Bjarney Þorbjörg Þórðardóttir fæddist á Hólmavík 5. febrúar árið 1953. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 27. febrúar 2025.

Foreldrar hennar voru hjónin Þórður Gísli Bjarnason og María Sigríður Þorbjörnsdóttir, bændur á Ljúfustöðum í Kollafirði, börn þeirra ásamt Bjarneyju voru Jón Andrés Hjörtur, hann er látinn, Hersilía Guðrún, stúlka sem lést dagsgömul árið 1944, Benedikta Oddný, Þorbjörn Valur og Guðmundur Heiðar, hann er látinn.

Bjarney ólst upp á Ljúfustöðum, gekk í farskóla sem fór á milli bæja í sveitinni, hún starfaði svo í rækjuvinnslunni á Hólmavík áður en fór í Húsmæðraskólann á Staðarfelli árið 1970, þaðan útskrifaðist hún árið 1971. Það var á Staðarfelli sem hún kynnist eftirlifandi eiginmanni sínum, Guðbirni Jóni Jónssyni, en hann er frá bænum Miðskógi í Dalasýslu. Bjarney flutti að Miðskógi árið 1971 og hóf búskap með Guðbirni. Þau giftu sig 12. ágúst árið 1972.

Bjarney og Guðbjörn eiga fimm börn: 1) Valgerður Kristín, fædd árið 1972, sambýlismaður hennar er Bjarni Borgar Jóhannsson, dætur þeirra eru Freydís Rós og Elísa Rut, sambýlismaður hennar er Árni Rafn Jakobsson. 2) Guðjón Björn, fæddur árið 1973, kvæntur Arnbjörgu Traustadóttur, sonur þeirra er Jón Trausti. 3) María Sigríður, fædd árið 1981, sambýlismaður hennar er Friðjón Snorri Guðjónsson, dóttir þeirra er Erla Björk. 4) Hulda Ósk, fædd árið 1986, sambýlismaður hennar er Oddur Tryggvi Elvarsson, börn þeirra eru Guðfinna Petra og Guðbjörn Jón. Fyrir átti Hulda börnin Gabriel Mána, Guðrúnu Bjarneyju og Ísabellu Líf. Börn Odds eru Andrea Ólöf, Sveinn Theodór og Alice Anna. 5) Þórður Gísli, fæddur árið 1990, sambýliskona hans er Brynhildur María Gestsdóttir, börn þeirra eru Soffía María og Baltasar Máni.

Bjarney og Guðbjörn ráku myndarlegt bú að Miðskógi þar sem Bjarney sinnti bæði heimili og búi. Er börnin voru flest uppkomin fór hún að vinna með búinu og vann meðal annars við ræstingar á Sýsluskrifstofu Dalabyggðar, í stjórnsýsluhúsinu, við aðhlynningu á Dvalarheimilinu Silfurtúni og Fellsenda, í grunnskólanum og vann í Mjólkurstöðinni í Búðardal.

Bjarney og Guðbjörn brugðu búi árið 2015 og fluttust á Akranes þar sem nokkur af börnum þeirra bjuggu. Bjarney hóf þá að starfa hjá Heimaþjónustu Akraneskaupstaðar.

Bjarney var enda einstaklega hjálpsöm, hún var ósérhlífin og bóngóð og setti jafnan aðra fram yfir sjálfa sig. Bjarney var listræn og músíkölsk

Árið 2022 veikist hún af krabbameini, fór í uppskurð til Svíþjóðar árið eftir, hún barðist kröftuglega við meinið og reyndi eftir bestu getu að njóta sín þess á milli.

Útför hennar fór fram frá Akraneskirkju 14. mars 2025.

Á leið okkar gegnum lífið kynnumst við alls konar fólki, sem hefur áhrif á okkur til lengri eða skemmri tíma. Sumir eru einstakir, hafa við sig eitthvað sem ekki er öllum gefið.

Ein af þeim var Bjarney í Miðskógi. Hún var ættuð af Ströndunum, en flutti í Dalina fáeinum árum á undan mér. Þótt ekki væri langt milli bæjanna kynntumst við aðeins lauslega fyrstu árin, enda báðar frekar hlédrægar.

Kynni okkar hófust fyrir alvöru er við unnum saman á Dvalarheimilinu Fellsenda. Betri vinnufélaga var ekki hægt að hugsa sér. Hún hafði mjög góða nærveru og mér leið alltaf sérlega vel í návist hennar.

Hún var hæglát í fasi og jafnlynd en hafði bein í nefinu þegar á þurfti að halda.

Hún var með afbrigðum samvizkusöm og ósérhlífin og gerði allt vel sem hún gerði.

Bjarney og Jón, maður hennar, bjuggu myndarbúi í Miðskógi, og ólu þar upp börnin sín fimm. Hún var stoð og styrkur Jóns við bústörfin, gekk í öll störf, úti sem inni.

Heimili þeirra var hlýlegt og fallegt, bar húsmóðurinni fagurt vitni og voru þau hjón góð heim að sækja.

Samband okkar rofnaði er þau brugðu búi og fluttu til Akraness; nema fyrir jólakveðjur og þess háttar. En góðu fólki gleymir maður ekki, þótt vík beri á milli vina.

En fyrir nokkrum árum greindist Bjarney með sjúkdóm þann er nú hefur orðið henni að aldurtila. Ég efast ekki um að hún hefur tekið á því með æðruleysi, það var ekki hennar stíll að æsa sig út af hlutunum.

Ég veit að Bjarneyju þætti nóg um þessa lofræðu, hún var svo hógvær og lítillát, hjálpsöm og góð; en ég veit líka að ég er ekki ein um þessa skoðun.

En baráttan hefur verið henni erfið; og fjölskyldu hennar, sem núna syrgir góða konu sem hefur verið þeim allt í öllu svo lengi. Jón og fjölskyldan öll, eiga mína innilegustu samúð.

Minning Bjarneyjar mun lifa með þeim er áttu því láni að fagna að kynnast henni.

Guð blessi minningu hennar og fjölskyldu hennar alla.

Snæbjörg Rósa
Bjartmarsdóttir.