Anna Sigríður Egilsdóttir fæddist 2. maí 1936. Hún lést 25. febrúar 2025.

Útför Önnu Sigríðar fór fram 7. mars 2025.

Móðir mín hefur kvatt þennan heim. Hún var sátt við líf sitt og sagði gjarnan að hún hefði átt gott líf og að hún væri sátt þrátt fyrir að öðru hvoru hafi gefið á bátinn, en þannig væri það í lífinu.

Móðir mín var mikið náttúrubarn. Hún elskaði gróður jarðar, blómin, lyngið, fjalldrapann og blágresið blíða, og ilmandi mjaðjurtin var í sérstöku uppáhaldi. Á góðviðrisdögum á sumrin sat hún gjarnan með kaffibollann úti í garðinum sínum og naut veðurblíðu umkringd marglitu blómskrúði.

Hún var alla tíð heilsuhraust og naut þess að vera úti í náttúrunni, gekk mikið og fór í langar gönguferðir um þorpið sitt. Þannig munum við hana mörg: á stöðugum þönum, rösk og snaggaraleg. Síðar á ævinni gekk hún með gönguhópnum sínum, Hlaupastelpum, um fjalllendið og dalina fyrir ofan Hveragerði, yfir Fimmvörðuháls og Laugaveginn, þá á sjötugsaldri.

Listræn var hún og söngelsk. Hún var stofnfélagi í Söngsveit Hveragerðis og söng með kórnum á annan áratug. Henni þótti afar vænt um kórinn sinn og minntist margra góðra stunda með félögum sínum, hvort sem var á söngferðalagi innanlands eða utan. Hún kvaddi kórinn góða eftir söngferðalag til Ítalíu 2015, þá 79 ára og orðin sjóndöpur.

Þá gerði móðir mín víðreist; ferðaðist til Bandaríkjanna og Kanada og vítt um Evrópu og kannski stóðu upp úr í huga hennar ferðirnar til Keníu og Kúbu. Síðustu utanlandsferðina fór hún til Málaga-borgar sumarið 2022.

Það var henni mikið áfall að verða lögblind. Þrátt fyrir það var aðdáunarvert að sjá hversu vel henni tókst að bjarga sér. Hún sinnti alla tíð heimilisstörfum, hengdi upp þvott, dustaði og straujaði.

Móðir mín var hjálpsöm og greiðvikin og opnaði heimili sitt gestum og gangandi og fjöldi innlendra sem erlendra vina þeirra hjóna og barnanna naut gestrisni hennar. Hún mátti ekkert aumt sjá og var alla jafna boðin og búin að hlaupa undir bagga ef þurfti. Synirnir áttu skjól hjá móður sinni árum saman á fullorðinsaldri, og barnabörnin voru einnig með annan fótinn hjá ömmu sinni.

Heimilið var henni mjög kært og gat hún ekki hugsað sér að yfirgefa það. Með góðra vina aðstoð og stuðningsþjónustu bæjarins var henni gert kleift að vera heima hjá sér eins lengi og raun bar vitni. Eftir þriggja mánaða dvöl á hjúkrunarheimili veiktist hún skyndilega og lést. Móðir mín, sem sagði alltaf að hún yrði allra kerlinga elst, hefur núna kvatt þennan heim og gengur eflaust tindilfætt um lendur annars heims ásamt fólkinu sínu góða, hún hlakkaði til endurfundanna einkum við föður minn sem lést 2002.

Ég þakka öllum sem aðstoðuðu móður mína síðustu árin og glöddu hana með spjalli yfir góðum kaffibolla á gamla heimilinu hennar. Yndislegu starfsfólki í Bæjarási, í heimaþjónustu Hveragerðis og á hjúkrunarheimilinu Ási þakka ég alla ljúfmennsku og hlýju í hennar garð.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Elsku mamma mín, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Erla.