Fjölskyldan Magndís og Sigurþór ásamt sonum sínum, frá vinstri: Atli Rúnar, Hjörleifur og Hjálmar.
Fjölskyldan Magndís og Sigurþór ásamt sonum sínum, frá vinstri: Atli Rúnar, Hjörleifur og Hjálmar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magndís Alexandersdóttir fæddist 24. mars 1945 á Stakkhamri í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi. „Ég er uppalin í hópi níu systkina heima á Stakkhamri, í miklu frelsi í nánd við náttúruna. Ég fór snemma að taka þátt í öllum almennum…

Magndís Alexandersdóttir fæddist 24. mars 1945 á Stakkhamri í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi.

„Ég er uppalin í hópi níu systkina heima á Stakkhamri, í miklu frelsi í nánd við náttúruna. Ég fór snemma að taka þátt í öllum almennum sveitastörfum þess tíma sem voru frábrugðin því sem sveitastörf eru í dag. Reka kýr á beit og sækja þær á kvöldin til mjalta. Ég fór snemma að læra að mjólka og einnig að hjálpa til við að annast um kindurnar, sauðburður var sérstaklega skemmtilegur og að smala. Ég elskaði sveitina og vildi helst hvergi annars staðar vera.

Skólagangan var ekki löng. Það var farskóli í sveitinni á þessum tíma og var faðir minn kennari alla mína skólagöngu. Ég fór einn vetur í Borgarnes til bróður míns og mágkonu og gekk í skóla þar veturinn fyrir fermingu. Ég fór í kvennaskólann á Blönduósi sem var frábær tími og lærði ég þar mjög margt sem hefur nýst mér vel, þar eignaðist ég vinkonur til lífstíðar og erum við duglegar að rækta samveru þegar færi gefst. Ég var alla tíð dugleg að sækja ýmis námskeið til að afla mér menntunar og fróðleiks.

Ég var mjög leitandi er varðar atvinnu og hef komið að vinnu við flestar greinar sjávarfanga, s.s. snyrtingu og pökkun á fiski, skreiðarvinnu, síldarsöltun og skelvinnslu. Ég fór 15 ára á vertíð til Ólafsvíkur til að vinna í fiski og bjó hjá systur minni og mági. Þetta var mikil lífreynsla fyrir óharðnaða sveitastelpu, en í stórum systkinnahópi þurftu allir að vinna, heima og heiman.“

Magndís vann á saumastofu í Reykjavík einn vetur og annan vetur í söluturni. Eftir að hún flutti í Stykkishólm vann hún við verslunarstörf og síðar sem fulltrúi hjá RARIK í 30 ár. „Við hjónin stofnuðum 1994 og rákum Dekk og smur, bifreiðaþjónustu í Stykkishólmi, í nálega 20 ár þar til sonur okkar kaupir fyrirtækið af okkur. Ég annaðist bókhald fyrir fyrirtækið.

Ég ólst upp við mikla samfélagsvitund, foreldrar mínir voru einstaklega félagslynd og tóku þátt í öllu sem þau gátu þótt erfiðar samgöngur væru innan sveitarinnar og lengi vart farandi nema á hestum á mannamót. Ég erfði þessa miklu löngun til að taka þátt í félagsstarfi, gekk í Íþróttafélag Miklaholtshrepps og starfaði þar, þar til ég flutti úr sveitinni, var í stjórn og við störf hjá HSH, Héraðssambambandi Snæfells- og Hnappadalssýslu, frá 1970 í um 20 ár og var í stjórn UMFÍ um 10 ára tímabil sem var mjög fróðlegur og skemmtilegur tími.“

Magndís átti einnig sæti í bæjarstjórn Stykkishólms nálega tvö kjörtímabil og var líka í skólanefnd Stykkishólmsbæjar. „Allt þetta félagsstarf gaf mér ómælda ánægju og eignaðist ég marga góða kunningja og vini um allt land á þessum tíma.“

Magndís var sæmd gullmerki UMFÍ og einnig ÍSÍ á þessum tíma og voru þau hjónin gerð að heiðursfélögum í HSH.

„Mín helstu áhugamál hafa alla tíð verið félagsmál, ég hef fylgt strákunum mínum og eiginmanni í þeirra íþróttum, frjálsum íþróttum og síðar körfubolta. Það var skemmtilegur tími og ófáir körfuboltamenn sem dvalið hafa í Stykkishólmi hafa átt aðgang að heimili okkar í mat og nærveru.“

Magndís söng í kirkjukór Stykkishólmskirkju í yfir 40 ár. „Síðustu ár hefur einmitt kirkjan verði mitt helsta áhugamál, er búin að vera í sóknarnefnd síðan 2011, en hef reyndar verið í varanefnd síðustu þrjú ár.

Handavinna hefur alltaf skipað stóran sess í mínu lifi. Ég saumaði og prjónaði allt á strákana mína þegar þeir voru litlir auk ýmissar annarrar handavinnu.“

Fjölskylda

Eiginmaður Magndísar er Sigurþór Hjörleifsson, f. 18.10. 1943, vann lengi hjá Vegagerðinni og rak bifreiðaþjónustu til starfsloka. Þau byrjuðu búskap í Lynghaga í Miklaholtshreppi og fluttu í Stykkishólm árið 1975 og hafa búið þar síðan.

Foreldrar Sigurþórs voru: Kristín Hansdóttir, f. 4.12. 1922, d. 17.7. 2010, húsmóðir og vegavinnuráðskona, og Hjörleifur Sigurðsson, f. 9.5. 1919, d. 23.7. 1989, vegaverkstjóri,

Börn Magndísar og Sigurþórs: 1) Hjálmar Alexander, f. 8.10. 1968, með MBA-gráðu frá HR og framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu TM og aðstoðarforstjóri, búsettur í Reykjavík, maki: Guðrún Margrét Ólafsdóttir, f. 26.2. 1965, 2) stúlka, f. 10.11. 1970, d. 15.11. 1970; 3) Hjörleifur, f. 22.10. 1970, byggingafræðingur á Verkfræðistofu Þráins og Benedikts, búsettur í Kópavogi, maki: Sóley Hrönn Sigurþórsdóttir, f. 26.5. 1976; 4) Atli Rúnar, f. 12.4. 1976, vélfræðingur og rekur bifreiðaþjónustuna Dekk og smur, búsettur í Stykkishólmi, maki: Theodóra Matthíasdóttir, f. 21.8. 1979.

Barnabörnin eru átta og langömmu- og afabörnin eru orðin tvö.

Systkini Magndísar: Guðbjartur bóndi, f. 16.8. 1931, d 18.7. 2021; Bjarni bóndi, f. 20.11. 1932; Hrafnkell, fv. verslunarmaður og trésmiður, f. 12.2. 1934; Guðrún, húsmóðir og fv. verkakona, f. 14.8. 1935; Auður fv. bankastarfsmaður, f. 19.4. 1940; Þorbjörg, húsmóðir og fv. útgerðarkona, f. 13.12. 1941; Friðrik raftæknifræðingur, f. 28.10. 1947 og Helga, fv. leikskólastjóri, f. 3.7. 1952.

Foreldrar Magndísar voru Alexander Guðbjartsson, bóndi og kennari, f. 5.3. 1906, d. 21.4. 1968, og Kristjana Bjarnadóttir húsmóðir, f. 10.11. 1908, d. 25.11. 1982. Þau byrjuðu búskap á Hjarðarfelli í Miklaholtshreppi, síðar Hvammi í sömu sveit og fluttu að Stakkhamri 1944 og bjuggu þar þar til Alexander lést að Kristjana flutti í Stykkishólm.