Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, heimsótti í gær þjóðarleiðtoga Þýskalands og Frakklands, auk þess sem hún fundaði með framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, Mark Rutte. Var tilgangur ferðalagsins að leita stuðnings leiðtoganna í þeirri milliríkjadeilu sem nú virðist í aðsigi á milli Danmerkur og Bandaríkjanna um yfirráð yfir Grænlandi.
Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir um helgina að hann teldi að Bandaríkin myndu eignast Grænland, en Trump hefur ekki viljað útiloka að beita hervaldi til þess að tryggja yfirráð Bandaríkjanna yfir landinu. Frederiksen tók hins vegar fram í gær að hún teldi enga beina hernaðarógn steðja að Grænlandi eða Danmörku vegna málsins.
Frederiksen hélt fyrst til Berlínar, þar sem hún fundaði með Olaf Scholz Þýskalandskanslara í kanslarahöllinni, og ræddu þau ýmis mál, þar á meðal innrás Rússa í Úkraínu og Grænlandsmálið.
Sagði Scholz á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra á þýsku að ekki mætti breyta landamærum með hervaldi, og bætti svo við á ensku: „Til þess sem málið varðar.“ Scholz sagði jafnframt að nú væru krefjandi tímar, og að þeir kölluðu á sterka Evrópu og sterkt Atlantshafsbandalag.
Skýr skilaboð frá Scholz
Utanríkisráðherra Dana, Lars Løkke Rasmussen, sagði í viðtali um ummæli Scholz að þau væru skýr skilaboð til „þess sem málið varðaði“, og sagði að hann ætti við hvern sem er sem íhugaði að beita valdi til þess að breyta landamærum ríkja. Nefndi Rasmussen þar Pútín Rússlandsforseta og innrásina í Úkraínu, Xi Jinping, sem hefði „ákveðnar skoðanir“ á Taívan, og „einnig aðra sem gætu verið í svipuðum hugleiðingum“.
Rasmussen sagði einnig ljóst að Donald Trump myndi ekki fá Grænland. „Grænland er Grænland og grænlenska þjóðin er þjóð, líka í skilningi alþjóðalaga,“ sagði Rasmussen og bætti við að þess vegna hefðu dönsk stjórnvöld sagt það vera í höndum Grænlendinga hver framtíð þeirra yrði.
Frederiksen fundaði síðar um daginn með Emmanuel Macron Frakklandsforseta í París. Sagði Frederiksen eftir fund sinn með Macron að hún hefði fengið mikinn stuðning frá leiðtogunum. „Þetta eru mjög, mjög skýr skilaboð um að auðvitað þurfi að virða lönd og fullveldi ríkja,“ sagði Frederiksen.
Hún bætti við að slík virðing væri grundvallaratriði í því alþjóðasamfélagi sem ríki heims hefðu byggt upp saman eftir síðari heimsstyrjöldina.
Utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Noel Barrot, sagði í gær að ekki væri hægt að útiloka þann möguleika að Evrópuríki sendu hersveitir til Grænlands. „Hvers vegna ekki, fyrst þetta snýst um öryggi?“ sagði Barrot en bætti við að Danir hefðu ekki óskað eftir slíkum liðsauka á Grænlandi.
Austurríski hershöfðinginn Robert Brieger, formaður hernaðarráðs Evrópusambandsins, sagði um helgina að það væri rökrétt ef ríki Evrópu myndu einnig senda hermenn til Grænlands, líkt og Bandaríkjamenn hafa nú þegar.
Senda freigátur til Grænlands
Danska ríkisstjórnin tilkynnti á mánudaginn að hún myndi verja 14,6 milljörðum danskra króna, eða um 285 milljörðum íslenskra króna, í varnir á norðurslóðum. Hyggjast Danir senda þrjár freigátur sem og langdræga eftirlitsdróna til norðurslóða.
Sagði Frederiksen fyrir fund sinn með Rutte að þau myndu m.a. ræða styrkingu varna á norðurslóðum og myndi hún þar tjá honum að Atlantshafsbandalagið þyrfti að vera með meiri viðveru á norðurslóðum.