Anna Björg Halldórsdóttir fæddist 3. maí 1948. Hún lést 3. mars 2025.

Útför Önnu Bjargar fór fram 19. mars 2025.

Vinátta, góðvild og ákveðni, hlátur og tónlist, litrík föt og skýrar skoðanir, góður matur og glæsilegar veislur, félagshyggja í verki og einstakt lífshlaup er það sem kemur fyrst upp í hugann þegar ég minnist Önnu Bjargar sem var æskuvinkona móður minnar og varð ævivinkona mín og minnar fjölskyldu.

Í rúman áratug var ég fastagestur á heimili hennar og Dóra sonar hennar og gætti hans þegar á þurfti að halda. Ég var á mótunarárum og fannst hún spennandi. Listunnandi, í litríkum fötum með dimmrauðan varalit og franskt ilmvatn, læknir, femínisti og kórsöngkona. Veisluhaldari í mat, ófeimin við að gefa af sér og koma fötum og bókum áfram til ungmennis sem átti í henni vin.

Þau voru ófá kvöldin sem við áttum saman fyrst í Bergstaðastræti og svo í Blönduhlíðinni yfir kakóbolla og spjalli um lífsins helstu mál. Íbúðin í Blönduhlíðinni full af gersemum, steinasafnið að austan og eldgamlir kaktusar, flygillinn sem Dóri spilaði á fyrir okkur, og myndir af þeim mæðginum og öðrum þeim kærum á veggjum og hillum. Foreldar hennar í öndvegi, blessað fólk sem ól hana, systkini hennar og Dóra svo fallega upp og gaukaði að öllum gæsku og gleði.

Þau voru listelsk mæðginin Anna Björg og Dóri og sáu nær allt sem var á fjölunum auk tónleika hjá Sinfóníunni. Oft var ég boðin með, stundum fékk ég að fara ein með Dóra. Latabæ í Loftkastalanum nennti hún ómögulega að sjá en Hárið í Gamla bíói sáum við öll saman, Dóri þá ellefu ára leikhúsreyndur strákur. Leikhúsið var okkur dýrmætt og ófá samtölin sem við Dóri áttum um það og stundirnar sem við eyddum öll saman við það að njóta leiksýninga.

Sjálf naut hún sín í náttúrunni í göngum og á skíðum og fór í göngur um Ísland og erlendis án Dóra og með hann, keyrði hann á ákveðninni í hjólastól þegar máttur hans fór þverrandi og þurfti nei takk enga hjálp, gerði þetta bara sjálf.

Þegar Óli bættist við líf mitt tóku þau mæðgin honum fagnandi, við áttum með þeim góðar stundir hér í Reykjavík og í Kaupmannahöfn þegar þau heimsóttu okkur þar. Hún gladdist með sonum okkar þegar þeir náðu áfanga í sinu lífi, spurði alltaf frétta af þeim og tók þeim hlýlega þegar við hittumst.

Líf Önnu Bjargar litaðist af því heilkenni sem hefur sett verulegt mark sitt á fjölskylduna og lífið var henni ekki alltaf auðvelt, en hún var ekki að láta það mikið á sig fá, í mesta lagi að hún segðist vera óttalegur ræfill en svo var það útrætt. Síðustu ár hafði þó dregið verulega af henni og eftir að Dóri féll svo skyndilega frá var eins og dimmdi yfir skæru ljósinu sem hafði stafað af henni. Þrátt fyrir missinn og sorgina hélt hún sínu striki í vinnu fram til sjötugs og hóf þá nám í ítölsku við Háskóla Íslands, hún var ekki fyrir það að gera ekki neitt.

Við fjölskyldan syrgjum öll góða og trygga vinkonu sem hefur stutt við okkur og ráðlagt á lífsins göngu og þökkum henni fyrir alla samveru og elsku.

Sumarlandið og Dóri bíða hennar með opinn faðm, þar verður kátt á hjalla og falleg tónlist alla daga.

Farðu vel kæra vinkona okkar.

Ingibjörg, Ólafur, Björn, Úlfur
og Hrafn.