Stórsigur Hákon Arnar Haraldsson fagnar með samherjum í Lille eftir að hafa átt þátt í fimmta markinu í stórsigri á Feyenoord í fyrrakvöld.
Stórsigur Hákon Arnar Haraldsson fagnar með samherjum í Lille eftir að hafa átt þátt í fimmta markinu í stórsigri á Feyenoord í fyrrakvöld. — AFP/Sameer Al-Doumy
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Manchester City mætir annaðhvort Real Madrid eða Bayern München í umspili Meistaradeildar karla í fótbolta og Liverpool gæti mætt París SG í 16-liða úrslitum, þrátt fyrir að hafa unnið deildarkeppnina

Meistaradeild

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Manchester City mætir annaðhvort Real Madrid eða Bayern München í umspili Meistaradeildar karla í fótbolta og Liverpool gæti mætt París SG í 16-liða úrslitum, þrátt fyrir að hafa unnið deildarkeppnina.

Þetta er meðal þess sem liggur fyrir að lokinni áttundu og síðustu umferð Meistaradeildarinnar sem leikin var í fyrrakvöld en klukkan 11 í dag verður dregið til umspilsins og sextán liða úrslitanna.

Þar sem þegar er búið að hólfa liðin 24 niður fyrir dráttinn eru línurnar nokkuð skýrar og ljóst hvaða lið geta lent saman í báðum umferðunum. Lokastaða liðanna í deildarkeppninni stýrir þeim inn í ákveðin hólf í drættinum.

Liverpool vann þrátt fyrir tap

Liverpool vann deildina með 21 stig af 24 mögulegum en tefldi fram hálfgerðu varaliði í tapleik gegn PSV í Hollandi í fyrrakvöld, 3:2. Það kom ekki að sök því Barcelona mátti sætta sig við jafntefli við Atalanta, 2:2, og fékk 19 stig.

Manchester City slapp naumlega inn í umspilið í 22. sæti deildarinnar en ensku meistararnir urðu að vinna Club Brugge. Þeir voru undir í hálfleik en tryggðu sér sigur, 3:1. Þeirra bíður hins vegar risastórt verkefni í umspilinu en mörg stórlið urðu að gera sér að góðu að vera í sætum 9 til 24.

Hákon beint í 16-liða úrslit

Hákon Arnar Haraldsson kom inn á sem varamaður og átti þátt í einu marka franska liðsins Lille sem burstaði Feyenoord frá Hollandi, 6:1. Lille náði með því 7. sætinu og tryggði sér þar með sæti í 16-liða úrslitunum.

Átta efstu liðin komust beint þangað og Aston Villa náði áttunda sætinu en Morgan Rogers skoraði þrennu fyrir Villa í sigri á skosku meisturunum Celtic, 4:2.

Spennandi lokaumferð

Nýja keppnisfyrirkomulagið, ein 36 liða deild með átta umferðum, hefur reynst ágætlega og meiri spenna var í lokaumferðinni en vanalega var í lok riðlakeppninnar eftir gamla fyrirkomulaginu. Sextán af síðustu átján leikjunum í fyrrakvöld skiptu máli og það jók á spennuna að þeir skyldu allir fara fram á sama tíma.

Svona hólfast liðin 24 niður í fjóra hópa fyrir dráttinn í dag, sæti í deildinni eru innan sviga:

 Mónakó (17) eða Brest (18) mætir París SG (15) eða Benfica (16) í umspilinu. Sigurliðin tvö mæta Liverpool (1) og Barcelona (2) í 16-liða úrslitum.

 Sporting Lissabon (23) eða Club Brugge (24) mætir Atalanta (9) eða Dortmund (10) í umspilinu. Sigurliðin tvö mæta Lille (7) og Aston Villa (8) í 16-liða úrslitum.

 Celtic (21) eða Manchester City (22) mætir Real Madrid (11) eða Bayern München (12) í umspilinu. Sigurliðin tvö mæta Atlético Madrid (5) og Leverkusen (6) í 16-liða úrslitum.

 Feyenoord (19) eða Juventus (20) mætir AC Milan (13) eða PSV Eindhoven (14) í umspilinu. Sigurliðin tvö mæta Arsenal (3) og Inter Mílanó (4) í 16-liða úrslitum.

Höf.: Víðir Sigurðsson