Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Góð kveðja barst frá Guðna Guðmundssyni á Þverlæk í Holtum, kúabónda í áratugi og síðar skógarbónda. Þegar verslun með lofttegundina sem veldur hlýnun jarðar kom fyrst til tals á aðalfundi Skógarbænda fyrir þó nokkrum árum, þá varpaði hann fram á þeim fundi þessari vísu:
Löngum hefur Mammon mönnum
spillt
og mörg er gróðalindin.
Þegar talið er orðið gott og gilt
að geta höndlað með vindinn.
Guðni skrifar enn fremur: „Þegar Vínbúðin á Hvolsvelli var opnuð í nóvember árið 2000 fannst Pálma heitnum Eyjólfssyni, fyrrverandi sýslufulltrúa, nauðsynlegt að gefa búðinni nafn og sagði: „Það er komin vínbúð á Hvolsvelli og nú þykjast allir hafa himin höndum tekið. Því er tilvalið að kalla Vínbúðina Himnaríki.“ Nafnið festist hins vegar ekki við Vínbúðina á Hvolsvelli og í dag kannast enginn Rangæingur við þessa nafngift. Fyrsti vínbúðarstjóri var Ásta Halla Ólafsdóttir. Þegar ég gekk inn í Vínbúðina í fyrsta sinn var Ásta Halla við afgreiðslu og ég ávarpaði hana með þessari vísu:
Þú selur kjarnaveigar í kverkar allar,
kunn að engu slóri.
Frú Ásta Halla Hvolsvallar,
himnaríkisstjóri.“
Það rifjaðist upp fyrir Magnúsi Halldórssyni vísa sem hann orti fyrir margt löngu:
Brennivíns að súpa saft
sælu jafnan veitir.
Færir ýmsum kjark og kraft,
við kvennafar og leitir.
Guðrún Bjarnadóttir brást við:
Í minni ertu fjarska fær,
finnst nú að mér sorfið.
Orðið sem ég orti í gær
allavega horfið!
Gleymskan varð Grétari Fells yrkisefni, undir öðrum formerkjum þó:
Gleymska hylur genginn stig.
Goð af stöllum falla.
Loksins enginn þekkir þig.
Þögnin gleypir alla.
Þá Steinbjörn Vermundur Jónsson:
Gleymi ég tíðum stund og stað.
Stari á leiðir farnar.
Líkt og hrafnar hræi að
hópast minningarnar.