Skáld Auður Ava Ólafsdóttir.
Skáld Auður Ava Ólafsdóttir. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Miðstöð íslenskra bókmennta veitti samtals 7.050.000 krónur í 37 styrki til þýðinga íslenskra bóka á erlend mál í fyrri úthlutun ársins, en alls bárust 57 umsóknir. „Veittir voru styrkir til erlendra þýðinga íslenskra bóka á 22 tungumál, m.a

Miðstöð íslenskra bókmennta veitti samtals 7.050.000 krónur í 37 styrki til þýðinga íslenskra bóka á erlend mál í fyrri úthlutun ársins, en alls bárust 57 umsóknir. „Veittir voru styrkir til erlendra þýðinga íslenskra bóka á 22 tungumál, m.a. spænsku, ensku, ítölsku, ungversku, dönsku, hollensku, færeysku, finnsku, frönsku, japönsku og pólsku,“ segir í tilkynningu frá Miðstöðinni. Þar kemur fram að auk þess hlutu 15 styrki til norrænna þýðinga samtals að upphæð 3.050.000 kr.

Í tilkynningunni kemur fram að meðal þeirra verka sem nú rata til nýrra lesenda eru ljóðabækurnar Meðan glerið sefur og Dulstirni eftir Gyrði Elíasson sem væntanlegar eru á þýsku, DJ Bambi eftir Auði Övu Ólafsdóttur sem kemur út á pólsku, Mamma klikk! eftir Gunnar Helgason á ungversku og Sextíu kíló af sunnudögum eftir Hallgrím Helgason á þýsku.

„Meðal verka sem verða þýdd á ný tungumál eru Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur sem kemur út í Tyrklandi, Delluferðin eftir Sigrúnu Pálsdóttur kemur út á grísku og Dyngja eftir sama höfund kemur út í enskri þýðingu Lyttons Smith. Ljóðabækur Gyrðis Elíassonar Þöglu myndirnar og Pensilskrift koma út á færeysku í þýðingu Martins Næs. Sögur og ljóð eftir Ástu Sigurðardóttur kemur út í danskri þýðingu Susanne Torpe og Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson kemur út í sænskri þýðingu.“

Af öðrum titlum má nefna að Urta eftir Gerði Kristnýju kemur út á ensku, Sápufuglinn eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur á hollensku, Hamingja þessa heims eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur á ungversku og Eden eftir Auði Övu Ólafsdóttur á þýsku.