Eyrún Ingadóttir fæddist í Reykjavík 1. nóvember 1968. Hún lést á sjúkrahúsi á Mallorca 23. janúar 2025.
Foreldrar Eyrúnar eru Ragna M. Þorsteins, f. 5.12. 1938, og Ingi R. Helgason hæstaréttarlögmaður og forstjóri, f. 29.7. 1924, d. 10.3. 2000.
Systkini Eyrúnar eru: Ingi Ragnar, f. 25.5. 1971, synir hans eru Ingi Ragnar, f. 29.4. 2008, og Arló, f. 14.7. 2010; Steinunn Ásmundsdóttir, f. 31.12. 1962, hennar maður er Stefán I. Bjarnason, f. 4.12. 1959. Dóttir þeirra er Áslaug Ragna, f. 19.1. 1995, hennar maður er Sean M.L. Ramirez, f. 21.3. 1994. Dóttir Stefáns er Kristín María, f. 25.7. 1984; Álfheiður, f. 1.5. 1951, hennar maður er Sigurmar Albertsson, f. 7.5. 1946. Sonur þeirra er Ingi Kristján, f. 12.2. 1991, sambýliskona hans er Anna Kristín Baldvinsdóttir, f. 5.12. 1988; Ragnheiður, f. 21.11. 1958. Sonur hennar er Magnús Ingi Haraldsson, f. 23.6. 1981.
Fyrri maður Eyrúnar er Birgir Birgisson, f. 26.8 1965. Þau skildu. Eftirlifandi maður Eyrúnar er Alberto De Los Mozos, f. 29.1. 1962 í Bilbao, Spáni.
Eyrún ólst upp á Hagamel 10 í Reykjavík með systkinum sínum. Hún gekk í Melaskóla og Hagaskóla og lauk stúdentsprófi á nýmálabraut frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1987. Eyrún hóf nám í lögfræði í Háskóla Íslands en fljótlega tók tölvunarfræðin hug hennar allan og starfaði hún við tölvuumsjón stórfyrirtækja heima og erlendis allan sinn starfsferil. Hún flutti til Spánar árið 2000. Þar lauk hún námi sem kerfisfræðingur og var viðurkenndur samstarfsaðili Microsoft.
Eyrún var snemma altalandi á spænsku og sumarið eftir stúdentspróf vann hún við fararstjórn á Mallorca. Hún var lipur teiknari, stundaði myndlistarnám í áratug og átti sæti í stjórn Styrktarsjóðs Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur 1999-2000. Eyrún var ritari framkvæmdastjóra Íslenska stálfélagsins 1989-1991 og forstöðumaður upplýsingatæknideildar Hans Petersen 1992-1999. Þar bar hún ábyrgð á öryggi upplýsingakerfa, innleiðingu Navision-viðskiptakerfisins og tölvuþjálfun starfsmanna á 14 sölustöðum fyrirtækisins.
Á Spáni bjó Eyrún fyrst á Menorca en flutti fljótlega til Barcelona og vann sem sjálfstæður ráðgjafi við innleiðingu Navision-kerfisins fyrir Columbus IT í Hollandi, Primagaz á Spáni og við fleiri alþjóðleg fyrirtæki í hugbúnaðargeiranum. Jafnframt lauk hún námi í katalónsku. Í Barcelona lágu leiðir þeirra Albertos aftur saman árið 2006, en þau kynntust þegar hún var sumarlangt á Spáni 1987. Þau fluttu til Mallorca 2009 með kettina Lúkas og Lúnu og ráku búgarð í Can Ros í fimm ár. Þar ræktuðu þau grænmeti og ávexti og héldu alifugla og kindur.
Á árinu 2009 tók Eyrún að sér umsjón með viðskiptahugbúnaði Iceland Seafood International sem er stærsti fiskútflytjandi til Iberíuskaga. Þar sá hún um notendaaðstoð, samskipti við þjónustuaðila, forritun o.fl. Eyrún hætti störfum fyrir ICI eftir 10 ár, þegar fyrirtækið sameinaðist öðru íslensku fyrirtæki. Um svipað leyti gerði krabbameinið, sem lagði hana að velli, fyrst vart við sig. Síðustu fimm árin hafa þau Alberto búið á Íslandi á sumrin og í borginni Inca á Mallorca yfir vetrartímann.
Útför Eyrúnar fer fram frá Neskirkju í dag, 25. mars 2024, og hefst klukkan 15. Streymt verður frá athöfninni:
www.sonik.is/eyrun
Ljósið hennar Eyrúnar er að slokkna, sagði Alberto við mig mánudaginn 20. janúar. Þremur dögum síðar var litla systir mín dáin, ljósið hennar horfið og hún laus úr viðjum líkamans sem brást henni á svo margan hátt.
Í Flatey eru oft margar sólir á lofti og sólskinið bjartara en annars staðar. Eyrún hreinlega elskaði Flatey. Við dvöldum þar tvær sumarlangt í nokkur ár þegar hún var lítil, fyrst í Strýtu og síðar í Vegamótum og Gunnlaugshúsi. Það er til myndaröð af Eyrúnu fimm ára í eyjunni fögru. Sólin gyllir hárið og hún brosir feimnislega við myndavélinni. Í Flatey voru á þessum árum stelpur í hverju húsi og nóg við að vera. Þá voru hnýtt vinabönd fyrir lífstíð bæði við jafnöldrurnar og fullorðna fólkið, vini okkar beggja. Við rifjuðum það stundum upp þegar við hlupum eins og við gátum heim í hús eftir matarboð til að borða spagettí úr dós af því að við gátum ekki borðað eyjamatinn – selkjöt og heimasaltað! Þetta voru góðir tímar og Eyrún naut þess ekki síður að dvelja í Flatey á fullorðinsárum með Alberto.
Það var alltaf bjart í kringum hana Eyrúnu, það stirndi á hvítgyllt hárið þegar hún var lítil og ljós hármakkinn var hennar aðal á fullorðinsárum. Hún var vært og athugult barn, falleg ung kona, hávaxin, brosleit, vel vaxin og bar sig vel. Eyrún var boðin hjartanlega velkomin í heiminn sem brosti við barninu sem fékk nafnið föðurömmu okkar og marga af hennar góðu eiginleikum. Eyrún var föst fyrir, nákvæm, vandvirk og stálminnug. Þessir eiginleikar nýttust henni vel í tölvuheimum, þar sem hún sérhæfði sig í þjónustu við stórfyrirtæki á sviði verslunar og hugbúnaðar. Hún var líka ræktarsöm með afbrigðum og hélt tengslum við ættmenni og vini þrátt fyrir 24 ára búsetu á erlendri grund. Það sannaðist líka þegar hún hélt upp á 55 ára afmælið sitt hér heima og 70 manns komu í partíið.
Ég var 17 ára þegar Eyrún fæddist og aldrei hvarflaði það að mér að hún færi á undan. Brjóstakrabbamein hefur áður höggvið skörð í fjölskyldu okkar og allir vita hversu mikilvægt er að það greinist sem fyrst. Við vorum þess vegna ánægðar með það sem virtist vera öflugt fyrirbyggjandi eftirlit á Spáni en því miður brást það hrapallega. Þegar meinið uppgötvaðist á árinu 2019 var það einfaldlega of seint. Við tók hörð barátta um lífsgæði sem skurðaðgerð og líftæknilyf geta veitt í tiltekinn tíma. Eyrún var ótrúlega hugrökk í baráttu sinni, hún leitaði uppi allar leiðir, þáði allt sem bauðst og fékk að launum nokkur góð ár og ófáar gæðastundir með ástvinum sínum. En þetta var ekki auðvelt, tvisvar þurfti hún að sjá á eftir hárinu sínu fallega og hún þurfti ekki aðeins að berjast við lúmskan sjúkdóminn heldur einnig aukaverkanir lyfjanna. En hún var aldrei á því að gefast upp. Nei, ekki hún Eyrún! Og þannig tókst henni að smita okkur öll með bjartsýni sinni, æðruleysi og baráttugleði fram á síðustu stundu. Því kom andlát hennar mér að óvarri.
Ég kveð litlu systur mína með miklum söknuði. Heimurinn er ekki samur án hennar. Ég mun hugsa til hennar við sérhverja sólarupprás í Flatey.
Álfheiður Ingadóttir.
Elsku Eyrún, elsku litla vinkona mín, lést 23. janúar síðastliðinn og í dag er komið að erfiðri kveðjustund.
Við Eyrún hittumst í fyrsta skipti í maí 1970. Þá var hún eins og hálfs árs og ég 10 árum eldri. Eyrún var nývöknuð af hádegisblundi, sat og var að gæða sér á valhnetutertu. Hún bauð mér að smakka undir eins.
Erindi mitt var að hitta Rögnu, mömmu hennar, og sækja um sumarvinnu sem barnapía. Ég var svo heppin að fá vinnuna og byrjaði í júní, þegar skólinn var búinn það sumarið. Eyrún varð þessi „litla systir“ sem ég hafði þráð að eignast svo lengi. Skýr og skemmtileg stelpa og ég var svo glöð og hreykin af því að fá að vera barnapían hennar. Hjá þessari yndislegu fjölskyldu var ég í fjögur sumur og einnig öðru hvoru þegar börnin vantaði pössun í nokkra tíma.
Áður en ég fór í lýðháskóla í Svíþjóð 1976 skrapp ég í heimsókn á Hagamelinn. Það var svo gaman að hitta fjölskylduna, en ég vissi ekki þá að það myndu líða átta ár þar til við Eyrún hittumst aftur.
Sumarið 1984 komu hún og vinkona hennar í heimsókn til mín í Svíþjóð. Þær voru hressar og glaðar og flissandi yfir öllu sem þær heyrðu og sáu. Það var gaman að þeirri heimsókn, þó svo að við hefðum ekki alveg verið á sömu bylgjulengd í lífinu á þeim tíma. Ég var þá tveggja barna móðir, börnin fjögurra og tveggja ára gömul.
Um tíma misstum við því miður niður sambandið, sem er kannski ekkert skrýtið þessum árum. Mikið að gera hjá okkur báðum. Eyrún á leið í menntaskóla og ég útivinnandi og bráðum þriggja barna móðir.
En svo fundum við hvor aðra á Facebook fyrir fjórtán árum. Þar höfum við síðan fylgst hvor með annarri og spjallað. Í mörg ár hittumst við þó ekki, þar sem ég bý í Svíþjóð og hún bjó á Mallorca og við aldrei staddar á Íslandi samtímis. En svo loksins, eftir 40 ár, hittumst við í fyrrasumar. Það var yndislegur og eftirminnilegur endurfundur. Við fórum saman á kaffihús og töluðum og töluðum. Það var svo margt sem við þurftum að segja hvor annarri. Við hlógum og grétum. Hún sagði mér allt um sjúkdóm sinn og baráttu sína við hann. Hún var svo sterk. Svo jákvæð og bjartsýn. Ég grét en hún huggaði mig, það hefði átt að vera öfugt.
Þessi stund með Eyrúnu er mér mjög dýrmæt.
Elsku fjölskylda, mínar innilegustu samúðarkveðjur. Missir ykkar er mikill.
Ég kveð þig, elsku Eyrún, með uppáhaldsvögguvísunni okkar:
Sofðu rótt, sofðu rótt,
nú er svartasta nótt.
Sjáðu sóleyjarvönd
geymdu' hann sofandi í hönd.
Þú munt vakna með sól
Guð mun vitja um þitt ból.
(Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi)
Þín vinkona,
Linda Schram.
Elsku Eyrún hefur kvatt okkur eftir hetjulega baráttu.
Eyrún kom ung að vinna í Hans Petersen uppi á Lynghálsi við tölvuvæðingu og þar kynnumst við fyrst.
Hinn 24. október 2023, á kvennafrídaginn, hittumst við og fórum í bæinn saman. Síðan bauð hún í afmæli 3. nóvember 2023 og Alberto eldaði dásamlegan mat. Ótrúlega skemmtileg stund.
Eyrún var mikið í Flatey með fjölskyldu sinni og ég sagði henni að ég ætti langömmustelpu sem ætti ættir þar. Þá kom í ljós að við áttum sameiginlega vinkonu, ömmu langömmustelpunnar, hana Þórdísi Unu. Um miðjan ágúst 2024 hittumst við þrjár og borðuðum saman. En samskiptin voru mest í gegnum netið í gegnum árin.
Síðustu samskiptin voru 28. nóvember 2024 þegar hún sendi okkur mynd af sér brosandi og sagði „nýja klippingin mín“ og með því þessi fallegu skilaboð: „elska ykkur“.
Alberto, Ragna og fjölskyldan öll. Innilegar samúðarkveðjur.
Sigrún Böðvarsdóttir.
Elsku Eyrún.
Með gullna hárið, bjarta ennið og breiða brosið.
Eldklár, eldhress, falleg og skemmtileg.
Fannst gaman að tala, mjög gaman, en aldrei með látum einhvern veginn.
Röddin lá á neðra raddsviðinu, heit einhvern veginn. Kannski eins og spænska loftslagið. Og svo þegar hún hló, sem hún gerði oft, gat það stundum orðið að algerum hrossahlátri. Þá var gaman.
Leiðir okkar hafa legið saman síðan við vorum litlar skottur í Flatey, stundum þétt og stundum aðeins gisnara af því að lífið.
Hún á Spáni að bjástra með Alberto og ég hér með mínum.
Svo kom Facebook og reddaði málunum með messenger.
Eyrún var ræktarsöm og sinnti þeim sem voru henni kærir og ég er henni svo þakklát fyrir það.
Hún hnippti í mann ef hún var að koma til landsins og sagði: „Vonandi náum við nú að hittast í Flatey í sumar elskan.“ Elskan, hún notaði það mikið og meinti það einhvern veginn alltaf. Og ástin, skrifaði mikið ástin.
„Hæ ástin, þú ert í Antwerpen er það ekki?“
Og hún kom frá Spáni og var hjá mér í nokkra daga í Antwerpen fyrir nokkrum árum og það var alveg frábært og yndislegt og verður varðveitt í ljúfasta skríni minninga minna ásamt mörgum öðrum.
Elsku Eyrún mín.
Það er skrítið að kveðja einhvern sem deyr langt í burtu.
Engin lokaheimsókn, ekkert lokaknús og tár í fangi.
Ég er enn að bíða eftir messenger-spjalli og stend mig að því að senda þér línur þar. Og ég vona að þær skili sér einhvern veginn til þín.
Þar til næst í okkar Flatey elsku Eyrún mín.
Þín vinkona,
Sigrún Þula.