Í hverjum mánuði er eitthvað um að vera hjá okkur í Fastlandi, ýmist á vinnutíma þegar við fáum til okkar fyrirlesara um málefni sem nýtast okkur bæði í leik og starfi eða utan vinnutíma þegar við hittumst vikulega í badminton,“ segir Silja Dögg Ósvaldsdóttir framkvæmdastjóri Fastlands sem er með yfir 30 ára reynslu í rekstri fyrirtækja, bókhaldi, uppgjörum og skattamálum. Hún segir mikilvægt að tala um fjármál á mannamáli og að það sé gaman í vinnunni. „Á vinnustaðnum höfum við gott rými, sem við nýtum oft í hádeginu, til að spila borðtennis. Mannauðsstjórinn okkar er einnig jógakennari og markþjálfi og vinnur því markvisst með okkur á marga vegu. Við búum einstaklega vel þegar kemur að mat og næringu, en hjá okkur er matráður sem einnig er einkaþjálfari og sér til þess að við borðum mat við hæfi því sannarlega þarf skrifstofufólk ekki á þungum og miklum mat að halda í hádeginu. Hún vinnur með létta rétti sem henta flestum og notar hreint hráefni. Það skiptir gríðarlega miklu máli að næring sé í lagi á vinnutíma því það hefur svo mikil áhrif á okkur persónulega, ef við erum ósátt þegar kemur að mat, eins og flestir vita. Við brjótum svo upp dagana með því að skella í bananabrauð í morgunmatinn eða baka vöfflur í síðdegiskaffið og fleira í þeim dúrnum.“
Í jólanáttfötum og inniskóm í vinnunni
Hjá Fastlandi starfar þemastjóri sem tekur hlutverk sitt mjög alvarlega og skipuleggur sífellt eitthvað skemmtilegt fyrir starfsfólkið. „Í desember verður þemastjórinn okkar ofvirk og í síðasta mánuði vorum við með þemadaga alla daga mánaðarins og mikla stemningu. Jólanáttfatadagurinn stóð upp úr þegar allir voru hér á jólanáttfötum og inniskóm í vinnunni. Við tökum eins virkan þátt í öllu sem gerist hjá skandinavísku og bresku konungsfjölskyldunni og setjum upp hatta í vinnunni við ýmis tilefni. Hér var haldin erfidrykkja með snittum og tilheyrandi þegar Elísabet drottning lést. Eins fögnum við þegar um stórviðburði er að ræða,“ segir Silja Dögg.
Fastland er langt frá því að vera venjulegt bókhaldsfyrirtæki. „Við leggjum okkur fram um að svo sé ekki. Nokkrum sinnum á ári gerum við okkur glaðan dag í lok vinnudags og höldum lítið partí. Þá er borðtennismót, PubQuiz, karókí, ýmis spil og almenn gleði. Það þéttir hópinn og maður er sannarlega manns gaman. Allt fór síðan á flug þegar HM í handbolta hófst í janúar og hér hefur ríkt mikil stemning þar sem allir eru í búningum í vinnunni á leikdögum.“
Auk starfsfólksins á Fastlandi eru alltaf hundar á skrifstofunni. „Skrifstofuhundarnir eru þrír – einn husky, ein bedlington-skvísa og nýverið bættist í hópinn lítil skvísa sem er franskur bulldog. Það gerir ótrúlega mikið fyrir bæði starfsmenn og viðskiptavini að hafa þessa ferfættu vini hjá okkur á daginn. Viðskiptavinir eru mjög hrifnir af móttökunum og eitthvert þeirra situr nánast alla fundi sem við tökum hér.“
Markmiðið að auka hlut karlmanna í fyrirtækinu
Silja Dögg mun halda upp á 16 ára afmæli Fastlands á kvennaárinu 2025 en hún er stofnandi og eigandi fyrirtækisins. „Árið 2024 var ár mikilla breytinga hjá okkur og endurskipulagningar á vinnuferlum og mannauði. Mannauðurinn skiptir okkur miklu máli og leggjum við mikið upp úr því að hér sé léttur andi, viðburðir, endurmenntun, hópefli og fleira skemmtilegt. Flestir halda að starf í bókhaldi, uppgjörum, skattamálum og ráðgjöf sé þurrt og leiðinlegt en það er alls ekki þannig. Líklega er ekkert annað fyrirtæki í okkar starfsemi með jafnmikið félagslíf og Fastland og ég fullyrði að enginn annar sé með skipaðan þemastjóra í starfseminni,“ segir hún.
Hvað getur þú sagt okkur um markmið fyrirtækisins á árinu?
„Hjá okkur eru 20 starfsmenn og nánast eingöngu konur en við erum með tvo karlmenn í hópnum. Markmiðið er að auka þeirra hlut á árinu. Fyrstu tíu árin í starfseminni voru bara konur hér, og vorum við eins og einn stór saumaklúbbur. Það var nauðsynlegt að brjóta það upp og stækka flóruna með ráðningu karlmanna en það var stórt skref fyrir þá að koma inn í kvennahóp á vinnustað og finna sig. Bæði fyrir þá og okkur konurnar var þetta mikil breyting og stórt skref til framfara.“
Silja Dögg segir allan gang á því hver taki ábyrgð á fjármálum fyrirtækja. „Við erum með alla fyrirtækjaflóru Íslands í þjónustu hjá okkur sem ýmist er stjórnað af konu eða karli. Þetta fer mikið eftir áhugasviði stjórnandans hvort hann vilji fylgjast með tölum í rekstri eða ekki. Fyrir mörg félög erum við starfandi fjármálastjórar í nánu samstarfi við stjórnendur félagsins. Við leggjum áherslu á að stjórnendur viti hvernig félagið er statt og hvað mætti betur fara. Ráðgjöf verður sífellt stærri partur af þjónustunni,“ segir hún.
Flestir viðskiptavina í alþjónustu hjá Fastlandi
Hvort sem þú ert karl eða kona þá þarftu að taka ábyrgð á eigin fjármálum bæði í rekstri og heimilishaldi að mati Silju Daggar. „Oft þróast það þannig í samböndum að annar aðilinn er sterkari þegar kemur að fjármálum og tekur þá að sér að sjá um þau á heimilinu. Þetta verður aðeins öðruvísi þegar um er að ræða fyrirtæki því ef sá sem er rekstraraðilinn er ekki sterkur í fjármálum þá þarf hann klárlega á þjónustu eins og okkar að halda,“ segir hún og bætir við að það einfaldi hlutina mikið að vera með framsækið bókahaldsfyrirtæki með sér í liði. „Flestir hjá okkur eru í alþjónustu en í því felst að við færum bókhald, reiknum laun, greiðum laun og launatengd gjöld, greiðum opinber gjöld, gefum út reikninga, vinnum ársreikning og framtal og skilum til skattyfirvalda. Við sjáum um öll samskipti við skattyfirvöld, lífeyrissjóði og stéttarfélög og einfaldar þetta því rekstraraðilum að einblína á það sem þeir gera best, sem er að selja sína þjónustu. Einnig höfum við nýverið farið í samstarf með Advise sem er netkerfi fyrir stjórnendur og veitir þeim góða yfirsýn án þess að vera með beinan aðgang að sjálfu bókhaldinu. Það kerfi vinnur upplýsingar beint úr bókhaldi og setur fram bæði á töluformi og myndrænu formi sem hentar vel fyrir þá sem vilja fylgjast með án þess að vera að vinna á bókhaldskerfi.“
Fastland býður einnig upp á góða þjónustu í reikningsgerð. „Ef reikningar eru unnir hjá okkur þá verður til rauntímaskráning á tekjum í rekstrinum sem auðveldar okkur að vita hvernig reksturinn gengur. Minni líkur verða á að tekjur tapist ef reikningar glatast og margt fleira. Margir nýta sér í dag reikningaútgáfu á netinu eins og til dæmis hjá Konto, en þá er einfalt að veita okkur aðgang að því og tekjuskráning lesin inn á milli kerfa,“ segir Silja Dögg Ósvaldsdóttir framkvæmdastjóri Fastlands.