Hörður Jónasson fæddist á Húsavík 13. janúar 1955. Hann lést á heimili sínu Árholti Húsavík 6. mars 2025.

Hann var sonur hjónanna Huldu Þórhallsdóttur húsmóður í Árholti, f. 11.7. 1921, d. 4.7. 2021, og Jónasar Egilssonar, deildarstjóra KÞ á Húsavík, f. 17.8. 1923, d. 13.4. 1998.

Systkini: 1) Egill, f. 1.10. 1944, d. 2.7 2005, eftirlifandi eiginkona er Aðalheiður S. Hannesdóttir. 2) Kristbjörg, f. 16.9. 1947, maki Sigmar P. Mikaelsson. 3) Baldur, f. 26.8. 1948, d. 31.5. 2013; eftirlifandi eiginkona Margrét G. Einarsdóttir. 4) Garðar, f. 7.8. 1949, maki Hildur Baldvinsdóttir. 5) Hulda Jóna, f. 26.7. 1958. Maki Rúnar Óskarsson.

Sonur Harðar er Óskar, f. 22.9. 1990. Hann býr á sambýlinu Barðastöðum í Reykjavík. Móðir Óskars er Dagbjört H. Óskarsdóttir, f. 1.12. 1963. Hún og Hörður slitu samvistir.

Hörður ólst upp á Húsavík og gekk í Barna- og gagnfræðaskóla Húsavíkur. Hann lauk verslunarprófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1978. Eftir það vann hann sem verslunarstjóri og sölumaður í Reykjavík þar til hann flutti aftur til Húsavíkur. Þar vann hann um tíma við akstur hópferðabíla og vörubíls Fjallasýnar, útkeyrslu hjá Fatahreinsun Húsavíkur og Íslandspósti. Síðustu ár ferðaðist mikið á eigin vegum og tók ljósmyndir sem hann deildi með öðrum m.a. á facebooksíðu sinni og síðunni „Húsavík fyrr og nú“ sem hann hafði umsjón með, auk þess sem myndir hans hafa birst í Morgunblaðinu.

Útför Harðar fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 24. mars 2025, klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni á facebooksíðu Húsavíkurkirkju.

Tryggð, umhyggja og ræktarsemi eru þau orð sem helst koma upp í hugann þegar kvaddur er góður frændi og kær vinur. Tryggð hans, umhyggja og hlýja birtust í mörgu og jafnvel þegar hann sjálfur gekk í gegnum sjúkdómsmeðferð hringdi hann iðulega til þess að spyrja hvernig ég eða mínir nánustu hefðum það – og segja frá framförum þeirra sem sóttu með honum læknishjálp.

Hann var stoltur af sínu fólki, greiðvikinn og gestrisinn og eftir lát Huldu móður hans, föðursystur minnar, bjó hann áfram í Árholti til dauðadags. Þetta annað elsta íbúðarhús bæjarins og bæjarprýði reisti langafi okkar fyrir 135 árum. Þótt Hörður hafi jafnan sjálfur farið hljóðlega um eins og hann á ættir til þá kom hann víða við og setti mörg spor á samfélagið. Honum var annt um móðurmálið, orðhagur og bjó til nokkur nýyrði sem hafa fest sig í sessi, svo sem eins og orðið fíkill. Sjálfur var hann hagmæltur en fór þó oftar með kveðskap afa síns, eins besta hagyrðings landsins, Egils Jónassonar.

Hörður þekkti landið vel og sögu þess og var ótæmandi fróðleiksbrunnur er hann ók með erlenda ferðahópa á síðari árum. Ýmsir þeirra héldu sambandi við hann á netinu eftir þau góðu kynni. Hann bar hag Húsavíkur fyrir brjósti og hélt úti netsíðu um bæinn, málefni hans, sögu og myndir frá liðinni tíð.

Hann var óþreytandi myndasmiður og var nýbúinn að láta það eftir sér að kaupa dýra myndavél af bestu gerð. Verkefnin fram undan mörg, sem ekki næst að ljúka.

Sælinú! Þannig hóf hann símtölin, og þau urðu mörg. Ég sakna þess nú að eiga ekki fleiri samverustundir, heimsóknir í Árholt, ökuferðir um Húsavík og nágrenni og sagnastundir með mínum kæra frænda. Sviplegt fráfall hans er áminning til okkar allra um að nýta tímann vel, njóta hans og fresta ekki mannfundum. Þær stundir eru hér og nú – og verða ekki sóttar í spilarann síðar. En gömul fræði Íslandssögunnar, sem Hörður vitnaði gjarnan til, segja okkur að orðspor og minning lifi.

Bjarni Sigtryggsson.

Við Hörður vorum systkinabörn, pabbi hans og mamma mín voru systkini. Þegar ég var barn á Húsavík á sumrin, hjá afa og ömmu, kom ég oft í Árholt. Við Hulda Jóna, systir Harðar, erum jafnöldrur og lékum okkur saman. Hörður var þremur árum eldri og ég man hvað mér fannst hann endalaust fyndinn og skemmtilegur og gerði mitt besta til að sitja sem næst honum við kaffiborðið til að missa ekki af neinu sem hann sagði. Hann átti líka alltaf flotta bíla sem mér fannst mjög merkilegt. Seinna, þegar við vorum komin yfir tvítugt, þá flutti Hörður til Reykjavíkur og bjó hjá mér í nokkra mánuði á meðan hann var að finna sér húsnæði og vinnu og þá áttum við margar skemmtilegar stundir sem styrktu böndin á milli okkar.

Það var alltaf gaman að hitta Hörð frænda, hann hafði frá mörgu að segja og seinni árin tók hann stórkostlegar ljósmyndir af landinu okkar sem hann deildi með okkur hinum og gerði það svo vel, hann tilgreindi stund og stað með hverri mynd sem gerði þær enn betri. Einnig var hann fær orðasmiður, þótti gaman að velta fyrir sér merkingu orða og framsetningu. Eftir því sem ég best veit, á hann nokkur orð sem hafa fest sig í tungumálinu. Hann var frændrækinn og tók vel á móti okkur þegar við komum norður og við fórum í bíltúra þar sem hann gat frætt okkur um alla staði og sögu. Þegar við hittumst hér fyrir sunnan, þá fylgdi þeim fundum hlýja og gleði. Eins og sagði hér fyrr þá dáðist ég að frænda mínum frá barnsaldri og ekki minnkaði virðing mín fyrir honum síðar þegar ég fylgdist með honum í föðurhlutverkinu. Óskar, sonur Harðar, var ljósið í lífi hans og var honum ávallt efst í huga.

Lífið er hverfult og ekki alltaf sanngjarnt. Snöggt fráfall hans skilur eftir sig stórt skarð. Óskar hefur misst góðan og umhyggjusaman föður og vin. Eftirlifandi systkini, frændfólk og vinir syrgja góðan dreng. Ég sakna míns kæra frænda sem mér þótti svo innilega vænt um. Blessuð sé minning hans.

Halldóra Björnsdóttir.