Elísabet Matthíasdóttir fæddist 7. janúar 1943 í Reykjavík. Hún lést 19. janúar 2025 á hjúkrunarheimilinu Sóltúni.
Foreldrar hennar voru hjónin Karen Georgsdóttir, f. á Fáskrúðsfirði 21.12. 1912, d. 27.8. 1974, og Matthías Hreiðarsson, f. á Ísafirði 9.9. 1913, d. 26.2. 1995.
Systkin Elísabetar eru: Kristín, f. 2.4. 1941, d. 7.6. 2016, Matthías Hreiðar, f. 4.9. 1946, og Alfred Georg, f. 10.1. 1957.
Eiginmaður Elísabetar er Lýður Sörlason, f. 10.9. 1942. Þau gengu í hjónaband í Dómkirkjunni þann 8. janúar 1966.
Synir þeirra eru: 1) Atli Georg, f. 19. júlí 1966. Börn hans eru: Almar Steinn og Salbjörg Ósk. 2) Hörður, f. 13. mars 1972. Maki hans er Karen J. Elíasdóttir. Börn þeirra eru: María, Elísabet og Sóley Birta.
Langömmubarn Elísabetar er Dýrfinna Almarsdóttir.
Elísabet ólst upp í Reykjavík og gekk í Austurbæjarskólann. Hún lærði snyrtifræði og útskrifaðist sem snyrtifræðingur frá Snyrtiskóla Margrétar. Elísabet rak snyrtistofu á Hótel Loftleiðum, Rauðarárstíg og Suðurgötu og vann við fag sitt í fjölda ára.
Elísabet var mikil fjölskyldumanneskja og hafði gaman af ferðalögum og ferðuðust hjónin víða.
Útför hennar fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi í dag, 31. janúar 2025, klukkan 13.
Þegar ég var ungur drengur, ca. fimm ára, var Elísabet systir mín ca. átta ára og búin að vera nokkur ár í skóla. Hún dýrkaði skólann og kennarann sinn og var staðráðin í að verða kennari þegar hún yrði eldri. Hún gat ekki beðið og ákvað að gera mig að sínum fyrsta nemanda. Hún útvegaði sér svarta krítartöflu, lítið borð og stól og byrjaði umsvifalaust að kenna mér að lesa. Þetta gekk ótrúlega vel enda kennarinn kappsfullur og nemandinn nokkuð áhugasamur. Þannig að þegar ég innritaðist í tilraunadeild Ísaksskóla sex ára gamall var ég orðinn fulllæs og gleypti í mig hverja bókina á fætur annarri. Þannig á ég systur minni að þakka byrjunina á langri lestrarævi og stóru bókasafni.
Þegar Elísabet og eldri systir mín Kristín fóru að stunda svokallaðar Glasgow-verslunarferðir brást ekki að mjög áhugaverðir pakkar til mín komu upp úr ferðatöskum. Sérstaklega áhugaverðir af því að þeir voru frá útlöndum. Sumt af þessum leikföngum á ég enn þá. Mér er minnisstætt sjóræningjaskip með fullri áhöfn, sem ég varð alltaf að hafa með mér ef ég átti að fara í bað, sem barn.
Elísabet mín, takk fyrir allt og allt.
Matthías H. Matthíasson.