Halldór Brynjar Ragnarsson fæddist 18. maí 1937. Hann lést 28. febrúar 2025.

Útför hans fór fram 14. mars 2025.

Halldór Brynjar var rótgróinn Hjalteyringur. Hann fæddist á Hjalteyri og vék ekki þaðan. Ekki fyrr en í hinstu för. Fyrir nokkrum árum hitti sá sem þetta ritar Brynjar í símabúðinni á Glerártorgi. Hafði þá ekki séð hann um árabil. Brynjar var óbreyttur. Auðþekktur og svaraði því til þegar hann var inntur eftir hvort hann væri fluttur til Akureyrar að það væri hann alls ekki. Hann byggi á Hjalteyri eins og hann hafði alltaf gert og ekkert annað væri fram undan. Hjalteyringur eins og alltaf. Hafði aðeins brugðið sér í bæjarferð til að athuga um nýjan síma.

Brynjar lifði af því sem Hjalteyrin gaf. Hann var fæddur inn í síldarævintýri liðinnar aldar. Fæddur sama ár og síldarverksmiðjan var reist á eyrinni og var stóriðja Norðanlands um þrjá áratugi. Eins og um aðra sem fæddir voru undir Hjalteyrarbrekku eða ofan hennar á þeim tíma fór hann þangað til starfa er aldur og atgervi leyfðu. Var vinnustaður hans ásamt því að hann fór til sjós. Til síldveiða eins og margir aðrir ungir menn en stundaði einnig sjómennsku sunnan heiða um vetur þegar síldartíminn var í dái. Eftir að vélar þögnuðu og reyk lagði ekki lengur frá strompum verksmiðjunnar tók við nýr kafli. Hann stundaði um tíma sjó frá Hjalteyri en tók einnig að fást við smíðar. Á Akureyri og um sveitir enda liðtækur með smíðatól. Hann fór þó aldrei langt frá sjónum og lauk starfsferli sínum við sjávarsíðu Hjalteyrar.

Brynjar bjó yfir fleiri hæfileikum en að handfjalla veiðarfæri og smíðatól. Hann var öflugur leikari og vart var sett upp leiksýning í heimabyggðinni án þess að hann stæði framarlega á sviði. Nánast óþekkjanlegur sem Brynjar. Svo auðvelt átti hann með að breyta sér í aðrar persónur eða jafnvel að skapa þær á sviðinu ef svo bar við. Hann hafði einnig góða framsögn og minnist sá er þetta ritar þess að hafa verið fenginn til að setja saman eitthvert skemmtiefni fyrir sveitarsamkomu og sjá um að það yrði lesið upp. Ekkert var sjálfsagðara en að fá Brynjar í félagsskap. Hann var fundvís á það smáa og skemmtilega sem er ómissandi innlegg í slíkt efni og framsaga hans og rödd gat farið í ýmsar áttir ef svo bar við.

Þeim fækkar gömlu Hjaleyringunum sem settu svip á byggðina. Ef til vill var Brynjar síðastur til að kveðja. Sé svo fer vel á því. Tryggari Hjalteyring var vart að finna.

Þórður Ingimarsson.