Spurt er um textabrot:
You come into this country
You can't get real jobs
Boats and boats and boats of you
Go home you fuckin' slobs
Selling hot dogs on the corner
Selling papers in the street
Pushing, pulling, digging, sweating
Where you come from must be beat
[viðlag]
You always make us wait
You're the ones we hate
You can't communicate
Speak English Or Die
Nei, ég er ekki að spyrja um lagið, það er hið víðfræga titillag hinnar goðsagnakenndu jómfrúrskífu bandaríska harðkjarnapönkþrassbandsins Stormtroopers of Death (S.O.D.), Speak English or Die, heldur er spurningin þessi: Má þetta, mátti þetta einhvern tíma eða kemur þetta einhvern tíma til með að mega?
Svari nú hver fyrir sig.
Það sér hvert mannsbarn að hér er ekki mælt af sérstakri virðingu, hlýju eða umhyggju fyrir innflytjendum. En er allt sem sýnist? Listin getur nefnilega, eins og við þekkjum, verið býsna skrýtin skepna.
Þessi áleitna umræða hefur oft farið fram áður og ég verð ábyggilega ekki seinasti maðurinn til að vekja hana upp á þessu ári en Speak English or Die fagnar fertugsafmæli sínu á árinu. Hugsið ykkur!
Kannski skýrir það eitthvað. Var þröskuldur manna fyrir umdeildum textum hærri árið 1985 en 2025? Ekkert endilega, myndi ég halda, enda var þetta samið á þeim tíma sem siðgæðisverðir, með Tipper Gore, síðar varaforsetafrú Bandaríkjanna, riðu með alvæpni um héröð og börðu á orðljótum rokkurum. Vernda bæri æsku hins saklausa og siðprúða lands með öllum tiltækum ráðum fyrir þeim óþjóðalýð og lágkúrupésum.
Pólitísk ranghugsun
Dan Lilker, bassaleikari S.O.D. og höfundur þessa alræmda texta, var einmitt spurður út í þetta í samtali við miðilinn Screamer Magazine á dögunum og dró hvergi fjöður yfir það að í laginu væri pólitísk ranghugsun á ferðinni en á móti kæmi að það hafi verið með fullum vilja gert – í hálfkæringi. Ekki beri að taka allt sem menn lesi bókstaflega. Lilker gengur að vísu ekki svo langt að taka undir með Bigga í Maus þegar hann syngur: „Allt sem þú lest er lygi.“
S.O.D.-liðar voru rétt tvítugir á þessum tíma og að vonum í þeim púki, eins og svo mörgum ungum mönnum, þá og nú. „Okkur langaði að reita sumt fólk aðeins til reiði,“ segir Lilker án þess að fara nánar út í það, „en hafi menn ekki áttað sig á því þá vorum við bara að vera andstyggilegir og ögrandi. […] Við skulum bara orða þetta með þessum hætti: Við vissum alveg hvað við vorum að gera og ég iðrast einskis. Ég veit að sumir hugsuðu: „Þetta er of langt gengið.“ En auðvitað vorum við ekki svona. Þetta var bara smá skeytingarleysi. S.O.D. snerist alfarið um tónlistina. Textarnir voru bara – ég ætlaði að segja rúsínan – en kannski væri nær að segja saltið í pylsuendanum.“
Lilker bendir líka á að setja þurfi málið i samhengi. Á plötunni megi jafnframt finna texta um timburmenn og þá nöturlegu staðreynd að engin mjólk sé til í ísskápnum. „Við sömdum líka lag um gaur í kvikmynd með fáránlega langa fingur sem gátu rist á manni hálsinn.“
Að ekki sé talað um hið pólitíska Fuck the Middle East. „Það á enn erindi,“ segir Lilker.
Speak English or Die á sér líka sögu, sem Scott Ian gítarleikari S.O.D. hefur margsagt. Á þessum tíma gekk hann með þann draum í maganum að gera myndasögu og bjó til persónu sem hann kallaði Sargent D. Sá var framliðinn og hafði af þeim sökum flest á hornum sér, ekki síst gagnvart þeim sem enn voru sprelllifandi. Fyrir vikið urðu til slagorð eins og: „Ég er ekki rasisti; ég hata alla“ og „talaðu ensku eða deyðu“.
Þá mega þeir hoppa
Þegar upp var staðið áttaði Ian sig á því að hæfileikar hans lægju frekar á sviði tónsköpunar en myndasögugerðar og fyrir vikið enduðu Sargent D og miðaldaleg lífssýn hans á plötu en ekki bók.
„Menn verða að átta sig á því að þetta var karakter sem ég var að skrifa fyrir. Þetta eru ekki mín viðhorf, sem Scotts Ians. Ég skóp persónuna Sargent D, sem ég var að skrifa myndasögu um, og samdi lög sem byggðust á honum. Skilji menn það ekki, þá mega þeir hoppa upp í rassgatið á sér. Ég mun aldrei biðjast afsökunar, vegna þess að þetta er skýringin,“ sagði Ian í samtali við hlaðvarpsþáttinn Let There Be Talk árið 2018.
Hvorki Lilker né Ian höfðu efasemdir um tilvistarrétt Speak English or Die fyrir fjörutíu árum en í dag er annað hljóð komið í strokkinn. „Hefði þetta aldrei komið út 1985 og við ætluðum okkur að senda það frá okkur núna myndi ákveðinn hópur fólks slaufa því eins og skot, sama hversu rækilega við myndum reyna að útskýra brandarann og húmorinn. Það yrði margfalt erfiðara að gera þetta núna,“ sagði Ian í samtali við málmgagnið Metal Hammer fyrir þremur árum.
Í nýja viðtalinu við Screamer Magazine kemst Lilker að sömu niðurstöðu. „Við skulum ekki fara út í umræðu um slaufunarmenningu hér en ég geri mér fulla grein fyrir því að í dag er ekki hægt að gefa út plötu undir nafninu Speak English or Die. Við skiljum það allir.“
Harðkjarnapönk og þrass
Stormtroopers of Death var stofnuð í New York árið 1985 og var hliðarverkefni Scotts Ians og Charlies Benantes úr þrassbandinu Anthrax, Dan Lilkers og Billys Milanos. Ekki virtist það trufla nokkurn mann að Lilker hefði árið áður verið rekinn úr Anthrax.
S.O.D. var brautryðjandi í bræðingi af harðkjarnapönki og þrassi ásamt Suicidal Tendencies, Cryptic Slaughter og fleiri böndum. Frumburðurinn, Speak English or Die, inniheldur 21 lag sem flest eru afar stutt, frá hálfri þriðju mínútu og allt niður í 2 sekúndur. Það stysta heitir því ágæta nafni Diamonds and Rust (Extended Version). Þarna er líka Ballad of Jimi Hendrix upp á heilar 5 sekúndur. Platan mæltist afar vel fyrir og hefur öðlast költstöðu í málmheimum. S.O.D. gerði tvær aðrar breiðskífur, 1999 og 2007, en hefur legið í dvala síðan.