Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Mikil tilhlökkun ríkir í hópnum að koma fram opinberlega eftir langt hlé, en við hittumst alltaf annað slagið og spilum saman og þó það líði stundum mörg ár á milli, þá höfum við engu gleymt. Ég er þakklátur þessum góðu vinum mínum að vera til í að æfa með mér lögin á nýju plötunni og spila í útgáfuteitinu mínu. Við höfum hertekið stofuna heima hjá mér á æfingum og gantast og fíflast eins og við viljum,“ segir Guðmundur Haukur Jónsson og á þar við sjálfan sig og aðra meðlimi hljómsveitarinnar Roof Tops sem ætlar að spila í teiti því sem blásið verður til nk. miðvikudag vegna útgáfu barnaplötu og bókar Guðmundar, Barnalög – fyrir alls konar fólk. Þetta er ný kennslubók og söngbók til íslenskukennslu, tónmenntakennslu og til að skyggnast inn í undraheima ljóðlistar, og styður auk þess myndmenntakennslu. Bókinni fylgir geisladiskur með lögum eftir Guðmund Hauk við eigin texta auk þess sem á diskinum eru lög við sjö ljóð eftir Þórarin Eldjárn og eitt lag við ljóð Kristjáns frá Djúpalæk.
„Hugmyndin hjá mér var að búa til kennslubók þar sem ljóð og lög styðja hvert annað. Þessi söngbók er framlag mitt til verndar og viðhalds íslenskrar tungu, auk þess að bjóða upp á nýjan og ferskan blæ í tónlist og söng í grunnskólanum. Bókin á ekki síður við á heimilum með pabba og mömmu eða afa og ömmu. Að syngja saman á íslensku er mjög góð aðferð til að efla tungumálið, í Háskólakórnum eru til dæmis margir erlendir stúdentar sem læra íslensku og þeir syngja á íslensku í kórnum. Með því að syngja ljóð þá lærum við orð og orðanotkun, þetta verkefni mitt er því fyrir alls konar fólk á öllum aldri og getur vonandi einnig stutt vel við börn innflytjenda.“
Brennandi íslenskuáhugi
Guðmundur Haukur hefur prufukeyrt verkefnið, Barnalög – fyrir alls konar fólk, í 6. bekk hjá Waldorfskólanum Sólstöfum í tæpa tvo vetur og fengið jákvæð viðbrögð.
„Þar spilaði tónmenntakennarinn undir á píanó þegar krakkarnir sungu textana úr bókinni, en síðan komu aðrir kennarar til að brjóta ljóðatextana til mergjar með krökkunum. Hverju ljóði fylgir pistill með vangaveltum og hugmyndum um efni ljóðanna ásamt einstaka sögum og tilvitnunum. Þetta eru nokkurs konar kennsluleiðbeiningar sem geta verið kveikja að skemmtilegum samræðum til að styrkja vináttu og samstarf barna og kennara, nú eða barna og foreldra. Til dæmis er ljóðið, Mitt faðirvor, eftir Kristján frá Djúpalæk, ekki kristilegt ljóð heldur er það um sjálfshjálp, hvernig maður getur unnið sig út úr vandamálum sínum með íhygli. Ljóðið endar á þessum orðum: Fegurð, gleði, friður, mitt faðirvor. Ég spyr í bókinni hvar þessi orð séu stödd í dag, og út frá þeirri spurningu er heldur betur hægt að spjalla,“ segir Guðmundur Haukur sem hefur alla tíð haft brennandi áhuga á tungumálinu okkar, íslenskunni.
„Ég var fjórtán ára þegar ég var farinn að demba mér í að lesa ljóð, bæði rímuð og órímuð, og um svipað leyti kláraði ég að lesa allar bækurnar eftir Þórberg Þórðarson. Það var mikil reynsla fyrir óþroskaðan unglingsstrák eins og mig. Síðan hellti ég mér út í það að lesa bækur Halldórs Laxness, sem var líka mikil upplifun út af fyrir sig, en hann var miklu léttari fannst mér. Að fara úr Þórbergi beint yfir í Laxness var eins og að fara í tónlist úr þungum málmi yfir í mýkri tóna.“
Bítlarnir tóku okkur að sér
Tónlistin hefur verið hluti af lífi Guðmundar Hauks frá því hann var ungur drengur, hann byrjaði að læra á píanó þegar hann var níu ára.
„Ég var í klassísku píanónámi og þar mátti ég ekki spila eftir eyranu, en ég gerði það nú samt þegar enginn heyrði til. Ég fór að glamra frjálst á píanóið þegar enginn var heima, í stað þess að spila æfingarnar mínar. Ég bý enn að því að hafa lært á klassískan hátt á píanó, það er góður grunnur, en ég ákvað að hætta í píanónáminu þegar ég var 14 ára. Þá var kominn nýr andi, Bítlarnir höfðu tekið að sér okkur unga fólkið um allan heim. Seinna þegar ég fór sjálfur að kenna á píanó og nemendur mínir vildu spila til dæmis Bítlalög, þá bjó ég til útsetningar og prentaði út fyrir krakkana. Þetta varð til þess að ég fór að rannsaka tónlist Bítlanna og þá fann ég snilldina hjá þeim, hljómasetningar og hvað þeir gerðu öðruvísi. Til dæmis á að vera í öllum lögum eitthvert margfeldi af fjórum töktum, hvort sem það eru átta, tólf eða sextán taktar, en lag Bítlanna, Yesterday, eitt vinsælasta lag í heimi og Paul McCartney samdi, það er sjö taktar. Hann brýtur grunnregluna, sem mér finnst skemmtilegt dæmi um að engin regla er hundrað prósent. Þó reglur séu almennt til að fara eftir þeim, þá má gjarnan finna sniðugar lausnir til að fara á skjön við reglur, út úr því kemur eitthvað gott, eins og hjá Paul McCartney þegar hann samdi Yesterday.“
Var lítið eldri en nemendur
Guðmundur Haukur gekk til liðs við fyrrnefnda hljómsveit, Roof Tops, árið 1970, þremur árum eftir að hún var stofnuð.
„Þá var ég kominn með stúdentspróf, enda segi ég stundum að ég hafi þurft slíkt próf til að fá inngöngu í bandið. Að vera ungur maður í vinsælli unglingahljómsveit á þeim tíma var auðvitað frábært, en líka svolítið skrýtið fyrir mig, af því að nokkru eftir að ég gekk til liðs við bandið þá gerðist ég íslenskukennari við Víghólaskóla í Kópavogi og kenndi þar unglingum. Sumir voru ekki nema nokkrum árum yngri en ég. Ég var ungur og til í allt, fullur af orku og alger vitleysingur, eins og gengur og gerist með tvítuga stráka, en ég hafði staðið mig vel í íslensku í Kennaraskólanum og tekið góð próf þar, svo ég treysti mér mjög vel í kennsluna,“ segir Guðmundur Haukur sem kenndi í rúman áratug íslensku við fyrrnefndan skóla.
Guðmundur Haukur býður til teitis í tilefni útgáfu Barnalaga fyrir alls konar fólk, nk. miðvikudag, 19. febrúar, í Menningarhúsinu Gerðubergi í Breiðholti. Kynningin hefst kl. 17 og þar leikur hljómsveitin Roof Tops lögin úr bókinni og sagðar verða skemmtilegar sögur. Hljómsveitina skipa að þessu sinni Guðmundur Haukur Jónsson, söngvari og píanóleikari, Gunnar Guðjónsson gítarleikari, Ari Jónsson, trommari og söngvari, og Gunnar Ringsted gítarleikari. Jón Pétur bassaleikari er fjarri góðu gamni, því hann er búsettur í Noregi.