Sigurður Guðmundsson fæddist 10. maí 1957. Hann lést 10. mars 2025.
Útför Sigurðar fór fram 20. mars 2025.
Elsku Siggi frændi.
Trúi ekki að þú sért farinn frá okkur. Þú varst ekki bara frændi minn heldur ofboðslega góður vinur sem ég gat alltaf treyst á og við vorum í miklu sambandi. Gátum talað endalaust um hesta, fjölskylduna, fasteignir og lífið.
Ég ólst upp í hestunum með þér, pabba og mömmu í Víðidalnum og svo vorum við mikið í sveitinni. Á virkum dögum fórum við ýmist heim í mat til mömmu eftir hesthúsið þar sem þið pabbi sátuð og teflduð fram á nótt og ég sat á endanum við klukkuna. Pabbi átti það til að svindla aðeins á tímanum og þú flissaðir bara yfir því en ég varð þá sjálfskipaður dómari. Af því að horfa á ykkur kvöld eftir kvöld lærði ég að tefla. Svo var ekkert skemmtilegra en að fá að taka eina skák við ykkur til skiptis þegar þið tókuð pásu.
Tíminn í sveitinni var líka yndislegur með ykkur Aldísi. Hvort sem það var að fara á hestbak saman eða að fá að keyra bílinn þinn á túninu – það var mikið sport.
Fórum við marga góða reiðtúra um sveitina og oft var Ingunn systir þín með okkur. Þið Skuggi áttuð einstakt samband og voruð svo flottir saman. Þetta eru góðar minningar sem munu lifa.
Þegar þú kynnist Guðnýju og fluttir í Flekkudal varstu kominn heim. Það var gaman að fylgjast með ykkur blómstra með frábæra ræktun og þér leið vel þar innan um öll dýrin. Það var gaman að koma til ykkar og einnig að fá að prufa frábær hross.
Þú vissir að ég hafði óbilandi áhuga á hestum og hringdir í mig þegar þú sást að ég var skráð á mót og stappaðir í mig stálinu og hvattir mig áfram fyrir keppni. Einnig sástu fljótt að ég var með ólæknandi skeiðbakteríu svo að þú varst fljótur til og gafst mér helming í hryssunni Auðnu frá Hlíðarfæti sem varð aðal kappreiðahryssan mín. Þetta var alveg ómetanlegt og er ég ævinlega þakklát fyrir þetta.
Í símtölum okkar fékk ég líka alltaf fregnir af krökkunum. Ísaki, Aldísi og barnabörnum og þú varst mjög stoltur af þeim og máttir sko líka vera það. Það var gaman að fá að fylgjast með þeim.
Þegar minn tími kemur veit ég að þú tekur vel á móti mér með góðum gæðingum og við förum í reiðtúr saman í sumarlandinu.
Þín frænka og vinkona,
Guðlaug Jón (Gulla Jóna).
Ég vissi vel af Sigurði Guðmundssyni í Flekkudal allnokkru áður en persónuleg kynni okkar tókust. Ég var í fullu starfi í borginni og ég var nánast hættur hestamennsku. Vissi af þekkingu hans á hrossum sem var mikil. Hann var meðal stofnfélaga hestamannafélagsins Adams, jafnframt fyrsti formaður þess.
Við töluðum fyrst saman á Þorláksstöðum þar sem Siggi átti eitt af mörgum samtölum við Bjarna bróður minn. Eitthvað var hann að fara að vinna við dýragrafreit í Hurðarbakslandinu, sem Guðný sambýliskona hans hafði stofnað í tengslum við verkefni sem hún vann í háskólanámi sínu.
Síðar urðu kynni okkar mikil og góð er ég varð oddviti Kjósarhrepps og sinnti fullu starfi við sveitarstjórn. Siggi leigði skrifstofu í Ásgarði. Fljótlega áttaði ég mig á því að hann hafði auk hestamennskunnar þrennt til að bera sem nýttist vel í sveitinni. Hann var lögfræðingur og jafnframt með mikla bókhaldsþekkingu. Hann hafði einnig aflað sér mikillar þekkingar á skipulagsmálum. Mér er kunnugt um að Siggi aðstoðaði margan við framtöl varðandi rekstur í sveitinni.
Ekki má sleppa því að nefna að Siggi hafði ákaflega mikla samskiptahæfileika og var hjálpsamur mjög, sem varð til þess að allir áttu auðvelt með að fá hjá honum ráðleggingar og aðstoð í hinum ýmsu málum.
Hreppurinn þarf reglulega að fá margvíslega aðstoð varðandi hvers konar lögfræðileg málefni. Fyrir minn tíma hafði Siggi veitt hreppnum aðstoð sem gott var að fá aðgang að því mörg mál flytjast áfram. Ég nýtti mér aðstoð Sigga í vaxandi mæli eftir því sem við kynntumst betur og traust mitt á honum styrktist. Frábær maður að vinna með.
Siggi bar góðan hug til kirkjunnar. Var hann oftar en einu sinni beðinn að hafa tölu í Reynivallakirkju.
Fyrir okkar litla samfélag er mikið áfall að missa sveitunga sem fellur skyndilega frá í fullu starfi. Mestur er missirinn fyrir nánustu aðstandendur, hugur okkar Helgu hvílir hjá Guðnýju og öðrum nánustu aðstandendum.
Megi Siggi hvíla í guðs friði.
Karl Magnús Kristjánsson.
Sigurður var með eftirminnilegustu mönnum sem við höfum kynnst. Hann var hávaxinn og myndarlegur, með mjög sannfærandi rödd. Hann var fastagestur í sumarbústað okkar við Meðalfellsvatn. Þessi kynni ná aftur um 30 ár, löngu fyrir þann tíma að við eignuðumst sumarbústað. Við sjáum hann fyrir okkur sitjandi við borðstofuborð, glugga í pappíra, framtal eða erfðaskrá eða uppgjör fyrirtækis. Sigurður var mjög glöggur og fljótur að átta sig á aðalatriðunum. Hann fór í gegnum skjölin á tiltölulega skömmum tíma, tók síðan möppurnar og sagðist mundu klára það sem hann var beðinn að gera næstu daga. Og það stóðst.
Sigurður rak einnig annað okkar mál fyrir héraðsdómi og var hann rökfastur og góður málafærslumaður. Það var jafnvel skemmtilegt að hlusta á hann fyrir rétti. Honum tókst m.a. að ná ásættanlegri niðurstöðu með stjórnsýslukæru fyrir aldraða konu þegar MAST slátraði bústofni hennar án þess að til þess lægi nein ástæða. Við vitum að Sigurður kom að mörgum slíkum málum, þar sem veist var að þeim sem minna máttu sín.
Einnig kom hann oft við í sumarbústaðnum um miðjan dag þegar hann ók fram hjá, eða um kvöld, og ræddi búskapinn og þjóðmálin. Hann átti það til að taka okkur í bílferðir til að skoða hestana sína, aðstöðuna sem hann hafði í Miðdal, eða til að sýna okkur geiturnar og kiðlingana. Sigurður hafði mikinn áhuga á búskap og átti gæðahross sem hann ræktaði.
Það kom okkur því á óvart að frétta að hann hefði fallið frá eftir stutt veikindi. Þegar við hittum hann seinast, ekki fyrir svo löngu, virtist hann stálhraustur. Núna er heimsóknum hans í sumarbústaðinn lokið og við söknum þessara stunda. En mestur er missir Guðnýjar konu hans, barnanna og fjölskyldu. Við sendum þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Gísli Már Gíslason og Dröfn Árnadóttir.
Í lok júlí 1970 flutti æskufjölskyldan mín í Fossvoginn. Ný í hverfinu lá það fyrir okkur systkinunum að kynnast umhverfinu og krökkunum þar. Í nágrenni við nýja heimilið okkar í Brúnalandi var fótboltavöllur, oftast nær hundblautur, malarvöllur. Og þar voru kjöraðstæður til að eignast nýja vini. Við bræður fórum oft á völlinn og þar kynntumst við drengjum sem urðu okkar vinir fyrir fullt og allt. Þeirra á meðal var hinn stóri og stæðilegi Siggi Gúmm. Til varð vinahópur sem haldið hefur sambandi nú í 55 ár.
Við Siggi vorum nokkuð ólíkar persónur. Ættfræðilega rekjumst við ekki saman fyrr en til byrjunar átjándu aldar. En við urðum strax sálufélagar í ungæðislegri þörf fyrir að hafa allar stundir sem skemmtilegastar, að hafa það gott, að spila og semja lög, að semja ljóð og fabúlera heimspekilega um málefni alheimsins. Við studdum ekki sama flokkinn, höfðum ekki sömu samfélagssýnina, en við skynjuðum báðir sama kjarnann, hvar náungakærleikur er æðstur dyggða. Hann elskaði lífið og náttúruna og það framkallaðist vel í því að vilja frekar vera bóndi en lögfræðingur. Frekar ríða á hestum en aka blikkdósum. Frekar spila sjálfur lög en hlusta á tónlist annarra. Vera í rótinni og kjarnanum. Og fyrir okkur vinina var þetta allt sjálfgefið. Allir einhvern veginn ólíkir, en allir sammála um að betri vinahóp væri vart hægt að mynda. Af því að hver okkar var eins og hann var. Sumir urðu hægrimenn, aðrir vinstrimenn, en allir urðu hugsandi menn og eignuðust börn og buru. Elskuðu að kenna ungviðinu allt sem við kunnum og ekki síst að stunda íþróttir, spila á hljóðfæri, veiða og njóta náttúrunnar.
Siggi var órjúfanlegur hluti af lífi okkar Kristínar. Það setti samskiptin síðan á æðra plan að hann átti sama afmælisdag og sonur okkar heitinn, Sturla Þór, þann 10. maí. Fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur fjölskylduna verðum við ævinlega þakklát. Hann auðgaði líf okkar. Siggalaus stöndum við eftir miklu fátækari.
Guðnýju, niðjunum, systkinunum og öðrum aðstandendum sendum við okkar hjartfólgnustu samúðarkveðjur.
Friðrik Þór Guðmundsson (Lilló), Kristín Dýrfjörð og fjölskylda.
Líf án Sigga er erfitt að hugsa sér. Þessi frábæri, góði og trausti vinur hefur átt svo stóran þátt í lífi mínu. Þegar foreldrar okkar Sigga fluttu í nýbyggt Fossvogshverfið vorum við Siggi ellefu ára. Hann bjó í næsta húsi við mig. Það tókst með okkur einstök og djúp vinátta frá fyrstu kynnum. Við áttum síðan samleið í áratugi. Siggi var svo hlýr og góðviljaður. Hann var einnig svolítið stríðinn og nokkuð uppátækjasamur sem svo sannarlega lífgaði upp á samskiptin. Ævintýrin sem við Siggi og margir aðrir góðir félagar upplifðum saman eru óteljandi. Þau höfðu djúp áhrif á unglingsár okkar og mótuðu því að hluta lífsviðhorf okkar og reynslu. Siggi lék í þeim efnum stórt hlutverk. Það var fátt sem stoppaði Sigga ef honum datt eitthvað sniðugt í hug. Hann vildi hafa gaman en vissi þó sem betur fer að alltaf eru einhver mörk sem ber að virða.
Siggi var þannig af guði gerður að hann hafði hæfileika til að gera svo margt. Hann var góður bæði í hand- og fótbolta, þótt hann æfði ekki. Svo var hann hörkuduglegur og ósérhlífinn við vinnu og gat leyst hin flóknustu verkefni. Það sýndi hann alla sína ævi og fjölbreytt verk hans tala skýrt í þeim efnum.
Við unnum saman á námsárunum tvö sumur við byggingu Sigölduvirkjunar og önnur tvö máluðum við virkjanir við Sogið undir stjórn móðurafa Sigga. Við deildum alltaf saman herbergi enda vorum við á þeim tíma nær óaðskiljanlegir vinir. Sumrin í málningarvinnunni eru sérstaklega eftirminnileg. Það var eins og við þyrftum ekki að sofa. Við máluðum frá sjö að morgni til tíu á kvöldin, en þá tóku veiðarnar við. Það var mikill fiskur á milli virkjananna. Oft veiddum við langt fram eftir nóttu umvafðir fallegri náttúru og fuglasöng. Siggi var mjög áhugasamur veiðimaður, iðinn og fiskinn. Síðar fórum við saman ásamt góðum félögum í margar veiðiferðir. Einnig fórum við á okkar yngri árum í nokkrar ferðir til útlanda sem aldrei gleymast.
Vissulega fækkaði samverustundum okkar þegar árin liðu eins og gerist og gengur hjá æskuvinum. Siggi gætti þess þó að vera í sambandi við vini sína. Hann hringdi reglulega og fór yfir málin. Hann vildi tryggja að vinaböndin héldust sterk. Væntumþykja hans til barna sinna og allrar fölskyldunnar kom vel fram í samtölunum. Margt annað sem við ræddum var af gamansömum toga og líður mér seint úr minni. Nú síðast í fyrra skipulagði Siggi veiðiferð þar sem við fjórir úr gamla vinahópnum hittumst. Það voru ómetanlegir endurfundir og sérstaklega dýrmætir í hugum okkar sem þátt tókum í ljósi þess sem nú hefur gerst.
Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst Sigga og það geta örugglega allir aðrir sagt sem kynntust honum. Hann hafði svo góðan mann að geyma sem geislaði af kærleik, velvild og jákvæðni.
Við Kata vottum Guðnýju, börnum Sigga þeim Ísaki og Aldísi, barnabörnum og öllum hans aðstandendum samúð á þessari ótrúlega sáru kveðjustund. Við vitum að ljúfar minningar um Sigga munu ylja okkur um hjartarætur það sem eftir er. Blessuð sé minning hans.
Karl Björnsson.
Við höfðum oft orð á því að við ætluðum að eyða ellinni saman og grunaði okkur ekki annað en svo gæti orðið þar til nýlega, en þá bankaði hinn fjandsamlegi óvinur krabbinn á dyr þínar og lagði þig að velli á örfáum vikum, svo algjörlega ótímabær heimsókn.
Siggi kom inn í líf okkar fyrir u.þ.b. 15 árum þegar hann var að byrja að venja komur sínar í Flekkudal þar sem hann síðar settist að í sambúð með Guðnýju.
Það hefur verið gaman að fylgjast með hvað þú varst áhugasamur um allt og alla hér í sveit enda sagðir þú alltaf að rætur þínar lægju í Kjósinni.
Það kom fljótt í ljós hvað Siggi átti góða samleið með okkur og hófst vinátta sem ekki hefur borið skugga á.
Siggi og Guðný voru samtaka í hrossaræktinni enda áhugamál beggja.
Þau eru orðin ófá hrossin sem þú hefur ræktað undanfarin árin og von á fleirum í vor enda varstu með hugann allan við það og ekki var komið að tómum kofunum þegar kom að umræðum um hrossarækt og hrossaættir, þú varst líka ávallt að fylgjast með á þeim vígstöðvum, sækja mót og sýningar eða fylgjast með á netinu. Litla hestamannafélagið okkar hér í kjós, Adam, fékk líka að njóta hæfileika þinna og gegndir þú formennsku í nokkur ár með sóma, sást um öll uppgjör og skýrslugerð.
Við fáum ekki oftar símtal: Eruð þið heima? Ég er hérna rétt hjá, á ég að koma við? Hvað segið þið, eruð þið með í bílferð? Ég þarf að skjótast með hross austur, eða bara kíkja á eitthvert hrossið sem var í tamningu frá þér. Hvað þá að þurfa að sætta sig við að Siggi kemur aldrei aftur í hesthúsið til okkar sem var svo dýrmætt, að spá og spekúlera í hrossum, sveitapólitíkinni eða hverju sem var.
Þær voru ófáar samverustundirnar sem við fengum að eyða með þér, hvort sem var hittast og horfa á Meistaradeildina, fara á heimsmeistaramót, landsmót sem og margt annað enda hafðir þú orð á því fyrir nokkrum dögum hvort við færum ekki saman á landsmót að ári.
Ósjaldan á góðri stundu fengum við að heyra upphafið að uppáhaldsljóði þínu:
„Hér er ég staddur maður án maka með hund minn í snæri …“
Eftir að Siggi flutti skrifstofu sína í Ásgarð hefur sveitarfélagið ósjaldan notið góðs af hæfileikum hans, hvort sem var í uppgjörum, bréfaskrifum eða samningagerð, alltaf kom í ljós hversu vel hann var að sér í öllu slíku. Það var svo einnig um marga íbúa hér og þar á meðal okkur sjálf, alltaf var hægt að leita lögfræðiráðgjafar/þjónustu sem og annarra góðra ráða hjá honum, þar var hann á heimavelli, það var helst að erfitt væri að fá að gjalda fyrir hans greiða.
Eitt af síðustu verkum Sigga nú í vetur var að skipuleggja vorferð „Unghjónaklúbbsins“ sem áætluð var nú um miðjan apríl, hvenær sem sú ferð verður farin verður hans sárt saknað í þeim hópi.
Kæru Guðný, Ísak og Aldís og fjölskyldur, ykkar missir er mestur og megi góðu minningarnar um Sigga hjálpa ykkur að læra að lifa með sorginni.
Kæri Siggi, við kveðjum þig með trega og minningu um frábæran vin.
Svana og Guðmundur.
Kynni okkar Sigurðar Guðmundssonar hófust eftir að fjölskyldan mín flutti frá Ísafirði um síðustu aldamót og settist að í Reykjavík. Það var þó ekki fyrr en sameiginlegur áhugi hans og dóttur minnar, Birnu, á hestamennsku leiddi til fyrstu samskipta okkar, sem fljótlega þróuðust í ævilanga vináttu.
Eitt leiddi af öðru og við keyptum hesthús í Heimsenda ásamt fleirum. Einnig eignuðumst við hestakerru og hlutdeild í nokkrum hestum, þar á meðal gæðingnum Þengli frá Kjarri. Úr hans ætt eignaðist Siggi reiðhestinn Stak, sem nú lifir eiganda sinn, 20 vetra gamall.
Siggi, oft kallaður „Siggi lögfræðingur“, var mikill vinur okkar og annaðist fyrir okkur ýmis lögfræðimál auk bókhalds. Alltaf lagði hann sig fram við störf sín með vandvirkni og fagmennsku, og var það almennt viðurkennt meðal lögmanna að útsjónarsemi og fagmennska einkenndu vinnu hans. Hann var þrautseigur og heiðarlegur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og stillti greiðslum í hóf, stundum neitaði hann jafnvel að taka við greiðslu fyrir minni verk.
Á síðari árum var búrekstur í Kjósinni efst í huga Sigga og Guðnýjar Ívarsdóttur, sambýliskonu hans, frá Flekkudal. Þeim sem þekktu Sigga var ljóst hve vænt honum þótti um Guðnýju og samband þeirra.
Siggi talaði oft um forfeður sína, sem voru vaskir sjómenn. Hann var stoltur af vestfirskri arfleifð sinni og þráði að heimsækja Ingjaldssand, þótt hann hefði aðeins séð hann úr fjarlægð þegar hann var skipverji á skipi Landhelgisgæslunnar á yngri árum. Hann naut sín sem bóndi, eins og ættfeður hans á Ingjaldssandi í Önundarfirði. Harðgerðir menn sem lifðu af sjónum og landinu, oft við naumt skammtað en þó án þess að kvarta. Það var hluti af eðli Sigga að bera sig vel, sama hvernig á stóð.
Síðast þegar við sátum saman við eldhúsborðið heima ræddum við fyrirhugaða skútusiglingu um Eystrasaltið. Ástríða hans fyrir siglingum skein úr augum hans og mikil eftirsjá er að sú ferð varð ekki að veruleika. En hver veit, kannski siglum við félagar einhvern daginn saman um óravíddir alheimsins, brosum yfir bralli okkar hér á jörðu og höldum áfram með segl þanin meðal stjarnanna.
Að lokum sendum við innilegar samúðarkveðjur til barna hans, Ísak og Aldísar, og barnabarna hans. Einnig til Guðnýjar og fjölskyldu hennar, sem og til systra Sigga og fjölskyldna þeirra.
Blessuð sé minning vinar okkar, Sigurðar Guðmundssonar.
Tryggvi Tryggvason og fjölskylda frá Ísafirði.
Það var mér áfall að heyra af andláti Sigga vinar míns, sem lést þann 10. mars. Við kynntumst lítillega á unglingsárunum í Fossvoginum, síðar betur í Verslunarskólanum, í hinu öfluga félagslífi sem þar var. En það var svo í lagadeildinni við HÍ sem tókst með okkur mjög góður vinskapur, sem enst hefur vel áratugina frá námsárunum, en við útskrifuðust saman úr deildinni vorið 1986.
Siggi sinnti margvíslegum störfum á starfsævi sinni. Allan sinn starfsaldur sinnti hann framtalsgerð og ársuppgjörum fyrir fjöldann allan af einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum, og var feikilega duglegur og afkastamikill í þeim störfum. Þau lágu vel fyrir honum. Siggi var öflugur lögmaður og sinnti hagsmunagæslu fyrir umbjóðendur sína af kostgæfni og einurð, en aðalsmerki hans í því hlutverki var þó sanngirnin. Hann vildi ná fram sanngjarnri lausn í hverju deilumáli, helst þannig að báðir aðilar gætu unað við niðurstöðuna. Ég veit að hann fórnaði stundum eigin hagsmunum, þ.e. þóknun fyrir störf sín, mætti það verða til þess að lausn á deilumáli fengist. Við vorum í miklum samskiptum vegna lögmannsstarfa okkar og það var alltaf ánægjulegt og lærdómsríkt að geta velt fyrir sér með honum lögfræðilegum álitaefnum sem koma gjarnan upp í daglegum störfum lögmanna.
Eitt helsta hugðarefni Sigga og Guðnýjar voru hestar. Þau voru með nafntogaða ræktun á hestum á jörð sinni, Flekkudal í Kjós. Ekki veit ég svo sem hvernig ræktunarstarfið kom út fjárhagslega, en það bar góðan árangur, miðað við það sem maður heyrði um gæði hrossa frá þeim. Siggi sagði sjálfur að þetta væri alltaf hálfgert happdrætti, stundum kæmi stóri vinningurinn þegar afkvæmi meranna þeirra vöktu athygli og stóðu sig vel á sýningum og hægt var að selja á dágóðu verði.
Ég fór einu sinni með Sigga norður í land til að skoða hestastóð sem þar var haft í haga, hvort einhverjir áhugaverðir gripir væru þar á meðal. Í stóðinu var fallegt trippi, nokkuð fælið þegar búið var að reka í girðingu, enda óvant mannskepnunni. Ég dáðist mjög að því þegar Siggi nálgaðist trippið varlega, talaði lágt og rólega til þess, gaf því tíma til að átta sig á að þar fór vinur, allt þar til hann gat leyft því að þefa af hendinni og gefa smá klapp. Fyrir mér, óvönum hestum, var þetta vel gert og gaman að sjá hvernig unnt var að ávinna traust og trúnað dýrsins á þennan mjúklega hátt. Siggi var hestahvíslari í mínum huga eftir þetta.
Þau eru mörg minningabrotin sem koma upp í hugann þegar maður hugsar til baka um langvarandi vinskap. Það sem stendur upp úr voru mannkostir hans, góð kímnigáfa, heiðarleiki og réttsýni, en ekki síst góðmennska. Hann var sannarlega vinur vina sinna. Lýsing á mannkostum hans birtist vel í orðunum að hann var drengur góður. Ég tel það hafa verið gæfu fyrir mig að eignast traustan vin í Sigga. Óvænt andlát hans skilur eftir sig tómarúm og sorg.
Ég hitti Sigga síðast við jarðarför pabba hans, Guðmundar, sem lést í byrjun febrúar á þessu ári. Eftir athöfnina spjölluðum við aðeins saman fyrir utan Bústaðakirkju. Við kvöddumst svo með þeim orðum að við myndum tala saman fljótlega. Það verður víst einhver bið á því samtali.
Ég votta Guðnýju, Ísaki og Aldísi Gróu og fjölskyldum þeirra, svo og öðrum aðstandendum Sigga, mína dýpstu samúð.
Marteinn Másson.
Sumir eru einfaldlega betri en aðrir, og Siggi var einn af þeim.
Við erum þakklát fyrir að hafa kynnst Sigga, hann var okkur góður vinur, alltaf til staðar og sýndi mikinn kærleik og tryggð. Við erum einstaklega þakklát fyrir þá vináttu og hlýju sem hann veitti Ollu, það skipti hann máli að hún héldi sínu stolti og bar hann djúpa virðingu fyrir henni og öllu því sem hún stóð fyrir.
Siggi var bráðgáfaður, hagmæltur og yfirvegaður. Hann gerði ekki greinarmun á fólki en kunni að meta dugnað og staðfestu. Hann var mikill dýravinur, og það var alltaf hægt að ræða hrossin eða dýr almennt við hann. Símtöl seint að kvöldi úr fjárhúsunum voru regluleg og oft mjög gefandi, því sýn Sigga á lífið og það sem það hefur upp á að bjóða var einstök. Hann kunni að meta góðmennsku í fólki og tók þannig á málum að maður gat gengið sáttur frá. Hann átti líka sterka hugsjón um réttlæti og hafði einstakan hæfileika til að ræða mál af yfirvegun og speki. Samtöl við hann voru lærdómsrík – heimspekileg, stundum með vott af sálfræðilegum vangaveltum, en alltaf af auðmýkt og æðruleysi. Við tókumst stundum á í umræðum, en alltaf í leit að sameiginlegri niðurstöðu, sem oftast tókst. Siggi lauk þessum samtölum iðulega með ljóði, gjarnan tengdu geitunum eða því sem við höfðum rætt í það skiptið. Ef hann fann að einhver ágreiningur hafði verið, hringdi hann daginn eftir og byrjaði símtalið á: „Erum við ekki vinir?“
Siggi var mikilvægur í lífi margra, enda setti hann gjarnan aðra fram fyrir sjálfan sig. Hann talaði um fólk af virðingu og dró fram það besta í þeim sem hann kynntist. Það er mikils að sakna.
Takk fyrir að reynast okkur vel, takk fyrir vináttuna og kærleikann. Góða ferð í sumarlandið elsku vinur.
Gammurinn geisar rúmur um fjörðinn
gengur sem klukka er hann stampar í svörðinn.
Frýs í kuldanum fótafrár
fimur, snarpur, sterkur klár
fer um sem hugur manns með geðslag gott
gengur framsækinn tölt og brokk.
Senn er þá haldið heimleiðis
hesturinn þýtur rakleiðis.
(Guðni Brynjólfur Ásgeirsson)
Okkar dýpstu samúðarkveðjur til Guðnýjar, fjölskyldu og vina Sigga.
Guðbrandur Reynisson og Anna Ólöf Kristjánsdóttir.