Kristján Gissurarson fæddist í Vestmannaeyjum 1. febrúar 1933. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 21. febrúar 2025.

Foreldrar hans voru Gissur Ó. Erlingsson, f. 21.3. 1909, 18.3. 2013, og Margrét Mjallhvít Linnet, f. 22.10. 1911, d. 21.11. 1972. Systkini Kristjáns eru Jóhanna Unnur Gissurardóttir Erlingsson, f. 16.1. 1932, d. 29.3. 2020, Erlingur Þór Gissurarson, f. 2.3. 1934, d. 4.11. 2009, Kristín Gissurardóttir, f. 17.4. 1938, Pétur Gissurarson, f. 17.5. 1935, Jón Örn Gissurarson, f. 29.9. 1939, d. 6.6. 2018, og Auður Harpa Gissurardóttir, f. 14.1. 1951.

Kristján kvæntist 7.9. 1963 Bjarneyju Halldóru Bjarnadóttur, Böddu, frá Norðfirði, f. 14.12. 1941, d. 26.7. 2016. Foreldrar hennar voru Bjarni Halldór Bjarnason verkstjóri, f. 1.10. 1921, d. 14.6. 2002, og kona hans Svanhvít Sigurðardóttir frá Reyðarfirði, f. 19.10. 1923, d. 24.9. 2012.

Börn Kristjáns og Böddu eru: Gissur Ólafur, f. 26.10. 1964, Bjarni Halldór, f. 15.3. 1966, Eðvarð Björn, f. 3.9. 1969, og Lilja Eygerður, f. 7.4. 1974. Barnabörn Kristjáns og Böddu eru sjö og barnabarnabörn þrjú.

Kristján ólst upp hjá foreldrum sínum í Vestmannaeyjum til sex ára aldurs en eftir það á ýmsum bæjum víðsvegar um land í sumardvöl eða til lengri tíma. Haustið 1948 flutti fjölskyldan að Eiðum á Fljótsdalshéraði og vorið 1950 lauk Kristján landsprófi frá Eiðaskóla og síðan stúdentsprófi frá MA 1954. Kristján nam orgelleik í Tónlistarskólanum í Reykjavík 1958-60, sat síðan í tónmenntadeild skólans og lauk þar kennaraprófi 1961. Hann tók rafeindavirkjapróf 1972. Hann kenndi öðru hvoru á Eiðum og í Neskaupstað en var í brúarsmíði eða annarri byggingarvinnu á sumrin. Hann var skólastjóri Tónskólans í Neskaupstað 1961-64 og jafnframt organisti þar og víðar. Árið 1964 fluttist Kristján aftur að Eiðum og gerðist starfsmaður Pósts og síma árið eftir þar sem hann vann svo til starfsloka í mars 2003. Kristján starfaði einnig sem organisti meðfram störfum sínum hjá Pósti og síma. Hann var um árabil organisti í Eiðakirkju og tók að sér organistastörf í öðrum sóknum á Héraði einnig, Borgarfirði eystri og víðar. Kristján var laghentur, smiður og rennismiður, gerði við slagverksklukkur, orgel, harmóníum og margt fleira sem sem þarfnaðist lagfæringa. Hann stýrði hljómsveit Harmoníkufélags Héraðsbúa 1985-90 og kór eldri borgara á Héraði frá 1996. Hann sat nokkur ár í stjórn Styrktarfélags vangefinna á Austurlandi.

Útför fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 24. mars 2025, klukkan 11.

Elsku pabbi minn.

Nú skilur leiðir okkar hérna megin móðunnar. Það sem er mér efst í huga eftir þessi rúmlega fimmtíu ár sem við höfum átt saman er innilegt og djúpt þakklæti til þín, kærleikur, virðing og aðdáun. Þú varst pabbinn sem sagðir alltaf já, varðst aldrei reiður og hafðir endalausa þolinmæði.

Þú varst líka jafnlyndasti og æðrulausasti maður sem ég hef nokkurn tímann kynnst og hef ég reynt að taka þá eiginleika mér til fyrirmyndar.

Margar notalegar minningar koma upp í hugann þegar ég hugsa til baka: Hlýjar hendur sem ylja mínum þegar ég er búin að vera úti að leika, söngur fyrir svefninn á kvöldin, að skríða í pabbaból á nóttunni í slagveðursrigningu, hjálp við heimalærdóm, að fá að fylgjast með þér í kjallaranum og hálf appelsína á móti þér í kvöldkaffi. Stór og hlýr lófi sem klappar mér á kollinn þegar ég sit við eldhúsborðið og teikna.

Í seinni tíð áttum við svo oft góð samtöl í stofunni heima á Eiðum þar sem við sátum saman og þú rifjaðir upp gamla tíma. Þú vildir gjarnan hafa notalegt hjá okkur; kertaljós og rauðvínsglas. Þetta voru yndislegar stundir sem mér þykir innilega vænt um að hafa átt með þér elsku pabbi. Ég vona að þú hafir notið þeirra jafn vel og ég.

En nú hefur þú kvatt þennan heim og mamma hefur tekið vel á móti þér með góðan kaffibolla (með mjólk og sykri). Kannski sneið af hjónabandssælu með.

Mig langar að kveðja þig með þessu tregablandna en fallega ljóði sem þið mamma sunguð svo oft fyrir mig á kvöldin þegar ég var komin upp í rúm:

Sofðu unga ástin mín,

– úti regnið grætur.

Mamma geymir gullin þín,

gamla leggi og völuskrín.

Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.

Það er margt, sem myrkrið veit,

– minn er hugur þungur.

Oft ég svarta sandinn leit

svíða grænan engireit.

Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur.

Sofðu lengi, sofðu rótt,

seint mun best að vakna.

Mæðan kenna mun þér fljótt,

Meðan hallar degi skjótt,

Að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.

(Jóhann Sigurjónsson)

Þú ert ætíð í huga mér ásamt mömmu, og ykkar er sárt saknað.

Þín

Lilja.

Að alast upp á Eiðum var einstakt. Þar myndaðist þétt samfélag fólks þar sem flestir áttu það sammerkt að stórfjölskyldan var ekki til staðar. Tengslin urðu því meiri og lífið samofið á margan máta. Kristján og Badda voru hluti af þessum hópi. Minningar um Kristján eru því órjúfanlegur hluti af bernskuminningunum frá Eiðum.

Samstarf pabba og Kristjáns í messuhaldinu varði í marga áratugi. Og mamma söng með kirkjukórnum jafn lengi. Einnig eigum við öll systkinin minningar tengdar tónlistarstarfinu með Kristjáni. Hann kenndi okkur Onna á píanó og við Hildur sungum um tíma með kirkjukórnum. Svo var alltaf unun að hlusta á orgelleikinn í messunum í Eiðakirkju og jólamessurnar eiga sinn sess í minningabankanum. Kristján var mikill fagmaður, duglegur og fylginn sér. Hann var óþreytandi að gefa af sér í tónlistinni. Alltaf rólegur og yfirvegaður en um leið hnyttinn og skemmtilegur. Tónlistaruppeldi hans fylgir okkur sem nutum alla tíð.

Handavinnuáhugi sameinaði mömmu og Böddu og listfengi almennt, ásamt kórstarfinu og kvenfélaginu. Oft var blásið til námskeiða s.s. í vefnaði, dúkkugerð og að búa til lampaskerma.

Kristján og Badda voru bæði áræðin og kraftmikil. Til marks um það réðust þau í að byggja sér hús á Eiðum og komu sér upp eigin sælureit fyrir fjölskylduna. Þannig urðu þau nágrannar i næsta húsi við okkur og samgangurinn minnkaði ekki við það. Meira að segja kettirnir í báðum húsum urðu góðir vinir, þeir Depill og Strútur.

Það er mikil gæfa að fá að alast upp með góðu fólki sem er tilbúið að gefa af sér og þannig hafa áhrif til lífstíðar á okkur sem nutum þeirra góðu krafta.

Að leiðarlokum þökkum við áralanga samfylgd og vottum Gissuri, Halla, Edda og Lilju og fjölskyldum þeirra innilega samúð sem og stórfjölskyldunni allri.

Guð blessi minningu Kristjáns Gissurarsonar.

F.h. okkar systkinanna,

Guðrún Áslaug
Einarsdóttir (Rúna).

Kristján Gissurarson var í hópi þeirra sem tóku á móti okkur hjónum þegar við fluttum hingað austur í Egilsstaði sumarið 1971. Ég til að veita nýstofnuðum tónlistarskóla forstöðu, sem Tónlistarfélag Fljótsdalshéraðs stóð að. Á þessum tíma starfaði Kristján sem símvirki hjá Pósti og síma, en var jafnframt einn af starfandi organistum á Héraði ásamt Margréti Gísladóttur og fleirum. Kristján hafði mikinn áhuga á klassískri tónlist og var barokktónlist þar fremst og meistari Bach í sérstöku uppáhaldi. Hann hafði menntað sig í tónlist við söngkennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík og sótti samhliða tíma í orgelleik, m.a. hjá Páli Ísólfssyni.

Fljótlega eftir að við settumst að á Héraði buðu Kristján og kona hans Bjarney okkur fjölskyldunni heim í Eiða, þar sem þau bjuggu. Börn þeirra voru á svipuðum aldri og stelpurnar okkar og tókst vinskapur með okkur, sem hélst alla tíð. Bjarney, eða Badda eins og hún var alltaf kölluð, var mikil handavinnukona og náðu þær Helga kona mín vel saman á þeim vettvangi. Kristján, sem var góður smiður, leiðbeindi mér við ýmislegt, svo sem innréttinga- og húsgagnasmíði, en ég var algjörlega óvanur á því sviði. Stelpurnar héldu mikið upp á Eiðaheimsóknir þar sem alltaf var eitthvað spennandi í gangi: morstæki, bob-borð og fleira skemmtilegt.

Kristján var mjög virkur í tónlistarlífinu á Héraði þótt hann hafi alltaf haft annað aðalstarf hjá Pósti og síma. Hann stjórnaði kirkjukórum víða um Héraðið, stjórnaði kór eldri borgara og lék undir kórsöng. Hann starfaði sem organisti og naut þess því að spila á orgel. Kristján var ávallt að glíma við krefjandi verkefni á orgelið og það var gaman var að sitja í kirkjunni og hlusta á hann spila.

Kristján var ekki aðeins góður tónlistarmaður og smiður, heldur líka afburðamaður þegar kom að allri tækni og því hvernig hún virkaði. Ef eitthvað bilaði gat hann yfirleitt lagað það. Sama hvað það var. Þegar ákveðið var að kaupa sembal við Tónlistarskólann á Egilsstöðum varð lendingin sú, eftir mikla yfirlegu, að keyptur var ósamsettur semball. Kristján tók að sér það krefjandi verk að setja gripinn saman og vann að því í nokkra mánuði. Í þessu verkefni endurspeglast í mínum huga yfirburðaþekking og skilningur Kristjáns á þessu flókna fyrirbæri og skilaði hann verkinu með sóma eins og öllu sem hann gerði.

Áhugi okkar Kristjáns á klassískri tónlist var þráðurinn í okkar vinskap í gegnum árin. Við störfuðum saman að mörgum tónlistarverkefnum, smáum og stórum. Þegar fundum okkar bar saman settum við gjarnan eitthvað gott á fóninn og hlustuðum. Nú verða þessar góðu stundir ekki fleiri.

Við Helga vottum börnum Kristjáns og fjölskyldum þeirra innilega samúð okkar. Blessuð sé minning Kristjáns og Böddu.

Magnús Magnússon, fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskólans á Egilsstöðum.