Norður
♠ Á7
♥ D107
♦ 53
♣ ÁDG875
Vestur
♠ G3
♥ ÁG65
♦ G1064
♣ 963
Austur
♠ K9865
♥ 9832
♦ D7
♣ K2
Suður
♠ D1042
♥ K4
♦ ÁK982
♣ 104
Suður spilar 3G.
Það má segja að Norðmennirnir Jan Mikkelsen og Øyvind Ludvigsen hafi hitt á óskastund í spilinu að ofan en þar lagðist allt á eitt til að gera þeim kleift að hnekkja 3G í leik við Færeyjar á Norðurlandamóti öldunga nýlega.
Sagnir gengu víðast hvar með svipuðum hætti. Suður opnaði á 1♦, norður sagði 2♣, suður 2G og norður 3G. Víða kom út hjarta frá vestri og þá var leiðin greið í 10 slagi. En Ludvigsen fann að spila út ♠G.
Færeyingurinn Carl Mikkelsen í suður lét lítið í borði og norski Mikkelsen tók á kóng og spilaði meiri spaða á ásinn í borði. Sagnhafi fór heim á tígulás og lagði af stað með laufatíuna en Mikkelsen í austur gaf án hiks. Þegar nafni hans svínaði laufi aftur drap hann á kóng og spilaði tígli og vörnin átti fimm slagi.
Sagnhafi hefði betur spilað laufi úr borði inni á ♠A því ef tían heima heldur slag eru allar líkur á að kóngurinn sé í austur.