Körfubolti
Gunnar Egill Daníelsson
Kristján Jónsson
Valur er bikarmeistari karla í körfuknattleik í fimmta sinn eftir að hafa unnið öruggan sigur á erkifjendum sínum og nágrönnum í KR, 96:78, í úrslitaleik og Reykjavíkurslag í Smáranum í Kópavogi á laugardag.
Ekki er erfitt að færa rök fyrir því að Valsmenn séu verðugir bikarmeistarar því þeir unnu mjög örugga sigra bæði í úrslitaleiknum og undanúrslitaleiknum á móti Keflavík, 91:67, á miðvikudag.
Valsmenn taka syrpur þar sem þeir vinna bikarkeppni karla í körfunni. Valur varð þrívegis bikarmeistari karla á fjórum árum fyrir fjórum áratugum; 1980, 1981 og 1983. Valur er nú að taka aðra rispu því liðið hefur unnið bikarinn tvívegis á síðustu þremur árum.
Valsmenn eru nú með bæði Íslandsbikarinn og bikarinn í sinni vörslu því liðið varð Íslandsmeistari síðasta vor.
Írinn Taiwo Badmus var kjörinn mikilvægasti leikmaður bikarúrslitaleiksins af KKÍ en hann skoraði 27 stig og tók 11 fráköst fyrir Val.
17 þriggja stiga körfur
Alls settu Valsmenn niður 17 þriggja stiga körfur en ekki er ónýtt að ná slíkri hittni í úrslitaleik. Valur var með 50 prósent skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna sem er frábært í bikarúrslitaleik þar sem spennustigið er hærra en í hefðbundnum leikjum.
En gjarnan er sagt að sterk vörn vinni bikara og það hefur sýnt sig hjá Val. KR-ingar þurftu nefnilega að hafa mikið fyrir því að skapa sér góð skotfæri.
13 ár frá því síðast
Njarðvík er þá bikarmeistari kvenna í körfuknattleik í annað sinn eftir að hafa lagt nágranna sína í Grindavík, 81:74, í úrslitaleik og Suðurnesjaslag fyrr um laugardaginn í Smáranum.
Þrettán ár liðu frá því að Njarðvík vann sinn fyrsta bikarmeistaratitil árið 2012 og þar til annar titilinn kom í hús. Njarðvík spilaði sinn sjötta bikarúrslitaleik í sögunni og jafnaði við Grindavík, sem einnig hefur orðið bikarmeistari í tvígang.
Hin bandaríska Brittany Dinkins var kjörin mikilvægasti leikmaður úrslitaleiksins en hún skoraði 31 stig, tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar.
Fagmannleg frammistaða
Ólík staða liðanna í deildinni, þar sem Njarðvík er í öðru sæti og Grindavík í næstneðsta sæti, hafði enga þýðingu þar sem leikurinn var jafn og spennandi að stærstum hluta þótt Njarðvík hafi gjarna verið skrefi á undan. Staðan var jöfn, 73:73, þegar mjög skammt var eftir af leiknum en Njarðvík tókst að sýna mátt sinn og megin undir lokin.
Njarðvík lagði Hamar/Þór, sem er að berjast á svipuðum slóðum og Grindavík í deildinni, 84:81 í undanúrslitum og var liðinu því veitt afskaplega góð keppni í báðum leikjum. Fagmannleg frammistaða Njarðvíkinga í báðum leikjum skilaði hins vegar verðskulduðum bikar.