Orri Steinn Óskarsson
Orri Steinn Óskarsson
„Við byrjum leikinn vel, skorum mark og tilfinningin var góð. Síðan lentum við á eftir í einvígjunum og það er undir okkur komið að vera klárir þar. Þetta eru einfaldir hlutir sem við verðum að gera betur í, allir sem einn

„Við byrjum leikinn vel, skorum mark og tilfinningin var góð. Síðan lentum við á eftir í einvígjunum og það er undir okkur komið að vera klárir þar.

Þetta eru einfaldir hlutir sem við verðum að gera betur í, allir sem einn. Þeir voru einfaldlega betri en við í dag,“ sagði markaskorarinn og fyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson í samtali við Morgunblaðið eftir leik.

Hann var spurður hvað liðið hefði rætt í leikhléi eftir slakan fyrri hálfleik.

„Ég ætla að halda því innanborðs en þetta var einfalt. Við þurftum að berjast meira, það var ekki flóknara en það,“ sagði Orri Steinn.

Hann viðurkenndi að það væri svekkjandi hvað leikmenn Kósovó áttu auðvelt með að koma sér í góðar stöður.

„Auðvitað er það svekkjandi. Við viljum vera góðir í öllu, varnarleik og sóknarleik. Við þurfum að reyna að vera jákvæðir, það þýðir ekki að dvelja lengi við þetta. Nú eru tveir mikilvægir vináttuleikir í sumar og síðan undankeppni HM næst.

Fyrstu leikirnir með Arnari, nýjar áherslur og svona. Við verðum að vera klárir í sumar og síðan í undankeppninni.“