Valur varð á laugardag deildabikarmeistari karla í knattspyrnu í fimmta skipti eftir endurkomusigur á Fylki, 3:2, í úrslitaleik í Árbænum. Fylkir komst í 2:0 snemma leiks með mörkum frá Guðmundi Tyrfingssyni og Benedikt Daríusi Garðarssyni áður en Orri Hrafn Kjartansson, sem er alinn upp hjá Fylki, minnkaði muninn fyrir Val. Patrick Pedersen og Sigurður Egill Lárusson skoruðu svo fyrir Val seint í leiknum. Fyrirliðinn Hólmar Örn Eyjólfsson tók við bikarnum að leiknum loknum.
Landsliðskonan Danielle Rodriguez átti enn einn stórleikinn í efstu deild svissneska körfuboltans þegar lið hennar Fribourg tapaði fyrir Nyon, 74:95, í Fribourg á laugardag. Danielle lék 38 mínútur og skoraði 27 stig, tók sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Fribourg er í toppsæti deildarinnar.
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði á laugardag sitt fyrsta mark sem atvinnumaður í knattspyrnu þegar Anderlecht og Club Brugge gerðu jafntefli, 1:1, í Íslendingaslag í belgísku úrvalsdeildinni. Vigdís lék fyrstu 66 mínúturnar fyrir Anderlecht og Lára Kristín Pedersen lék allan leikinn fyrir Club Brugge.
KA tryggði sér á laugardag deildarmeistaratitilinn í blaki karla með því að sigra Vestra, 3:2, í lokaumferð úrvalsdeildarinnar í KA-heimilinu á Akureyri. KA vann sér inn 50 stig og Þróttur úr Reykjavík endaði í öðru sæti með 47 stig.
Gunnar Nelson mátti þola tap gegn Kevin Holland, 29:28, eftir dómaraúrskurð á bardagakvöldi í UFC í blönduðum bardagalistum í Lundúnum á laugardagskvöld. Holland vann tvær fyrstu loturnar og dugði sigur í þriðju lotunni því Gunnari ekki. Hann var nálægt því að hengja Holland í lotunni en sá bandaríski slapp.
Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfuknattleik, skoraði 19 stig, tók tvö fráköst og gaf fimm stoðsendingar fyrir Maroussi í 104:83-tapi fyrir AEK Aþenu í grísku úrvalsdeildinni í gær. Maroussi hafnaði í neðsta sæti deildarinnar og fer í umspil um að halda sæti sínu.
Gerpla er bikarmeistari í áhaldafimleikum í bæði karla- og kvennaflokki en mótið fór fram í Egilshöll í gær. Gerplukonur fengu 144,4 í einkunn samanlagt en Thelma Aðalsteinsdóttir var með hæstu samanlögðu einkunn í liðinu, 49,9. Karlalið Gerplu varð bikarmeistari níunda árið í röð en þeir fengu 209,929 stig samanlagt.
Knattspyrnumaðurinn Gísli Laxdal Unnarsson er genginn til liðs við uppeldisfélag sitt ÍA að nýju eftir rúmlega árs dvöl hjá Val. Gísli, sem er 24 ára kantmaður og bakvörður, skrifaði undir samning út árið 2027.
Styrmir Snær Þrastarson, landsliðsmaður í körfuknattleik, lék vel fyrir Belfius Mons í sigri á Oostende, 78:69, í sameiginlegri deild Belgíu og Hollands í gær. Styrmir var stigahæstur í liði Belfius er hann skoraði 17 stig, tók þrjú fráköst og gaf tvær stoðsendingar á 35 mínútum.
Stjarnan varð í gær bikarmeistari kvenna í hópfimleikum 2025 og tryggði sér sæti á Norðurlandamótinu sem fer fram í Finnlandi undir lok árs. Gerpla lenti í öðru sæti og fer einnig á NM. Stjarnan var með einu liðin í blönduðum flokki og karlaflokki og því fer Stjarnan með þrjú lið á NM en það hefur aðeins gerst einu sinni áður í sögu mótsins.
Sædís Rún Heiðarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, skoraði eitt mark og lagði upp annað fyrir ríkjandi meistara Vålerenga í 6:0-sigri á Kolbotn í 1. umferð norsku úrvalsdeildarinnar í gær. Lék hún allan leikinn.
Lucie Stefaniková vann til bronsverðlauna í -76 kg flokki á EM í klassískum kraftlyftingum í Málaga á Spáni á laugardag. Lucie byrjaði mótið stórkostlega er hún hreppti gullið og setti nýtt Evrópumet í hnébeygju með 211 kg lyftu. Í bekkpressu lyfti Lucie síðan 120 kg sem var persónuleg bæting. Í réttstöðulyftu varð hún í fjórða sæti með því að lyfta 232,5 kg. Samanlagt lyfti Lucie 563,5 kg sem skilaði henni bronsverðlaunum. Kristín Þórhallsdóttir keppti í -84 kg flokki í gær. Í hnébeygju lyfti Kristín 202,5 kg og hlaut bronsverðlaun í greininni. Í bekkpressu lyfti hún mest 110 kg og í réttstöðulyftu 215 kg. Samanlagt lyfti Kristín 527,5 kg og hafnaði í fjórða sæti í samanlögðu.