Ingvar Ernir Kjartansson fæddist 25. mars 1933 á Ísafirði. Hann lést á Droplaugarstöðum 9. janúar 2025.

Foreldrar hans voru Kjartan Jónas Jóhannsson, læknir og alþingismaður á Ísafirði, síðar heimilislæknir í Kópavogi, f. 19.4. 1907, d. 7.1. 1987, og Jóna Breiðfjörð Ingvarsdóttir húsmóðir, f. 28.12. 1907, d. 29.7. 1994. Systkini hans eru Kjartan Birgir, f. 5.1. 1932, d. 3.5. 1966, Jóhann Ármann, f. 26.6. 1939, Þorbjörg Kolbrún, f. 27.11. 1943, og Kristjana Sigrún, f. 26.1. 1949.

Ingvar kvæntist árið 1953 eftirlifandi konu sinni Elínu Árnadóttur, f. 26.4. 1933, efnatæknifræðingi. Börn þeirra eru: 1) Jóna Birna, f. 20.11. 1953, maki Bengt Wollinger. Börn Jónu með fyrri eiginmanni sínum Håkan Sinclair eru: a) Kristín Vilborg, f. 1977, maki Anders Umegård og eiga þau tvær dætur, b) Björn Arne, f. 1980, maki Jessica Sagre og eiga þau þrjú börn, c) Ingvar Örn, f. 1982, maki Anna Wepplinger Sinclair og eiga þau tvö börn, d) Magnús Karl, f. 1986, maki Lulu Pan Sinclair og eiga þau þrjú börn. 2) Páll Eyjólfur, f. 27.11. 1954, maki Kristín Hjörleifsdóttir, þeirra börn eru: a) Ingvar Ernir, f. 1977, d. 1981, b) Vilborg, f. 1979, í sambúð með Olof Lekholm og eiga þau þrjú börn, c) Ylfa Eleonora, f. 1983, maki Aron Lagerberg og eiga þau þrjú börn, d) Ernir Óskar, f. 1984, maki Kei Okubo og eiga þau eina dóttur, e) Elín Edda, f. 1988, maki Sindri Freyr Steinsson, þau eiga einn son. 3) Árni Gunnar, f. 23.10. 1956, maki Marianne Norgren. Börn Árna og fyrri eiginkonu hans Evu Peterson eru fjögur: a) Tor, f. 1984, maki Sara Nygren og eiga þau eina dóttur. Tor á einnig tvær dætur úr fyrra hjónabandi. b) Ása, f. 1988, í sambúð með Yildirim Denizhan og eiga þau eina dóttur, c) Hanna, f. 1990, í sambúð með Michell Arias og eiga þau eina dóttur. Árni á einnig dóttur úr fyrra sambandi, d) Natalie, f. 2015. 4) Kjartan Ármann, f. 6.4. 1960.

Ingvar ólst upp á Ísafirði en fór suður til náms 1949. Að loknu stúdentsprófi frá MR 1953 tók við nám í læknadeild Háskóla Íslands. Eftir læknapróf í febrúar 1962 fór hann til sérnáms og starfa sem skurðlæknir á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg auk 4 ára í Västerås, með æðaskurðlækningar sem undirsérgrein. Hann varði doktorsritgerð sína 1979. 1976 flutti fjölskyldan heim, Ingvar starfaði á Sjúkrahúsi Selfoss í 3 ár og síðar á skurðdeild LSH. Þá lá leiðin aftur til Gautaborgar 1988, fyrst á Sahlgrenska, en stuttu síðar varð hann yfirlæknir og síðar sviðsstjóri við Frölunda sjúkrahúsið í Gautaborg þar sem hann innleiddi kögunaraðgerðir. Eftir starfslok við 65 ára aldur fluttu þau Elín heim. Ingvar vann á stofu og í afleysingum á Ísafirði og víðar í 8 ár en þá lauk farsælum starfsferli vegna síversnandi gláku sem varð síðar alblinda, auk þverrandi heyrnar. Þau Elín bjuggu lengst af í Heiðarlundi í Garðabænum en síðar á Skúlagötu í Reykjavík. Ingvar hafði mikinn áhuga á golfi, brids og siglingum.

Útför Ingvars fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 31. janúar 2025, kl. 15.

Í janúar um miðja síðustu öld geisaði akureyrarveiki á Ísafirði og gagnfræðaskólanum var lokað. Ingvar bróðir var þá í landsprófi og naut frelsisins. Var á skíðum á daginn og spilaði brids á kvöldin og fram á nótt. Þegar Elín ljósmóðir kom vegna fæðingar undirritaðrar byrjaði hún á því að segja mömmu að hafa ekki áhyggjur af honum þó komið væri undir morgun. Hann væri heima hjá henni að spila.

Það fyrsta sem ég man sjálf eftir Ingvari er þegar ég var í fangi hans með mislinga 2 ára. Foreldrarnir voru á ferð í Ameríku, við systur hjá ömmu og fengum auðvitað báðar mislinga. Næstu minningabrot eru þegar ég fékk að gista hjá þeim Ellu í tveimur hægindastólum með silkiteppi 4 ára og fannst þetta afskaplega fínt. Það varð regla að þegar við komum suður gisti ég oftast þar og undi ég mér þar vel. Seinna naut ég gestrisni þeirra í Gautaborg þar sem við fjölskyldan fórum út að sigla með þeim út í eyjar. Sonum mínum fannst það algjört ævintýri. Það var í eina skipti sem þeir heyrðu Ingvar byrsta sig, en það var þá við stjórn á seglum. Síðast gistum við hjá þeim á Ísafirði og alltaf voru móttökur jafngóðar.

Ingvar var alla tíð óttalaus. Þriggja ára sagði hann við aðeins eldri félaga sem var myrkhræddur: „Finndu bara, það er ekkert.“

Ingvar var alveg frá unglingsárum mjög barngóður og sinnti okkur yngri systrum sínum einstaklega vel. Sama kom á daginn með hans eigin börn og síðan barna- og barnabarnabörn sem og frændur og frænkur. Talaði alltaf við þau sem jafningja. Kunni deili á nöfnum á öllum skaranum og hafði áhuga á því sem þau voru að gera. „Hann var alltaf svo hress og skemmtilegur,“ segir sonur minn og nafni hans.

Þó við systur værum mun yngri þá nutu bræðurnir samt mun meira frelsis á unglingsárunum, nokkuð sem við gerðum miklar athugasemdir við. Við systur hefðum aldrei fengið að fara til Frakklands á skátamót um fermingu og alls ekki á böll utan bæjar. Hins vegar þótti alltaf sjálfsagt að við færum í framhaldsskóla rétt eins og þeir.

Þegar ég kom frá Ísafirði í MR sveif bekkjarsystir á mig því hún hafði frétt að ég ætti svo myndarlega eldri bræður, fallegu tvíburana. Ég varð að hryggja hana með því að þeir væru ekki tvíburar, 16 og 17 árum eldri en við, harðgiftir og margra barna feður.

Ingvar átti alltaf fjölda áhugamála og sökkti sér jafnan djúpt niður í þau. Þegar hann var hann í læknadeildinni var hann mjög upptekinn af ljósmyndun. Þegar einhver sem hafði verið samferða honum í læknadeild komst að því að ég væri systir hans kvað við með aðdáun: „Hann vissi allt um ljósmyndun.“

Margir í fjölskyldunni unnu í heilbrigðiskerfinu en flest annað var þó rætt í fjölskylduboðum svo sem bílar, íþróttir, bækur, græjur og golf.

Síðustu ár tóku örugglega á en Ella stóð sem klettur við hlið hans í gegnum súrt og sætt í yfir 70 ár. Aðspurður hvernig honum liði var svarið jafnan vel.

Ingvar bróðir minn er allur en fjöldi góðra minninga lifir áfram. Ellu sendi ég samúðarkveðjur og bestu þakkir fyrir allt.

Kristjana Sigrún Kjartansdóttir.

Við fráfall Ingvars bróður míns kemur margt upp í hugann. Fyrst frásögn mömmu af því hvernig ég hafi sem ómálga barn skoðað heiminn af herðum Ingvars og haldið mér í ljósar krullur hans. Þetta auk annars sýnir hvað Ingvar var ævinlega barngóður. Ingvar Ernir var stóri bróðir minn ásamt Kjartani Birgi, en þeir voru tíu og ellefu árum eldri en ég. Þegar aldursmunur er þetta mikill er enginn núningur milli systkina, aðeins virðing og aðdáun. Þeir fóru til Reykjavíkur í skóla sextán ára og um svipað leyti fóru þeir til sjós á sumrin, oftast á síld. Endurminningar tengjast því komu þeirra heim í frí sem var alltaf tilhlökkunarefni. Þeir voru áþekkir í útliti og margir héldu að þeir væru tvíburar. Annað var þó ólíkt. Ég minnist dagsferðar á gönguskíðum með Kjartani en slíkt var ekki Ingvari að skapi. Hann valdi svig og brun.

Ekki minnkaði aðdáun okkar yngri systkina þegar þeir Ingvar og Kjartan festu báðir ráð sitt um tvítugt og við eignuðumst lítil frændsystkin, sem okkur þóttu aldeilis frábær. Mér þótti furðulegt þegar kona sagði við mömmu: „Blessaðir drengirnir, svona ungir og að byrja í erfiðu námi.“ Rétt var það, þeir voru báðir að hefja nám í læknisfræði. Þá var lítið um námslán. Þeir reyndu eftir megni að vinna með námi en mestur hluti framfærslunnar hefur trúlega lent á eiginkonum þeirra, eins og þá tíðkaðist.

Á námstímanum eignaðist Kjartan þrjú börn en Ingvar fjögur.

Allt gekk þó að óskum og að námi loknu hélt Ingvar í framhaldsnám til Svíþjóðar og hóf nám í skurðlækningum við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg. Síðar tók hann þar doktorsgráðu í æðaskurðlækningum. Hann vann lengst af í Svíþjóð, en líka um tíma hér á Íslandi, bæði á LSH og Selfossi. Einnig var hann seinna í afleysingum í Neskaupstað og á Ísafirði.

Ingvar hafði alltaf mikinn áhuga á íþróttum enda vel liðtækur. Um tíma æfði hann sund, var talsvert á skíðum og seinna bættist golfið við. Á Svíþjóðarárunum átti fjölskyldan skútu. Þar var hann í essinu sínu og naut sín vel.

Þegar ég fór til Reykjavíkur í skóla bjó ég í göngufæri við heimili Ingvars og Elínar. Nýtti mér það óspart og var alltaf tekið opnum örmum. Sumarið þegar ég var átján ára útvegaði Ingvar mér sumarvinnu á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu, þar sem hann vann. Þá dvaldi ég í góðu yfirlæti hjá þeim hjónum og varð reynslunni ríkari.

Á efri árum fór Ingvari að förlast sjón og varð hann alveg blindur áður en yfir lauk. Einnig var heyrnin mjög farin að skerðast. Hann gat samt verið heima að undanskildum tveim síðustu árum. Var það með einstakri hjálp Elínar, hans góðu konu.

Ingvar kvartaði aldrei yfir örlögum sínum og var alla tíð minnugur bæði á löngu liðna tíð og nýliðna. Í tilefni bókar sem frænka okkar skrifaði nýlega um afa okkar, rifjaði Ingvar upp spjall sem hann hafði átt sem unglingur við afa. Þegar ég svo bauðst til að lesa fyrir hann tiltekna kafla úr bókinni svaraði Ingvar að bragði: „Nei, það var lesið fyrir mig í gær.“

Ég kveð Ingvar með þakklæti fyrir vináttu sem aldrei bar skugga á.

Þorbjörg Kolbrún Kjartansdóttir.