Jóhanna Sesselja Albertsdóttir fæddist 20. júní 1939 í Bæ, Trékyllisvík í Árneshreppi í Strandasýslu. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum 21. desember 2024. Foreldrar Jóhönnu voru Albert Valgeirsson frá Norðurfirði, f. 26.11. 1902, d. 28.10. 1983, bóndi í Bæ í Árneshreppi, og Ósk Samúelsdóttir frá Skjaldabjarnarvík, f. 26.7. 1902, d. 27.3. 1954, húsmóðir í Bæ.

Systkini Jóhönnu eru: Aðalbjörg, f. 1.5. 1934, d. 20.8. 2020, Gísli, f. 10.3. 1936, d. 14.8. 2009, Kristján, f. 11.3. 1938, og Bjarnveig Sigurborg, f. 20.8. 1940, d. 29.9. 1940. Uppeldisbróðir Magnús Þórólfsson, f. 6.8. 1927, d. 2.12. 2008.

Jóhanna giftist 17.6. 1967 Kjartani Ingimarssyni, f. 31. október 1939, d. 9.3. 2005. Hann var sonur Ingimars Jónassonar bónda og Margrétar Þorsteinsdóttur húsfreyju.

Dóttir Jóhönnu og Kjartans er Ólöf Ósk Kjartansdóttir, f. 5.5. 1974, og börn hennar eru Ester Ugla Jónsdóttir, f. 5.5. 2004, og Kjartan Tumi Jónsson, f. 12.6. 2007.

Jóhanna ólst upp í Bæ í Trékyllisvík í Árneshreppi. Hún flutti til Reykjavíkur 1965 og starfaði á árunum 1965-1973 hjá Eimskipafélagi Íslands. Síðar hóf hún störf hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, seinna Orkuveitunni, og starfaði þar þangað til hún lauk störfum vegna aldurs árið 2007.

Útför Jóhönnu fer fram frá Laugarneskirkju í dag, 15. janúar 2025, klukkan 13.

Elsku Jóhanna frænka er farin í sumarlandið þar sem vel verður tekið á móti henni.

Jóhanna er móðursystir mín og fengum við systkinin að hafa hana sem aukamömmu strax frá fæðingu og var hún okkur mjög kær.

Hún bjó í Bæ í Árneshreppi ásamt Kitta bróður sínum og Albert afa og tók Jóhanna við heimilinu þegar Ósk amma dó 1954, þá var Jóhanna aðeins 15 ára. Sinnti hún heimilinu af einstakri kostgæfni. Jóhanna var sú sem vaknaði fyrst, kveikti upp í eldavélinni og kom hita í húsið. Notaður var mór í þá daga.

Jóhanna var mjög vinnusöm. Hún hafði góða nærveru og hlátur hennar er mjög minnisstæður. Oftar en ekki þurfti hún að gera hlé á máli sínu þegar hún var að segja frá hlutum sem henni þóttu kómískir og smituðust nærstaddir gjarnan af innilegum hlátri hennar.

Við bræðurnir sóttum mjög mikið til Jóhönnu og Kitta í Bæ og eigum við mjög góðar minningar frá þeim tíma, en varla voru meira en 500 metrar fyrir okkur að fara úr skólanum á Finnbogastöðum þar sem við áttum heima og til Jóhönnu frænku og aðeins yfir tvær girðingar og einn læk að fara. Jóhanna hjálpaði mömmu mikið við uppeldið á okkur og ekki síst þegar mamma lagðist á sæng eins og sagt var og fæddi hvert barnið af öðru. Þá var ekki slæmt að hafa Jóhönnu systur.

Jóhanna og mamma unnu mikið saman í sláturgerð á haustin og að baka fyrir jólin. Besta ís sem ég hef fengið gerðu þær saman, en hefði gjarnan mátt vera meira af honum.

Við vorum oft settir til Jóhönnu ef mamma og pabbi fóru til Reykjavíkur. Þetta gekk venjulega nokkuð vel að ég tel. Nema einu sinni man ég að við Snorri bróðir fórum aðeins út af sporinu. Þannig háttaði til að skammt frá íbúðarhúsinu var fjós og eins og yfirleitt fylgir var fjóshaugur þar nokkuð nærri. Við bræður fórum fullnærri haugnum og vorum eitt drullustykki.

Þá var Jóhanna ekki ánægð. Við vorum settir í bæjarlækinn, klæddir úr hverri spjör og skolað það mesta af okkur og fötunum. Jóhanna þurfti að standa í þessu og þurftum við að vera inni það sem eftir var dags því ekki voru föt til skiptanna.

Árið 1965 flytur Jóhanna til Reykjavíkur en ekki við. Hvað við söknuðum hennar. En þrátt fyrir það sem á undan var gengið bauð hún okkur bræðrum að koma og búa hjá sér á Kleppsvegi 2, að vísu 10 árum síðar þegar við fórum í framhaldsskóla í Reykjavík. Þar hélt Jóhanna áfram að stjana við okkur. Skaffa okkur húsnæði, gefa okkur að borða og þvo af okkur. Þar var reyndar enginn fjóshaugur.

Þegar við Gógó vorum farin að búa og komin með hana Svandísi okkar hjálpaði Jóhanna okkur og passaði hana og bauð okkur með í sumarbústað og ferðalög og alltaf var Jóhanna vel undirbúin með nesti og allt sem til þurfti. Það var einstaklega gaman og gott að vera með þeim Jóhönnu, Kjartani og Ólöfu Ósk og eigum við þeim mikið að þakka.

Elsku Ólöf Ósk, Ester Ugla og Kjartan Tumi, okkar innilegustu samúðarkveðjur frá okkur Gógó og börnunum. Megi góðar minningar milda sorg ykkar.

Óskar og Guðbjörg (Gógó), Drangsnesi.

Við fráfall Jóhönnu Albertsdóttur móðursystur minnar hvarflar hugurinn ósjálfrátt til æskuáranna.

Þegar ég er fimm ára gamall að stinga af upp í Efri-Bæ, þar bjuggu Albert afi, Jóhanna og Kitti. Leiðin var kannski ekki alveg greið; ef Guðmundur í Neðri-Bæ var úti þá gat þurft að svara erfiðum spurningum. Þá var bara tekinn smá krókur til að komast í Efri-Bæ, því þar var best að vera og komast í kleinurnar hjá Jóhönnu. Hún var aðeins fjórtán ára þegar Ósk mamma hennar lést og þá voru húsmóðurstörfin komin á hennar herðar.

Á heimilinu var einnig náfrændi hennar, Samúel Jóhann, alltaf kallaður Jói í Bæ. Albert afi var farinn að finna máttleysi í fótum sem ágerðist með árunum. Það var nóg að gera hjá ungri stúlku bæði innan- og utandyra, í heyskap og færa fólkinu mat á engjarnar.

Jóhanna og Kitti bjuggu í Efri-Bæ til 1965 en fluttu þá til Reykjavíkur, þá var Albert afi kominn í hjólastól og fór á Reykjalund. Þar með var hlutverki Jóhönnu lokið í Efri-Bæ að halda heimili fyrir föður sinn. Þetta voru erfiðir tímar fyrir fjölskylduna sem eftir var og hafði mikil áhrif á mig, níu ára dreng sem ávallt átti öruggt athvarf í Efri-Bæ hjá þeim Jóhönnu og Kitta. Í Reykjavík kynntist Jóhanna Kjartani Ingimarssyni og þau giftu sig árið 1967 og bjuggu fyrst í Álfheimum, síðar á Kleppsvegi 2. Þar áttum við bræður eftir að njóta atlætis Jóhönnu og Kjartans er við komum til vetrardvalar í Reykjavík, bæði í húsnæði og fæði.

Mér er minnisstæð vera mín hjá þeim er ég fór í kirtlatöku árið 1973. Jóhanna var þá við rúmið með mikla ógleði vegna meðgöngu og skiptumst við á að vera með æludallinn. Síðan fæddist stúlkan Ólöf Ósk sem var þeirra augasteinn.

Jóhanna bar alltaf hlýjan hug til æskustöðvanna og oftast komið á hverju sumri og verið í nokkra daga. Börnin muna vel eftir þegar tjaldið þeirra Jóhönnu og Kjartans birtist við Melaána að skemmtilegir dagar væru í vændum. Eftir að foreldrar mínir fluttu suður var Jóhanna þeim innan handar og alltaf til staðar. Þær systur voru alla tíð nánar og voru t.d. mjög duglegar að sækja menningarviðburði saman.

Síðustu ár voru Jóhönnu erfið eftir að veikindin tóku að ágerast en nú er sú þrautaganga á enda. Trúin að hún sé komin á betri stað yljar okkur ásamt kærum minningum um ástsæla frænku.

Við sendum Ólöfu Ósk, Ester Uglu og Kjartani Tuma okkar einlægu samúðarkveðjur, hér í sveitinni eigið þið ávallt athvarf.

Björn og Bjarnheiður (Badda).