Sigurhanna Gunnarsdóttir fæddist 21. desember 1932. Hún lést 26. febrúar 2025.
Útför hennar fór fram 11. mars 2025.
Þið konur, sem að kveikið ljós
við kvöð og önn, sem lýsa skært,
þið eigið þjóðar þökk og hrós
- að þakka skyldi öllum kært.
Hver lítil tómstund gefur gull
hins góða og fagra þeirri hönd,
sem ver sinn garð og vinnur ull
og vefur gróðri heimalönd.
(Hulda)
Látin er Sigurhanna Gunnarsdóttir frá Læk í Ölfusi. Hún var kvenfélagskona í Kvenfélaginu Bergþóru í Ölfusi og var þar bæði ritari og formaður. Hún varð formaður Sambands sunnlenskra kvenna árið 1975 og var hún formaður í sex ár. Hún sinnti verkum sínum af einlægni, mikið var umleikis en hún vann verk sín vel og af óeigingirni. Hún var formaður SSK þegar gefin var út bókin „Gengnar slóðir“, saga SSK í fimmtíu ár, árið 1978. Fyrir hönd Sambands sunnlenskra kvenna eru hér færðar þakkir fyrir framúrskarandi störf. Samúðarkveðjur eru til fjölskyldu og vina. Blessuð sé minning Sigurhönnu frá Læk.
Sólveig Þórðardóttir, formaður SSK.