Málefni Flokks fólksins voru mjög til umræðu í nýjasta þætti Spursmála, enda fátt meira rætt þessa dagana manna á meðal hvar sem komið er. Sigurður G. Guðjónsson lögmaður var einn gesta þáttarins og greindi ástandið í ríkisstjórninni og Flokki fólksins ágætlega.
Sigurður sagðist hafa spáð því „rétt í kringum myndun stjórnarinnar að hún mundi kannski lifa sex mánuði. Það eru komnir þrír og það eru bara búin að vera vandræði. Og þessi ríkisstjórn hefur ekki komið neinu máli á dagskrá sem skiptir máli, vegna þess að náttúrlega í fyrsta lagi tók þingið ekki til starfa fyrr en 28. janúar, síðan kom kjördæmavika og síðan hefur ríkisstjórnin verið upptekin af því að slökkva elda sem flokksmenn Flokks fólksins hafa kveikt allt í kringum hana.“
Hann bætti því við að það væri „bara spurning hversu lengi Þorgerður Katrín og Kristrún geta unað því að reyna að hafa svona fólk innanborðs í ríkisstjórn og eiga að treysta á stuðning þess“.
Þá benti hann á að „Flokkur fólksins hefur engin stefnumál. Það er engin stefnuskrá hjá þessum flokki. Þetta er bara það sem Ingu Sæland dettur í hug hverju sinni og hvað hún hrópar. Hinir hrópa það bara með henni. Ef þú horfir bara á það sem hún sagði fyrir kosningar og það sem hún segir eftir kosningar, það er búið að snúa öllu á hvolf.“