Jensína Sigurborg Jóhannsdóttir fæddist 23. desember 1941. Hún lést 7. mars 2025.

Útför Jensínu fór fram 18. mars 2025.

Elsku Jensína föðursystir okkar hefur nú fengið hvíldina og er farin á vit nýrra ævintýra. Við eigum yndislegar minningar t.d. frá Vatnsendabletti þar sem fjölskyldan dvaldi oft í hjólhýsum eða á ferðalögum um hálendið. Ein sterk minning er oft rifjuð upp. Það hafði lítið sést til sólar og margir orðnir þreyttir á rigningunni, en einn morguninn er Jensína vaknaði var búið að mála gluggann gulan til að láta halda að það væri komin sól. Jensína var nú ekki ánægð með þetta prakkarastrik og fór að athuga hver hefði gert þetta og böndin bárust fljótt að pabba. En hún trúði því ekki upp á bróður sinn, þótt hann játaði sök og vildi bara gleðja systur sína. Mikið hefur verið hlegið að þessu.

Í einni af ferðunum vorum við að fara yfir á, Jensínu leist ekkert á ána, samþykkti þó að fara yfir ef pabbi færi á undan, sem hann gerði. Vatnið fór nú ansi hátt á jeppanum og því þurfti pabbi að keyra til baka aftur yfir ána því Jensínu leist ekkert á þetta.

Jensína var alltaf tilbúin að passa okkur systkin og stóð heimili hennar alltaf opið fyrir okkur og erum við henni mjög þakklát og eigum yndislegar minningar. Hún var líka mikil handavinnukona og prjónaði á prjónavél og seldi fatnað og síðar tók bútasaumurinn við. Jensína kunni að taka á móti gestum og alltaf var boðið upp á góðar veitingar. Á Þorláksmessu var oft mætt til Jensínu í heitt súkkulaði og veitingar í tilefni dagsins.

Elsku Guðrún Helga, Sigurður Smári, Jóhanna María, Steinunn Margrét og fjölskyldur, við vottum ykkur innilega samúð.

Hvíldu í friði.

Lilja Sólrún,
Jóhannes og Kristín Guðmundarbörn.