Herdís Viggósdóttir fæddist í Rauðanesi á Mýrum 23. júní 1945. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 14. janúar 2025.

Foreldrar hennar voru Viggó Jónsson, f. 1908, d. 1999, og Ingveldur Rósa Guðjónsdóttir, f. 1916, d. 1993. Herdís var ein fimm systkina, systkini hennar eru Guðjón (látinn), Sigurbjörg, Rósa og Steinar (látinn).

Árið 1967 giftist hún Gunnari Jónssyni, f. 28.2. 1945, skipaafgreiðslumanni. Foreldrar hans voru Jón Sigurðsson, f. 11.3. 1904, d. 14.2. 2002, og Sigríður Sigurveig Sigurðardóttir, f. 31.5. 1903, d. 5.11. 1989. Þau skildu 1990.

Börn Herdísar og Gunnars eru þrjú: 1) Jón Viggó, f. 1969, maki Ástríður Elín Jónsdóttir, f. 1967. Sonur þeirra er Hrafn Viggó, f. 2013. Dætur Jóns frá fyrra sambandi eru a) Ingveldur Birna, f. 1994, b) Embla Katrín, f. 1996, c) Sesselja Malín, f. 2002, og d) Ásthildur Una, f. 2007. Börn Ástu úr fyrra hjónabandi eru a) Snædís Björt, f. 1988, b) Hrafnkatla, f. 1993, og c) Egill Jón, f. 2002. 2) Ingvi, f. 1971, maki Sonja Dögg Pálsdóttir, f. 1972. Börn þeirra eru a) Gunnar Orri, f. 2005, b) Margrét Þóra, f. 2008. Sonur Sonju úr fyrra sambandi er Ari Páll, f. 1997. 3) Sigurður, f. 1978, maki Aude Busson, f. 1981. Dætur þeirra eru a) Herdís, f. 2006, og b) Malika, f. 2014. Herdís og Gunnar eignuðust líka stúlku 1971, sem andaðast skömmu eftir fæðingu.

Maður Herdísar frá 1993 var Baldur Ólafsson frá Ísafirði, f. 2.3 1946, d. 16.5 2008. Börn Baldurs af fyrra hjónabandi eru Guðrún, Arndís og Stefán. Herdís og Baldur bjuggu saman á Stakkanesi á Ísafirði og fluttu til Akraness 1998, þar sem Herdís bjó til 2022.

Herdís ólst upp í Rauðanesi á Mýrum, bjó þar til 16 ára aldurs. Lauk landsprófi í miðskóla Borgarness. Var í Samvinnuskólanum á Bifröst 1963-1965. Ári síðar flutti hún á Vegamót á Snæfellsnesi og stundaði þar verslunar- og veitingastörf til 1969. Árið 1970 flutti hún ásamt Gunnari til Ísafjarðar.

Herdís vann ýmis störf fyrstu misserin en árið 1983 opnaði hún ásamt öðrum barnafataverslunina Legg og skel. Í kjölfarið kom hún á fót saumastofunni Hleinum og fataversluninni Jóni og Gunnu. Stundaði Herdís verslunarstörf á Ísafirði til ársins 1998 eða þangað til hún flutti með manninum sínum Baldri á Akranes. Þar vann hún sem ritari á sjúkrahúsinu.

Herdís tók virkan þátt í félagsstörfum þar sem hún bjó. Á Ísafirði tók hún þátt í starfi Kvenfélagsins Hlífar og m.a. skipulagði félagsstarf eldri borgara. Á Akranesi var hún virkur félagi í Oddfellowreglunni Ásgerði.

Útför hennar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 30. janúar 2025, klukkan 13.

Ég vil minnast elskulegrar móður minnar í nokkrum orðum.

Mamma sem hefur fylgt mér alla tíð. Alltaf staðið með mér og sínu fólki. Minningar mínar um mömmu snúast um ást og hlýju, dugnað og hennar óþreytandi orku til að sjá til þess að allt fari vel.

Ljóslifandi er minningin um mömmu þar sem hún stendur í stígvélum í kjallaranum á Aðalstræti 10 á Ísafirði. Í eyrinni á Ísafirði gætir flóðs og fjöru og það er ekki óalgengt að það flæði sjór inn í kjallara þeirra húsa sem lægst standa. Mamma, dugnaðarkonan sem hún var alla tíð, stóð í kjallaranum mörg kvöldin og bakaði flatkökur sem voru seldar í kaupfélaginu. Þetta kvöldið var stórstreymt og sjór flæddi inn í kjallarann. Á þessum tíma stóð til að fara að byggja hús og mamma lét sig hafa það að standa í sjó upp á mið stígvél í kjallaranum að baka flatkökur. Svona var mamma alltaf, ósérhlífin, fús til verka og gerði það sem þurfti að gera svo allt gengi vel.

Mér er minnisstætt þegar ég kem heim úr skólanum einn daginn og mér hafði lent saman við einn vin minn á leiðinni heim. Það sá á mér eftir þau viðskipti og þegar ég kom heim tók mamma á móti mér og huggaði mig. Ég var ennþá reiður og hafði uppi ljót orð um þennan vin minn. Mér er minnisstæð breytingin á viðmóti og svipbrigðum mömmu þegar ég gerði það. Mamma, sem fram að þessu hafði verið að reyna að hugga litla strákinn sinn, skipti um fas og byrsti sig við mig. „Maður talar ekki svona um vini sína, sama hvað gengur á. Þú fyrirgefur vini þínum frekar en að óska honum alls ills.“ Mér brá mjög við þetta því ég hélt að ég hefði mömmu með mér í þessu máli, sem ég vissulega hafði, en ég lærði það þarna að sama hvað gengur á fer maður ekki yfir þau mörk að fara að óska öðrum ills.

Mömmu féll aldrei verk hún hendi. Hún vann sem verkakona, rak veitingastað á Vegamótum, var verslunareigandi á Ísafirði, rak saumastofu, vann á sjúkrahúsinu á Ísafirði og á Akranesi, byggði hús á Ísafirði og sumarbústað í Skorradal. Vinir mínir minnast hennar sem besta heimabakarans, hún heklaði og prjónaði og saumaði föt á okkur strákana. Eldhúsborðið sem hún smíðaði fyrir yfir 40 árum er ennþá í notkun á Urðarveginum. Mamma fann sig vel í verslunarrekstri. Þegar hún flutti frá Ísafirði til Akraness með Baldri rétt fyrir aldamót lauk þeim kafla í lífi hennar. Ég minnist með hlýhug tíma hennar á Akranesi. Hún undi sér vel og félagsskapur fólksins á sjúkrahúsinu og kvennanna í Oddfellow var henni mikilvægur.

Þegar mamma greindist með parkinson var það henni mikið áfall. Hún hafði lagt mikið á sig til að klára sumarhúsið í Skorradal og var farin að horfa fram á að geta notið hans meira í faðmi barna og barnabarna. Í upphafi var talað um að það væru til lyf til að hægja á sjúkdómnum þannig að hún ætti mörg góð ár eftir. Seinna kom í ljós að þetta var hraðgengari útgáfa og að lyf virkuðu ekki vel. Henni hrakaði hratt en alltaf var hún sjálfri sér lík. Ennþá að passa upp á að allt færi vel, og helst að hugsa um þá sem þurfa á því að halda. Þó svo að hún gæti illa tjáð sig undir það síðasta sá maður það í augunum á henni að hún hafði stundum áhyggjur af því að allt færi ekki vel en líka sást hvað henni leið vel þegar hún var örugg með sitt fólk.

Ég kveð mömmu með miklu þakklæti og hlýhug fyrir það sem hún hefur kennt mér í lífinu og þann stuðning sem hún veitti fólkinu sínu.

Lengri grein á www.mbl.is/andlat

Ingvi.

Í dag kveðjum við hana Herdísi ömmu okkar í hinsta sinn. Við systur minnumst hennar með ást og þakklæti. Amma var einstök kona og við erum heppnar að hafa fengið að kalla hana ömmu okkar. Hún var hlý, falleg, handlagin og besti bakarinn. Við eigum margar góðar minningar af henni á Akranesi. Besta tilfinning í heimi var að kúra uppi í rúmi með henni á meðan hún fyllti út sudoku-þraut, gleraugun á nefinu.

Svo má ekki gleyma öllum góðu stundunum uppi í bústað í Skorradalnum, sem þau Baldur byggðu. Hún beið alltaf eftirvæntingarfull eftir okkur fyrir utan bústaðinn. Eftir stutta bílferð tók hún á móti okkur veifandi, og var kapphlaup á milli okkar til að knúsa hana fyrst. Í minningunni var ávallt gott veður í Skorradal og alltaf nóg að gera, bláberjatínsla á haustin, göngutúrar við lækinn, fylgjast með bakstrinum, sjónvarpsgláp og bókalestur. Samverustundirnar voru margar og ómetanlegar með henni. Hún amma hafði endalausa þolinmæði gagnvart okkur systrum og lét allt eftir okkur, í hófi. Því allt mátti hjá ömmu.

„Ég er líka þrautseig,“ sagði amma einu sinni við mig þegar við vorum að spjalla um dugnað annarra, en amma var þrautseigust af okkur öllum. Sá eiginleiki sést ef farið er yfir líf hennar. Veikindi hennar síðustu ár voru henni erfið, en ekki gaf hún eftir og þrátt fyrir að orðin kæmu ekki auðveldlega undir lokin gat hún sagt þetta. Já, amma, þú ert líka þrautseig.

Við munum alltaf muna eftir því þegar hún stóð á pallinum í Skorradal, með viskustykki í hendi að vinka okkur bless.

Nú erum það við sem vinkum þér bless, með viskustykki í hendi. Guð geymi þig.

Ingveldur Birna,
Embla Katrín,
Sesselja Malín og
Ásthildur Una.

Amma Herdís var eins og amman sem maður les um í bókunum, amman sem var alltaf tilbúin með nýbakað brauð og búin að láta renna í pottinn þegar við komum upp í bústaðinn í Skorradal, ævintýraveröldina okkar og griðastað. Þar sem við máluðum steina, fórum í berjamó og lékum okkur í pottinum. Það var alltaf erfitt að kveðja bústaðinn en amma veifaði okkur bless með bros á vör og viskustykki í hönd. Hún var oftast lengur en við í bústaðnum, jafnvel það oft að ef við vissum ekki betur væri allt eins hægt að giska á að hún ætti heima þar.

En nú er það amma sem er haldin á vit ævintýranna og við barnabörnin sem verðum eftir.

Það er fyndið að hugsa til þess hvað lífið í raun gerist hratt. Þessi tími er eins og hann hafi gerst í gær en á sama tíma svo langt frá.

Amma var stoð okkar og stytta öll þessi ár.

Hver einustu jól stóð hún við straujárnið til klukkan sex á aðfangadagskvöld og gekk úr skugga um að við, seinu systkinin, kæmumst í jólafötin í tæka tíð.

En hægt og rólega varð styrkurinn minni. Jólin komu og fóru ár eftir ár. Straujárnið sást minna, þar til það var amma sem þurfti aðstoð, en ekki öfugt. Laufabrauðsgerðin hélt áfram en hún, sem eitt sinn sá um að skera þau og steikja, horfði á okkur gera það sem hún hafði kennt okkur.

Veikindin tóku sinn toll. Hreyfigetan fór fyrst og svo getan til að tjá sig. Við fundum þó alltaf hvað hún var stolt.

Sama amma Herdís en læst inni í þreyttum líkama. Amma sem var til staðar fyrir barnabörnin sín alveg fram á síðasta dag.

Ari Páll, Gunnar Orri og Margrét Þóra.

Ég hefði viljað kynnast henni fyrr. Hún er ein af þeim manneskjum sem ég hef kynnst á lífsleiðinni og sakna að hafa ekki átt fleiri stundir með. Fá að heyra meira um tímann sem hún var í verslunarrekstri fyrir vestan. Það þarf kjark til að setja á stofn sjálfstæðan rekstur. Verslunin Leggur og skel með vönduð barnaföt og síðar Jón og Gunna með föt fyrir þau eldri. Flytjast með nýfætt barn að Vegamótum á Snæfellsnesi, stofna heimili og jafnframt sinna rekstri. Taka á móti ferðalöngum með það sem þá vanhagaði um; veitingar, nauðsynjavörur og bensín. Fara síðan alla leið vestur á firði. Barnsmissir.

Hún var orðlögð fyrir garðlist, garðurinn fyrir vestan, matjurtir og meira að segja jarðarber og síðar garðurinn á Akranesi. Svo gat hún líka smíðað, flísalagt, hannað, saumað og prjónað. Það sem ég minnist þó helst mest af öllu er hlýjan. Hún hefur kennt mér hvað opinn faðmur og hlýr getur gert, og langt faðmlag. Ekkert sem hún hafði orð á, heldur það sem hún gerði og var henni eðlislægt. Hún átti fallegt samband við börnin sín og barnabörn. Samverustundirnar sem við minnumst nú voru ákveðið sambland af rólegu andrúmslofti, festu og hlýju. Og lengd samverunnar skipti líka máli. Við tökum allan daginn frá, gefum okkur tíma. Ekkert sem hún sagði, heldur gerði. Það er erfiðara en tárum taki að sjá eftir henni í þennan miskunnarlausa sjúkdóm. Hann tók og gaf ekki tíma til að aðlagast. Herdís lét hann þó aldrei ná að vera í forgrunni. Með einlægri hlýju mætti hún umhverfi sínu með vinsemd og æðruleysi. Hugsunin var alltaf skýr. Það eru alltaf allir að gera sitt besta, skein úr augum hennar. Hennar minnist ég fyrir kjark, elju og skarpskyggni. Að vita hvað skiptir máli þegar til lengri tíma er litið og lifa samkvæmt því. Þegar ég kveð hana núna er ég full þakklætis fyrir allt sem hún hefur gefið. Það er svo margt sem situr eftir. Fyrirmynd mín í svo mörgu. Takk fyrir það, elsku Herdís. Við vitum að það hefur verið tekið vel á móti þér hinum megin, Baldur, dóttir, bróðir og foreldrar. Þú kvaddir okkur alltaf svo fallega. Myndin sem er greypt í huga mér er þar sem þú kveður okkur eftir góða heimsókn í sumarhúsið. Veifar okkur af pallinum þar til við hurfum sjónum.

Blessuð sé minning þín. Ég bið góðan Guð að styrkja fjölskylduna, syni og barnabörn.

Ástríður (Ásta).

Kveðja frá bekkjarsystkinum.

Í vor verða liðin sextíu ár frá því að glaður hópur ungs fólks lauk prófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst. Við héldum bjartsýn út í vorið til þátttöku í ýmsum störfum sem stóðu til boða í ýmsum greinum vaxandi þjóðlífs. Alltof margir hafa kvatt hópinn til þessa dags og er Herdís Viggósdóttir sautjánda af þrjátíu og átta bekkjarsystkinum. Fráfall hennar kom ekki á óvart því síðustu árin voru henni erfið vegna veikinda.

Upphaflega við komuna í Bifröst þekktumst við Herdís aðeins lítillega þar sem hún hafði gengið í barnaskólann á Varmalandi en ég ólst upp í Borgarnesi. Leið okkar lá síðan saman í Miðskólanum í Borgarnesi og þar tókum við landspróf ásamt Gunnari Jónssyni kærasta hennar. Ég komst að því að Herdís og Gunnar ætluðu bæði í skólann á Bifröst eins og ég. Herdís tók því vel er ég spurði hana hvort hún vildi deila með mér herbergi. Hún var róleg og hlédræg þessi stúlka, tranaði sér aldrei fram og var góður nemandi. Herdís var flink í höndunum, glögg og skynsöm, útsjónarsöm og hörkudugleg en líka dálítið dul um sína hagi. Hún reyndist í alla staði hin ágætasta vinkona, hjálpleg og vinveitt.

Eftir að skóla lauk urðu samskiptin ekki mikil enda héldum við á ólík mið. Síminn var ekki ofnotaður á þessum árum. Við tvær höfðum samband með fremur löngu millibili. Herdís og Gunnar réðust til starfa á Vegamótum á Snæfellsnesi og þangað heimsóttum við hjónin þau einu sinni eða tvisvar. Svo fluttu þau í annan landsfjórðung, bjuggu fyrst í Aðalstræti á Ísafirði og

þar fengum við hjónin, ásamt tveimur börnum okkar, höfðinglegar móttökur. Börnin okkar voru á svipuðum aldri og synir þeirra Jón Viggó og Yngvi. Ýmislegt dreif á daga hennar eins og gengur og þau Gunnar slitu samvistir.

Herdís giftist aftur Baldri Ólafssyni og okkur var ljóst að þau voru mjög hamingjusöm saman en svo fór að þeim Baldri var ekki ætlað langt líf saman en hann lést um aldur fram. Á síðari árum er hún var orðin ein var hún með okkur bekkjarsystkinum sínum er við hittumst og oftar er hún flutti til Reykjavíkur. Við fórum í ferðalög til útlanda og var mér minnisstætt að glatt var á hjalla er þær deildu saman herbergi, Kæja, Anna Harðar og Herdís í ferð hópsins til Berlínar. Gleðin var við völd er þær stöllur rifjuðu upp gamlar minningar frá skólaárunum.

Fyrir hönd bekkjarsystkina í Bifröst sendi ég aðstandendum samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning hennar.

Guðrún Helga Gestsdóttir.