magnússon, sem merkti myndir sínar Óli K., var fyrsti fastráðni blaðaljósmyndari landsins og starfaði á Morgunblaðinu í um hálfa öld. Hann var ekki bara framúrskarandi ljósmyndari, sem sjá má í þessari afbragðsbók, heldur hafði hann gott fréttanef, sem líka birtist vel í verkinu, enda segja margar mynda hans mikla sögu og á sterkari hátt en hægt er að koma í orð. Ævisaga hans, sem Anna Dröfn Ágústsdóttir skráir, er ekki síður merkileg.
Lesið líka Útlit loptsins eftir Einar Fal Ingólfsson og Tímanna safn eftir ýmsa höfunda.
Skáldsagan Herbergi Giovanni eftir Bandaríkjamanninn James Baldwin kom fyrst út árið 1956 en er þó afar nútímaleg. Þar segir af manni sem er á milli tveggja heima; frelsisins sem hann upplifir á meginlandi Evrópu og þeirra ramma sem framtíð löguð að bandarískum gildum setur honum. Þorvaldur Kristinsson íslenskaði þessa áhrifamiklu frásögn.
Lesið líka Þegar við hættum að skilja heiminn eftir Benjamin Labatut í þýðingu Sigrúnar Ástríðar Eiríksdóttur og Fóstur eftir Claire Keegan í þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur.