Bryndís Hrönn Kristjánsdóttir fæddist á Siglufirði 10. maí 1958. Hún lést á heimili sínu 9. mars 2025.

Bryndís, eða Binna eins og hún var alltaf kölluð, var dóttir hjónanna Kristjáns H. Rögnvaldssonar f. 12.8. 1931, d. 18.4. 1999, og Lilju Jóelsdóttur, f. 27.5. 1931, d. 6.2. 2008.

Binna ólst upp í sjö systkina hópi og á auk þess hálfsystur, Hildi Maríu. Systkini Binnu eru: Marteinn Þór, f. 9.12. 1951, Páll Reynir, f. 3.3. 1954, d. 7.8. 1976, Jóel, f. 15.1. 1956, Kristján Haraldur, f. 9.2. 1960, Guðni, f. 7.10. 1963, og Jónína Hafdís, f. 30.5. 1965.

Eiginmaður Binnu er Þórólfur Tómasson, f. 11.9. 1956, fulltrúi hjá skattstjóra. Leiðir þeirra Binnu lágu saman á Siglufirði þar sem þau hófu sambúð á Vetrarbraut árið 1980. Þau gengu í hjónaband 16. júlí 1994.

Fósturdóttir Binnu og Þórólfs er Sandra, f. 16.7. 1990, og á hún tvo syni, Þórólf Snæ og Kristin Fannar. Sambýlismaður Söndru er Benedikt Snær Kristinsson.

Binna ólst upp á Siglufirði. Eftir gagnfræðapróf var hún eina önn í húsmæðraskólanum á Ísafirði og hóf síðan störf á Sjúkrahúsi Siglufjarðar.

Eftir að þau hjón fluttu til Reykjavíkur 1988 bjuggu þau fyrst í Skógargerði og síðan í Safamýri áður en þau settust að í Lundi 1 í Kópavogi.

Binna lauk sjúkraliðanámi frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla 2004. Fyrstu árin sem sjúkraliði starfaði hún á Dvalarheimilinu Skjóli en síðan á bráðaöldrunardeild Landspítalans í Fossvogi þar sem hún vann lengst og hugðist ljúka starfsævinni á vordögum.

Útför Binnu fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 24. mars 2025, kl. 13. Streymt verður frá athöfninni.

Eins og gerist – þegar við héldum út á vettvang áranna – varð aðeins lengra á milli okkar. Eftir stendur þó bernskan og uppvöxturinn sem við áttum saman. Fortíðin er ekki eins óumbreytanleg og við höldum, hún birtist í síbreytilegu ljósi eftir því sem við eldumst og einhvern veginn finnst mér að sá hluti ævi okkar hafi verið lengri en sá sem við tók. Það var gott að alast upp í stórum systkinahópi, við vorum nálægt hvort öðru í aldri, þú tveimur árum eldri, stóra systir og við deildum koju þótt ég muni ekki lengur hvort þú svafst í þeirri efri eða neðri. Við deildum fleiru en koju því foreldrar okkar gerðu okkur þann óleik að láta okkur deila skíðum og þegar vel viðraði skall á styrjöld þar sem annað okkar varð óumflýjanlega að lúta í lægra haldi – grátandi – og ég oftar en þú ef ég man rétt. Svo bættust við ný skíði og við gátum rennt okkur saman. Sumarið sem við vorum saman í sveit kemur líka upp í hugann. Vorum bæði svo illa haldin af heimþrá að okkur fannst við vera ein í heiminum og ætluðum að strjúka. Á endanum strukum við svo bæði úr heimi unglingsáranna sem var óvæginn og miskunnarlaus. Og komumst líka í öruggt skjól, þú hjá Tóta og ég hjá Grétu.

Þú heldur áfram að vera hjá mér.

Kristján (Kiddi).

Elsku besta systir.

Þú varst ekki bara systir mín heldur líka vinkona. Á meðan þú áttir heima á Siglufirði höfum við ekki mikið samband en svo fluttir þú til Reykjavíkur þá byrjaði okkar vinskapur. Sambandið okkar var alltaf meira og meira eftir því sem árin liðu og þú varst mér ómetanlega mikil stoð og stytta. Hvort sem við hittumst eða hringdumst á og töluðum um börnin okkar eða daginn og veginn, þá varstu alltaf þar fyrir mig og með þína hlýju. Ýmsar minningar birtast mér, – ferðirnar sem við fórum til útlanda saman, Evrópuferðin okkar 1986, flug og bíll í fjórar vikur, í þeirri ferð varð Þórólfur 30 ára og það gleymist seint þvílíkar minningar sem ég á úr þeirri ferð enda var skrifuð ferðasaga allan tímann, og svo fórum við til Norðurlandanna 1989. Samverustundirnar með þér og systkinum okkar á Dunhól eru dýrmætar en verða ekki samar án þín. Þar hittumst við á hverju ári við gleði og glaum. Stórt skarð hefur verið höggvið í okkar systkinahóp. Minningarnar geymi ég í hjarta mínu. Mikill er missir Þórólfs, Söndru og ömmu drengjanna.

Með söknuði kveð ég þig ljúfa systir.

Þótt sólin nú skíni á grænni grundu

er hjarta mitt þungt sem blý.

Því burt varst þú kölluð á
örskammri stundu,

í huganum hrannast upp

sorgarský.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða,

svo gestrisin, einlæg og hlý.

En örlög þín ráðin – mig setur hljóða,

við hittumst ei framar á ný.

Megi algóður Guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.

Þó komin sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Sigríður Hörn Lárusdóttir)

Jónína Hafdís.

Líf manns getur endað skjótt og þegar minnst varir. Bjartur morgunn í svo fögru veðri að fólk hugsaði til vorsins og hafði gleymt vetrinum reyndist síðasti morgunninn í lífi Bryndísar Kristjánsdóttur. Hún hvarf frá okkur eins og hendi væri veifað þann 9. mars síðastliðinn.

Binna var mágkona mín. Þórólfur bróðir, sem hitti Binnu fyrst á réttarballi í Ketilási í Fljótum, hafði farið norður á Siglufjörð að vinna á bæjarskrifstofunni, en hún var Siglfirðingur. Þetta hefur verið haustið 1980. Ég kom í fyrsta sinn til Siglufjarðar eftir að Þórólfur og Binna fóru að búa saman, fylgdi pabba og mömmu norður snemma hausts 1982. Það var staður harla ólíkur þeim Siglufirði sem maður heimsækir núna. Gömlu bryggjurnar stóðu enn uppi og ýmis önnur skuggaleg mannvirki liðinna umsvifa, en yfir bænum einhver einbeittur vilji til að gefast ekki upp, láta ekki hendur falla í skaut heldur halda áfram að vinna.

Binna var fædd 1958 og hefur því verið 10 ára þegar síldin hvarf og alist upp á Siglufirði síldar og seiglufirði horfinnar síldar. Hún ólst upp í stórum systkinahópi en foreldrar hennar voru Lilja Jóelsdóttir fiskverkakona og húsmóðir og Kristján Rögnvaldsson, skipstjóri á Siglufirði alla tíð. Eftir gagnfræðapróf og viðdvöl á hússtjórnarskóla á Ísafirði fór hún að vinna á sjúkrahúsinu á Siglufirði og sinnti umönnun sjúklinga til æviloka. Binna hafði rétt um 20 ára starfsferil sjúkraliða á bráðaöldrunardeild Landspítalans í Fossvogi þegar hún lést, aðeins tveimur mánuðum frá áætluðum starfslokum. Þessi starfsferill er ekki aðeins merki um umhyggju fyrir fólki heldur lýsir líka einstakri þrautseigju og vilja, í krefjandi og erfiðu starfi sem slítur iðulega út fólki með meiri líkamsburði en Binna bjó að.

Árið 1988 fluttu þau Binna og Þórólfur suður til Reykjavíkur og skömmu síðar, árið 1991, kom dóttirin Sandra inn í líf þeirra og fyllti heimilið hlátri og gráti eins og smábörn gera. Binna vann á leikskóla um hríð eftir að hún kom suður, en sneri fljótt aftur að umönnun og lauk sjúkraliðanámi árið 2004. Hún starfaði sem sjúkraliði, fyrst á Skjóli og síðar Landspítalanum. Fjölskyldan bjó lengi í Reykjavík og síðar Kópavogi og Sandra gekk í Álftamýrarskóla og Menntaskólann við Sund, en býr nú norður á Akureyri og á tvo syni, Þórólf og Kristin.

Binna var traust og ábyggileg. Hún var hógvær og bjó yfir seiglu sem gerði að verkum að þessi lágvaxna kona axlaði meira en mann grunaði og skilaði æviverki sem hver gæti verið stoltur af. Taugin til æskustöðvanna á Siglufirði var einn af hennar sterkustu þáttum og maður skynjaði einhverja djúpa tengingu við náttúru og lífsbaráttu í fari Binnu. Og nú hefur hún verið hrifin burt frá okkur sem eftir lifum og frá ástvinunum sem næstir henni stóðu, Þórólfi og Söndru. Þeim votta ég djúpa samúð og minnist Binnu með virðingu og þakklæti.

Hans Jakob Beck.

Ástkær vinkona kvödd.

Elsku Binna vinkona mín lést sviplega heima hjá sér þann 9. mars og á ég enn erfitt með að trúa því að hún sé farin frá okkur. Þetta er svo óréttlátt, stutt var í að hún hætti vinnu og var farin að hlakka mikið til þess, ásamt eiginmanni sínum Þórólfi.

Binnu kynntist ég árið 1984 á Siglufirði þegar ég hóf störf á sjúkrahúsinu þar sem hún starfaði einnig og urðum góðar vinkonur strax á fyrsta degi. Binna var svo opin og glaðleg kona, svo það var ekki erfitt fyrir mig að þykja vænt um hana. Fljótlega kynntist ég líka Þórólfi sem er ekki síður yndislegur maður og góður vinur. Vinátta okkar hefur staðið óheft síðan, þó ég hafi flutt á Akureyri tveim árum síðar og svo suður. Það liðu ekki mörg ár þar til þau fluttu líka suður yfir heiðar og var það mikil gleðistund. Á Sigló vorum við meðlimir í leikfélaginu og var oft mikið fjör og mikið gaman. Ekki síður brölluðum við ýmislegt hér fyrir sunnan, eins og að fara á tónleika, í bíó og leikhús og er stutt síðan ég var hjá þeim í Kópavoginum. Tveimur dögum áður en Binna lést hringdi hún í mig og var orðin lasin og treysti sér ekki til hitta mig á sunnudeginum og vildi fresta því þar til henni batnaði. Þau hjónin áttu bókaða þriggja vikna ferð til Tenerife þann 13.3. og vildum við hittast áður en þau færu í fríið.

Elsku Þórólfur, Sandra, Þórólfur Snær, Kristinn Fannar og systkini Binnu og fjölskyldur, ykkar sorg er líka mikil og sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur og minnumst við hennar með hlýju í hjarta, minnumst bross hennar og væntumþykju.

Hvíl í friði, elsku Binna vinkona, og ég er svo þakklát fyrir vináttu þína öll árin og mun aldrei gleyma þér.

Þín vinkona

Harpa Sjöfn
Harðardóttir.

Það var mikið áfall að fá símtal um að Binna vinkona mín væri látin. Kona í blóma lífsins, aðeins 66 ára gömul, og farin að huga að starfslokum og njóta efri áranna með Þórólfi og litlu ömmugullunum hennar Söndru. Það kom alltaf fallegt blik í augu hennar þegar hún talaði um litlu pjakkana.

Við Binna ólumst upp á Siglufirði þar sem í minningunni var alltaf sól á sumrin og snjór á veturna.

Það koma margar minningar upp í hugann þegar ég hugsa til baka þessi 60+ ár sem við höfum verið vinkonur, þó sérstaklega árin eftir bílpróf. Það var farið á rúntinn hvert kvöld og ekki brást að við fengjum okkur pylsu og sinalcó með lakkrísröri í Lillusjoppu. Eða helgarnar, þá var farið í útilegu inn í Fljót með lítið tjald, nú skroppið á ball á Ketilás eða bara hlegið og spjallað og alltaf var gaman. Við höfum oft rifjað upp ýmislegt sem okkur datt í hug í „denn“ og haft gaman af. Við keyrðum mömmu þína í laxveiði, sóttum Kidda bróður þinn í sveitina óháð veðri og færð, allt var sjálfsagt ef við fengum að fara á bílnum.

Eitt var árvisst hjá okkur og brást aldrei, við töluðum saman á afmælisdegi hvor annarrar, alveg sama hvort við vorum með veislu eða úti að borða í tilefni dagsins, það var alltaf tími til að taka símtal. Ég veit ekki hvað ég geri 10. maí í ár, það verður skrítið að hringja ekki í Binnu og heyra „já, blessuð“.

Binna vann í stóra happdrættinu þegar hún kynntist Þórólfi, miklum gæðamanni sem bar ætíð mikla virðingu fyrir sinni konu og stóð við hlið hennar alla tíð. Og svo aftur þegar draumur þeirra hjóna rættist og þau fengu Söndru fyrir rúmum 20 árum. Binna tók móðurhlutverkið alvarlega og hugsaði vel um sína fjölskyldu til dauðadags.

Elsku vinkona söknuðurinn er sár en minningarnar ylja. Elsku Þórólfur, Sandra, Þórólfur Snær og Kristinn Fannar, missir ykkar er mikill og bið ég algóðan Guð að styrkja ykkur í sorginni.

Þín,

Elínborg Hilmarsdóttir (Ella).

Það voru daprar fréttir af sviplegu andláti Bryndísar sem var um það bil að ljúka störfum og fram undan voru efri árin sem hún ætlaði að njóta með Þórólfi eiginmanni sínum og fjölskyldu.

Bryndís hóf störf á B-4 á Landspítalanum eftir að hafa lokið sjúkraliðanámi en áður hafði hún unnið við aðhlynningu á sjúkrahúsi Siglufjarðar og síðar á hjúkrunarheimilinu Skjóli. Bryndís sýndi frá fyrstu stundu hversu umhyggjusöm og áreiðanleg hún var við umönnun sem oftar en ekki var afar krefjandi, eins og við að sinna sjúklingum í einangrun eða þeim sem voru í óráði, en þess má geta að Bryndís var nett og lágvaxin en sýndi seiglu og úthald við krefjandi aðstæður. Hún var góður vinnufélagi og lagði sig fram um að góður starfsandi væri á deildinni, ekki síst á kaffistofunni.

Hún hafði athugasemdir við símanotkun þar því hún áleit fólk væri hætt að tala saman og vildi gera ráðstafanir sem voru réttmætar, en erfitt var að fara á móti straumi tækninýjunga. Þá var hún sannur vinur og félagi og reyndist góður sálufélagi þeirra sem leituðu til hennar, en hún hafði sjálf þurft að takast á við áskoranir lífsins sem hún geymdi í sinum reynslubrunni og átti þvi betur með að skilja erfiðleika annarra. Við sem störfuðum með Bryndísi áttum margar góðar stundir með henni fyrir utan vinnuna, hvort sem um var að ræða fræðsludag eða skemmtiferð. Þá var hún ávallt hrókur alls fagnaðar og lét sig aldrei vanta.

Það var áberandi í samtölum við Bryndísi hversu umhugað henni var um velferð fjölskyldu sinnar og því er það sárt fyrir eiginmann, dóttur og fjölskyldu að sjá á eftir Bryndísi svo fyrirvaralaust.

Með von um að góðar minningar um Bryndísi nái að lina söknuð þeirra sem eftir lifa.

Blessuð sé minning Bryndísar, megi sú blessun fylgja afkomendum hennar um ókomna tíð

Sigrún Lind
Egilsdóttir.