Murcia Arnar hefur verk að vinna eftir töp í fyrstu tveimur leikjum sínum.
Murcia Arnar hefur verk að vinna eftir töp í fyrstu tveimur leikjum sínum. — Ljósmynd/Alex Nicodim
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er fallið niður í C-deild Þjóðadeildarinnar eftir slæmt tap fyrir Kósovó, 3:1, í Murcia á Spáni í gærkvöldi. Um heimaleik Íslands var að ræða vegna vallarmála á Íslandi

Í Murcia

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er fallið niður í C-deild Þjóðadeildarinnar eftir slæmt tap fyrir Kósovó, 3:1, í Murcia á Spáni í gærkvöldi. Um heimaleik Íslands var að ræða vegna vallarmála á Íslandi. Kósovó vann fyrri leikinn í Pristínu á fimmtudagskvöld, 2:1, og einvígið samanlagt 5:2.

Er óhætt að tala um draumabyrjun Íslands því Orri Steinn Óskarsson jafnaði einvígið í 2:2 með marki eftir tæpar tvær mínútur er hann skilaði boltanum snyrtilega í markið úr teignum eftir hornspyrnu frá Alberti Guðmundssyni.

Eftir það var komið að Kósovó. Rétt eins og í seinni hálfleiknum í fyrri leiknum voru Kósóvar einfaldlega mun sterkari og sköpuðu sér fullt af færum. Það skilaði sér fyrst í jöfnunarmarki og síðan öðru marki Kósovó á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks. Vedat Muriqi gerði bæði mörkin.

Hann fullkomnaði svo þrennuna á 79. mínútu og gulltryggði sigur Kósovó gegn íslensku liði sem náði sér ekki almennilega á strik. Ekki bætti úr skák að Aron Einar Gunnarsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 70. mínútu og voru úrslitin í raun ráðin eftir það.

Neðarlega á heimslista

Frammistaða Íslands í gær og í einvíginu í heild var ekki nógu góð og tóku Kósóvar sæti Íslands í B-deildinni með sanngjörnum hætti. Kósovó skapaði sér mun fleiri og betri færi en Ísland í einvíginu og spilaði betur. Það er áhyggjuefni að láta lið sem er í 90. sæti heimslistans líta eins vel út.

Arnar Gunnlaugsson er að læra á landsliðsstarfið og hann þarf að læra hratt. Tilraunastarfsemin í fyrstu tveimur leikjunum hefur ekki gengið sérlega vel. Í fyrri leiknum stillti hann upp allt of mörgum sóknarmönnum, sem fengu ekki að njóta sín fyrir vikið. Þá mynduðust holur í vörninni og á miðjunni.

Kósovó gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik í fyrri leiknum og íslenska liðið réð illa við það. Franco Foda þjálfari Kósovó mátaði Arnar.

Nutu sín engan veginn

Í þeim seinni stillti hann upp tveimur miðjumönnum í vörninni, Ísaki Bergmann Jóhannessyni og Stefáni Teiti Þórðarsyni, og nutu þeir sín engan veginn. Ísak Bergmann var tekinn af velli eftir fyrri hálfleik og náði sér ekki á strik. Stefán Teitur var færður á miðjuna í seinni hálfleik enda ekki miðvörður.

Ísland á ekki eins marga góða varnarmenn í dag og þegar liðið fór á tvö stórmót. Að nota miðjumenn í vörninni er hins vegar ekki lausnin, það sást í gær. Betra lið en Kósovó hefði líklegast farið mjög illa með íslenska liðið.

Góðu fréttirnar eru þær að Arnar fær nú nægan tíma til að fara yfir það sem betur mátti fara í hans fyrsta verkefni og laga það sem illa fór. Eitthvað er að byggja á, þótt frammistaðan í einvíginu og sérstaklega í leiknum í gær hafi alls ekki verið góð. Arnar er fær þjálfari og nú reynir á.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson