— Morgunblaðið/Eggert
Hvernig kom það til að þú ákvaðst að halda þessa tónleika? Ég, ásamt hljómsveitinni minni, ákvað að halda styrktartónleika fyrir Ljósið í minningu litlu systur minnar, Aprílar Stjörnu. Hún dó úr krabbameini í október 2022 en hafði greinst þremur árum áður

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að halda þessa tónleika?

Ég, ásamt hljómsveitinni minni, ákvað að halda styrktartónleika fyrir Ljósið í minningu litlu systur minnar, Aprílar Stjörnu. Hún dó úr krabbameini í október 2022 en hafði greinst þremur árum áður. Hún eignaðist dóttur tvítug og stuttu síðar greindist hún, en eftir fæðinguna gat hún ekki gengið og þá fundust meinvörp í lungum. Hún sótti í Ljósið og eins núna frænka mín sem er með magakrabbamein.

Hvað heitir þín hljómsveit?

Hún heitir The Wolfpack og er rokkhljómsveit og því heita tónleikarnir Ljósið rokkar. Við höfum ekki enn gefið neitt út, en ég hef reyndar gefið út lög undir nafninu Alina. Svo vatt þetta upp á sig og Eyþór Ingi vildi vera með og svo bættust í hópinn Teitur Magnússon, hljómsveitin Moskvít og hljómsveitin Mørose. Við verðum líka með leynigest.

Þannig að þið ætlið að rokka á Gauknum?

Já, og margt annað verður á dagskrá líka. Við erum með happdrætti og höfum fengið mjög flotta vinninga frá fyrirtækjum. Það er mjög gaman hvað allir eru til í að hjálpa. Svo verður kökusala frá Passion og einnig hægt að kaupa ýmsan varning frá Ljósinu.

Fyrir hverja eru tónleikarnir?

Allan aldur, þetta eru fjölskyldutónleikar og allir eru velkomnir. Tónleikarnir byrja klukkan sex. Á Gauknum er pláss fyrir 240 manns og við vonumst til að fylla húsið. Miðasalan er við innganginn en fyrir fólk sem ekki kemst er hægt að styrkja Ljósið beint. Starfsfólk Gauksins gefur vinnu sína líka. Við erum á stífum æfingum núna.

Ert þú söngkonan?

Já, og ég spila líka á gítar og sem flest lögin. Ég hvet fólk til að mæta eftir viku á Gaukinn, þann goðsagnakennda rokkstað.

Auður Linda Sonjudóttir er í forsvari fyrir tónleikana Ljósið rokkar sem haldnir verða á Gauknum hinn 9. febrúar. Miðar fást við innganginn og kostar 2.500 fyrir fullorðna en 500 fyrir börn. Allur ágóði rennur til Ljóssins.