Systkinahópur Victor Urbancic er einn þeirra manna sem bókin fjallar um. Á myndinni má sjá börn hans fjögur.
Systkinahópur Victor Urbancic er einn þeirra manna sem bókin fjallar um. Á myndinni má sjá börn hans fjögur. — Ljósmynd/Victor Urbancic
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimsstyrjöldin síðari lék meginland Evrópu grátt en afleiðingar hennar fyrir lítið eyríki nyrst í Atlantshafi voru í mörgu tilliti ekki eins válegar. Hér varð til dæmis í aðdraganda stríðsins eins konar menningarlegt landnám snjallra tónlistarmanna …

Heimsstyrjöldin síðari lék meginland Evrópu grátt en afleiðingar hennar fyrir lítið eyríki nyrst í Atlantshafi voru í mörgu tilliti ekki eins válegar. Hér varð til dæmis í aðdraganda stríðsins eins konar menningarlegt landnám snjallra tónlistarmanna sem leituðu norður á bóginn og lögðu merkan skerf til listgreinar sem varla gat talist burðug. Sumir þeirra létu berast hingað af einskærri ævintýraþrá, leituðu ástarinnar eða höfðu hrifist af sögum af framandi slóðum í norðri. Aðrir komu vegna þess að þeim var ekki lengur vært í heimalandi sínu, beinlínis til að bjarga eigin lífi og fjölskyldu sinnar. Á friðartímum hefðu þeir líklega aldrei stigið fæti á íslenska grund.

Kynþáttahyggja nasista hafði hörmulegar afleiðingar, eins og alkunna er. Milljónir manna af gyðingaættum voru myrtar á miskunnarlausan hátt en öðrum tókst að flýja ofsóknir og urðu þá að skapa sér nýja tilveru í framandi landi. Því fylgdu brostnar vonir, sorg og eftirsjá, en einnig tækifæri af margvíslegum toga. Listafólk, fræðimenn og vísindamenn sem flúðu Þýskaland og Austurríki á fjórða áratug liðinnar aldar settust að í flestum kimum veraldar og létu gott af sér leiða. Áhrif þeirra á samfélögin sem við þeim tóku og kunnu að nýta sér þekkingu þeirra voru víðtæk og þeirra gætir enn.

Hér er sögð saga þriggja tónlistarmanna sem flúðu nasismann á meginlandinu á fjórða áratug 20. aldar og settust að á Íslandi. Hinn þýski Róbert Abraham kom til landsins árið 1935, landi hans Heinz Edelstein árið 1937 og Austurríkismaðurinn Victor Urbancic ári síðar. Óvíða í hinum vestræna heimi var þörfin fyrir vel menntaða tónlistarmenn brýnni en á Íslandi. Hér gátu þeir skapað sér nýtt líf þar sem þeir voru ekki fórnarlömb heldur frumkvöðlar, gátu nýtt hæfileika sína til að byggja upp, mennta og skapa. Þeir tókust á hendur sitt nýja hlutverk af auðmýkt og smitandi ákafa – stofnuðu kóra, æfðu hljómsveitir, kenndu og miðluðu, tóku forystu í viðleitni hins unga lýðveldis til að skapa öflugt tónlistarlíf. Stundum er talað um stríðsgróða á Íslandi í heimsstyrjöldinni síðari. Óhætt er að segja að Íslendingar hafi notið menningarlegs stríðsgróða hvað tónlistina snertir, og ekki síst með þessum þremur mönnum, starfi þeirra og arfleifð.

Í þessari bók er saga þeirra rakin, fyrst mótunarár þeirra í Þýskalandi og Austurríki og síðan framlag þeirra til tónlistar á Íslandi eftir að þeir tóku sér hér bólfestu. Sögum þeirra er hér fléttað saman í eina heild. Í undirköflum er sjónum stundum beint að einum þeirra en í öðrum eru þættir í lífshlaupi allra dregnir fram og skoðaðir saman. Þeir voru vissulega ólíkir einstaklingar en áttu sameiginlega reynslu sem mótaði alla tilveru þeirra. Lífið á hjara veraldar var heldur enginn dans á rósum. Allir mættu þeir andstreymi og fálæti, ekki síst á árunum upp úr 1950 þegar íslenskt tónlistarlíf tók að blómgast og komnir voru fram á sjónarsviðið fleiri hæfileikamenn sem kepptu um sömu störf. Allir gengu þeir nærri heilsu sinni, unnu sleitulaust við léleg skilyrði fyrir litla umbun og enginn þeirra varð langlífur. Þá er hér gaumur gefinn að innflytjendastefnu íslenskra stjórnvalda sem lögðu stein í götu lista- og menntamanna sem vildu setjast að á Íslandi. Að lokum er svo hugað að því hvaða lærdóm megi draga af sögum þessara þriggja manna.

Þeir Róbert Abraham, Heinz Edelstein og Victor Urbancic voru áhrifavaldar í dýpstu og sönnustu merkingu orðsins. Hámenntaðir komu þeir úr heimsborgum þar sem skilyrði til listsköpunar voru eins og best varð á kosið. Hér tóku þeir ástfóstri við harðbýlt land og gáfu sig að því vandasama verkefni að lyfta menningarlífi heillar þjóðar á nýtt stig. Þar tókst þeim með afbrigðum vel upp, enda gætir áhrifa þeirra enn á mörgum sviðum tónlistar á Íslandi – til dæmis í hljómsveitarleik, kórsöng, tónlistarkennslu og rannsóknum tónlistarfræðinga. Það var gæfa Íslands að hafa mátt njóta krafta þeirra.

[…]

Það var mikil áskorun fyrir hina erlendu tónlistarmenn og fjölskyldur þeirra að laga sig að siðum og lífsháttum í landi sem var svo ólíkt því sem þau áttu að venjast. Ísland var heldur enginn óskastaður í þeirra augum. Allt þetta fólk hafði áður reynt að komast annað. En hér var þó að minnsta kosti frjálsræði og öryggi og þegar árin liðu tókst þeim að venjast sinni nýju tilveru. Öll lærðu þau íslensku og fengu íslenskt ríkisfang um það bil áratug eftir að þau komu til landsins, eins og lög gerðu ráð fyrir á þeim tíma. Tónlistarmennirnir kostuðu kapps um að gagnast landi og þjóð. Þeir unnu þrekvirki við að þjálfa hljómsveitir og kóra, og færðu landsmönnum sýnishorn af hinu besta sem tónlist Vesturlanda hafði upp á að bjóða. En þeir tóku líka ástfóstri við nýja landið og íbúa þess, og sýndu því virðingu sem þar var að finna. Þeir unnu íslenskum bókmenntum og náttúru, lásu skáldsögur og ljóð, sumir fóru í ævintýraferðir um hálendi Íslands og aðrir iðkuðu sjósund. Þá sýndu þeir íslenskum tónlistararfi einlægan áhuga, og það í meiri mæli en ætla hefði mátt að óreyndu.

Viðtökur heimamanna voru vissulega blendnar. Þótt hér fengju tónlistarmennirnir grið gegn þeim ofsóknum sem geisuðu á meginlandinu þá hafði þegar árið 1933 verið stofnaður á Íslandi flokkur nasista, sem seinna kallaðist Flokkur þjóðernissinna og efndi brátt til opinberra tengsla við nasistaflokkinn þýska. Á þeim árum gerðu menn sér vonir um stuðning frá Þýskalandi við sjálfstæðiskröfur Íslendinga þegar sambandslagatímanum lyki, en lítið fór fyrir slíku. Þýskir nasistar höfðu nefnilega alls ekki á stefnuskrá sinni að styðja sjálfsákvörðunarrétt smáríkja heldur vildu þvert á móti sölsa þau undir sig. Flokkur þjóðernissinna varð aldrei fjölmennur þótt einkennisklæddir liðsmenn vektu athygli vegfarenda á götum Reykjavíkur, og aldrei fékk hann fulltrúa kjörinn á Alþingi. Málflutningur þjóðernissinna fékk þó stundum meðbyr á síðum dagblaða, einkum í Vísi og Morgunblaðinu.

Hinum aðfluttu gyðingum stóð öllu meiri ógn af almennri andúð landsmanna, andúð sem stafaði öðrum þræði af sterkri þjóðernishyggju og bágri efnahagsstöðu landsins. […]

Íslenskir fjölmiðlar voru yfirleitt furðu áhugalausir um að miðla vitneskju um líf þessa fólks, skoðanir þess og bakland. Til dæmis bjó Heinz Edelstein á Íslandi í tæpa tvo áratugi án þess að eitt einasta viðtal birtist við hann í dagblöðum, tímaritum eða útvarpi. Sama gilti um eiginkonurnar, Charlotte Edelstein og Melittu Urbancic, sem aldrei voru í sviðsljósinu. Victor Urbancic og Róbert Abraham voru stundum teknir tali í fjölmiðlum en þá voru umræðuefnin sjaldnast tengd fortíð þeirra eða þeim störfum sem þeir höfðu áður sinnt á meginlandi Evrópu. Fremur var spurt um viðfangsefni þeirra á Íslandi, tónleika sem voru í bígerð eða þá að forvitnast var um álit þeirra á landi og þjóð. Ef til vill voru þeir sjálfir tregir til að rifja upp fyrri tilveru sína í háborgum menningarinnar, ýfa upp gömul sár um fólkið sem hvarf úr lífi þeirra eða tónlistarferil sem fór á annan veg en þeir ætluðu.

Róbert Abraham varð íslenskur ríkisborgari vorið 1947 en þeir Urbancic og Edelstein tveimur árum síðar. Ekki verður þó sagt að afgreiðsla umsókna þeirra hafi gengið snurðulaust. Í þá daga sá Alþingi alfarið um veitingu ríkisborgararéttar, ólíkt því sem nú er, og furðu margt í orðræðu þingmanna minnir á það hvernig tekið er á slíkum málum enn þann dag í dag. Í desember 1946 klofnaði allsherjarnefnd í afstöðu sinni og vildi meirihlutinn ekki „að svo stöddu veita öðrum ríkisborgararétt en þeim, sem fæddir eru á Íslandi eða hafa dvalið hér frá barnæsku“. Jörundur Brynjólfsson, þingmaður Framsóknarflokksins, varði þessa afstöðu og taldi að sérstaka aðgæslu þyrfti að sýna við veitingu ríkisborgararéttar, „því að tímarnir eru nú mjög breyttir frá því, sem áður var, og fleira er nú hér af erlendu fólki en nokkru sinni og fleiri umsóknir hafa borizt en nokkru sinni“. Minnihluti nefndarinnar vildi aftur á móti fylgja þeirri meginreglu að veita ríkisfang öllum þeim umsækjendum sem dvalist hefðu á landinu tíu ár eða lengur, „enda liggi ekkert það fyrir, sem bendi til, að þeir séu ekki æskilegir ríkisborgarar“. Hermann Guðmundsson, sem sat á þingi fyrir Sameiningarflokk alþýðu – Sósíalistaflokkinn, mælti fyrir þessari afstöðu og gat þess sérstaklega um Róbert Abraham að hann væri „alþekktur söngstjóri og ágætismaður“. Að lokum var Róbert meðal þeirra manna sem minnihluti allsherjarnefndar knúði í gegn að yrði veitt ríkisfang.

Ári síðar var tekin harðari stefna og engar undantekningar leyfðar. Því var Heinz Edelstein synjað um ríkisborgararétt á þeim grundvelli að hann væri hvorki fæddur á Norðurlöndum né kvæntur íslenskri konu. Þau rök voru enn uppi árið 1949 og virtist málið ætla sömu leið. Þá kom Jóhann Hafstein, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, til bjargar og flutti breytingartillögu um að þeir Edelstein, Urbancic og Carl Billich hlytu allir ríkisfang. Jóhann gat þess í ræðustól að „allmargir þingmenn“ hefðu orðað það við sig fyrir þriðju umræðu málsins að rétt væri að taka þá inn í frumvarpið, Edelstein „vegna hins ágæta starfs, sem hann hefur innt af höndum í þágu tónlistarskólans“ og Urbancic sem væri „flestum hér kunnur af afskiptum sinum af tónlistarlífi bæjarins“. Þá lagði Jón Pálmason, þingmaður og bóndi á Akri við Húnavatn, fram tillögu um að Wolfgang Edelstein – sem þá var orðinn lögráða – fengi einnig ríkisborgararétt og kvaðst þekkja drenginn mæta vel, hann hefði verið fjögur sumur á næsta bæ við sig „og reynzt sérstaklega duglegur og ábyggilegur drengur“. Var tillagan samþykkt með átján atkvæðum gegn fimm.

Tilvísunum er sleppt.