Fjármála- og efnahagsráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um opinber fjármál sem snýr einkum að svokölluðum fjármálareglum. Eins og ráðherra sagði í framsögu sinni er ekki um að ræða róttækar breytingar á þeirri umgjörð opinberra fjármála sem tók gildi fyrir tæpum áratug og hefur að hans sögn „í öllum megindráttum reynst vel“.
Markmiðið með lagabreytingunni er að sögn ráðherra að styrkja þetta regluverk um ríkisfjármálin enn frekar með upptöku nýrrar stöðugleikareglu í stað afkomureglu. Með breytingunni er ætlunin að koma í veg fyrir að opinber fjármál ýti undir efnahagslegt ójafnvægi, hvort sem er í þenslu eða samdrætti.
Ráðherra segir að engin þeirra reglna sem nú eru í lögunum, afkomureglan, skuldareglan og skuldalækkunarreglan, stuðli „beinlínis að efnahagslegum stöðugleika til skemmri tíma litið umfram það sem leiðir af traustri stöðu opinberra fjármála“. Ráðherra telur að nýja reglan, stöðugleikareglan, nái utan um þetta með því að koma í veg fyrir ófjármagnaðan útgjaldavöxt ríkissjóðs umfram 2% að raunvirði á ári, sem hann telur hóflegt sé horft til sögunnar.
Líkt og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins vakti hins vegar athygli á í umræðum um frumvarpið er ákveðin hætta fólgin í þessari hugsun. Nýja reglan felur í sér að vilji ríkisstjórn auka útgjöld verulega er ekkert sem hindrar það heldur kveður reglan þá á um að fjármagna skuli útgjöldin, það er að segja hækka skatta. Þetta varð til þess að Áslaug velti því upp hvort þetta yrði í raun skattahækkunarregla í stað þess að vera útgjaldaregla. Fyrir skattgreiðendur er það líka mjög umhugsunarvert.
Hægt er að hugsa sér margs konar útfærslu á reglum af þessu tagi og í umræðunum vísaði Áslaug til dæmis í annars konar útfærslu í Danmörku, þar sem gert væri ráð fyrir að ykjust útgjöld eitt árið umfram mörk skyldi ná þeim niður ári síðar. Fjármálaráðherra leist ekki á að jafna útgjöldin út með þeim hætti og taldi að þá kynnu stjórnmálamenn að freistast til að velta vandanum inn í framtíðina.
Vissulega er alltaf hætta á því, ekki síst þegar ríkið, og raunar sveitarfélögin einnig, er að kynna áætlanir til langs tíma, sem þó eiga að stuðla að ábyrgri meðferð opinbers fjár. Og það er líka þekkt að þegar mikið liggur við er reglum af þessu tagi vikið til hliðar, hvort sem er tímabundið, eins og gert var hér á landi og víðar vegna kórónuveirufaraldursins, eða varanlega með stjórnarskrárbreytingu, líkt og Þjóðverjar gerðu í liðinni viku.
Innan skamms kynnir fjármálaráðherra nýja fjármálastefnu og fjármálaáætlun og þá mun landsmönnum birtast með skýrari hætti en hingað til hvernig núverandi ríkisstjórn sér fyrir sér að halda á ríkisfjármálunum. Þar munu sjást áformin á útgjaldahliðinni og þar með taldar hagræðingartillögurnar sem búið er að kynna en þó með þeim fyrirvara að ríkisstjórnin hafi ekki gert þær að sínum. Enn fremur verða tekjuáformin skýrari, en hingað til hefur verið talað nokkuð óljóst í þeim efnum þó að í það minnsta einstakar undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar hafi ríka ástæðu til að óttast.
Staðreyndin er sú að seint verður hægt að sníða þann ramma um ríkisfjármálin að stjórnvöld sem eru áhugasöm um aukin ríkisútgjöld eða hærri skatta geti ekki fundið leiðir. Og sé vilji til aukinnar skuldsetningar finnast einnig leiðir í þeim efnum. Dæmi um það sjást vel víða um heim og vöxtur hins opinbera undanfarin ár og áratugi sýnir einnig að tilhneigingin er að þenja hið opinbera út en ekki að gæta hófs eða aðhalds, hvað þá að ráðast í nauðsynlegan niðurskurð.
Fyrstu skref þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr boða ekki sérstaklega gott í þessum efnum. Ráðherrar sögðust sýna vilja til aðhalds og sparnaðar með því að kalla eftir hagræðingartillögum frá almenningi, en eftir þá joðsótt fæddist varla mús. Og eins og áður segir gerði ríkisstjórnin rýrar tillögur hagræðingarnefndarinnar ekki einu sinni að sínum þannig að alls óvíst er hvort þeir fáu milljarðar sem þar var lagt til að spara verði að veruleika.
Vandinn við að halda utan um ríkisfjármálin felst ekki fyrst og fremst í þeim reglum sem ríkið setur sér, hvort sem þær heita afkomuregla, stöðugleikaregla eða eitthvað annað. Vandinn er sá að fæstir stjórnmálamenn eða ríkisstjórnir sýna raunverulegan vilja til að halda aftur af útgjöldum og gæta fyllsta aðhalds. Áhuginn er miklu meiri og nánast allur á því að ráðast í ný verkefni og auka útgjöld, meðal annars með óhóflegum launahækkunum sem eru langt umfram það sem fyrirtækin á almenna markaðnum treysta sér í. Það er alls óvíst að það sé vænlegt til árangurs í þessum efnum að auðvelda ríkisstjórn að réttlæta skattahækkanir til að standa undir útþenslu ríkisútgjaldanna.
Ef til vill myndi til dæmis hjálpa meira að setja þá reglu að fyrir hverja nýja krónu í útgjöldum skuli skera niður aðra á móti. Það kynni að hemja útgjaldavöxtinn eitthvað, en kæmi þó ekki í veg fyrir að útsjónarsamir og útgjaldasinnaðir stjórnmálamenn fyndu leiðir til áframhaldandi útþenslu ríkisins.