Búferlaflutningar Gunnjónu „Sýning Þjóðleikhússins er sérsniðin að yngstu leikhúsgestunum,“ segir í rýni um Blómin á þakinu í leikstjórn Agnesar Wild. Í stærstu hlutverkum eru Edda Arnljótsdóttir og Örn Árnason.
Búferlaflutningar Gunnjónu „Sýning Þjóðleikhússins er sérsniðin að yngstu leikhúsgestunum,“ segir í rýni um Blómin á þakinu í leikstjórn Agnesar Wild. Í stærstu hlutverkum eru Edda Arnljótsdóttir og Örn Árnason. — Ljósmynd/Jorri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðleikhúsið Blómin á þakinu ★★★½· Eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur og Brian Pilkington í leikgerð Agnesar Wild. Leikstjóri: Agnes Wild. Leikmynd, búningar og brúður: Eva Björg Harðardóttir. Tónlist: Sigrún Harðardóttir. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Leikendur: Edda Arnljótsdóttir, Dagur Rafn Atlason, Inga Sóllilja Arnarsdóttir og Örn Árnason. Frumsýning á Litla sviði Þjóðleikhússins í Kassanum laugardaginn 15. mars 2025.

Leiklist

Þorgeir

Tryggvason

Gunnjóna lifir hreinræktuðu sælulífi í sveitinni sinni, umföðmuð náttúrufegurð og í vináttusambandi við bústofninn allan. Allt er eins og það á að vera. Meira að segja morgunleikfimin í útvarpinu ráðleggur henni að drekka kaffi, hvað sem ­líður manneldisforskriftum heilbrigðiskerfisins. Verst að hún er ekki eins létt á fæti og hún eitt sinn var, og bakið er aðeins að stríða henni. Það er ekki eins auðvelt að mjólka og áður. Er kannski tímabært að flytja á mölina?

Já er svarið og Blómin á þakinu fer frá því að lýsa ástandi og yfir í að segja sögu. Ákaflega átakalausa sögu, vissulega. En samt. Gunnjóna þarf að læra ýmislegt til að verða jafn mikið heima hjá sér í blokkar­risinu. Sem betur fer eignast hún strax góðan vin, hann Stefán, skemmtilegan lítinn strák sem býr í næstu íbúð.

En lífshamingjan reynist ekki felast í að kunna á dyrasíma, og kötturinn er þrátt fyrir allt ekki beinlínis húsdýr, þótt vænn sé og mjúkur. Gunnjóna þarf meira, og smám saman breytir hún þakíbúðinni sinni í bæinn sinn heima og tekur gleði sína á ný. Hvorki húsfélög né skipulagsyfirvöld hreyfa neinum mótmælum þegar íbúðin fyllist af hænsnum, svalirnar af gróðurkössum og þakið er tyrft. Þetta er ekki svoleiðis sýning.

Sýning Þjóðleikhússins er sérsniðin að yngstu leikhúsgestunum. Við sem aðeins eldri erum myndum kjósa að þessir búferlaflutningar Gunnjónu og aðdragandi þess að hún hefur umbreytingu blokkar­rissins í íslenskan torfbæ væri aðeins dramatískari og áreynslumeiri. Hvörfin skýrari. En þetta er ekki fyrir okkur, og sýningin virtist að mestu halda yngstu gestunum föngnum á frumsýningunni í allri sinni léttleikandi mýkt.

Þrír leikarar flytja okkur söguna, auk þess sem ­sýningarstjóranum, Jóni Stefánssyni, bregður aðeins fyrir þegar mikið liggur við. Mest mæðir eðlilega á Eddu Arnljóts­dóttur, sem er hlý og fjörug Gunnjóna. Örn Árnason teiknar upp nokkra kalla og talsetur eitthvað af dýrum í leiðinni. Allt er það ágætlega skemmtilegt. Á frumsýningunni fór Dagur Rafn Atlason með hlutverk Stefáns, stráks í næstu íbúð sem verður besti vinur og samverkamaður Gunnjónu í hennar margvíslega brasi, og leysti það verkefni með hreinum ágætum.

Umgjörðin er falleg hjá Evu Björgu Harðardóttur, og brúðurnar yndislegar. Áhugavert samt hversu „óíslenskur“ bærinn hennar Gunnjónu er látinn vera. Minnir meira á steinbæ á Bretlandseyjum en íslenska torfbæinn í teikningum Pilkingtons. En fallegur, sem er að minnsta kosti jafn mikilvægt. Og allt annað er rammíslenskt. Tónlist Sigrúnar Harðardóttur og lýsing ­Jóhanns Bjarna Pálmasonar bæta við viðeigandi tónum fyrir eyru og augu og allt rennur þetta áreynslulaust undir stjórn Agnesar Wild. Mögulega aðeins óþarflega áreynslulaust. Aðeins meiri leikhúsgaldur hefði komið sér vel, og ekki bara fyrir okkur samfylgdarfólk barnanna.