Brynjólfur Bjarnason fæddist í Reykjavík 18. júlí 1946. Hann lést 16. mars 2025.
Foreldrar hans voru Kristjana Brynjólfsdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 1923, d. 2000, og Bjarni Björnsson forstjóri í Reykjavík, f. 1920, d. 2001. Brynjólfur ólst upp í Hlíðunum í góðu atlæti foreldra sinna á fallegu menningarheimili ásamt þremur bræðrum. Elstur er Björn, f. 1944, maki Kristín Helgadóttir, þá Bjarni, f. 1948, d. 2022, maki Emilía Ólafsdóttir, og Birgir, f. 1953, d. 2023, maki Guðbjörg Sigmundsdóttir.
Brynjólfur gekk í Austurbæjarskóla og í Verzlunarskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist sem stúdent árið 1967. Hann útskrifaðist með cand.oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá HÍ árið 1971 og MBA-gráðu frá University of Minnesota árið 1973.
Á árunum 1973-1976 var hann forstöðumaður hagdeildar Vinnuveitendasambands Íslands (nú Samtök atvinnulífsins). Hann var framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins AB frá 1976-1983, og árið 1984 tók hann við starfi framkvæmdastjóra sjávarútvegsfyrirtækisins Granda og gegndi því til ársins 2002. Þar leiddi hann umbreytingu fyrirtækisins og einkavæðingu. Á árunum 2002-2010 var hann forstjóri Símans/Skipta og stýrði þar einkavæðingu Landsíma Íslands í Símann árið 2005. Árið 2012 tók hann við starfi framkvæmdastjóra Framtakssjóðs Íslands og gegndi því til ársins 2014. Hann var í stjórn Arion banka 2014-2024 og stjórnarformaður 2019-2024.
Brynjólfur sat í stjórnum fjölmargra fyrirtækja í sjávarútvegi, fjarskiptum og fjármálum. Þá sat hann í stjórnum fjölmargra menningarstofnana og félagasamtaka.
Brynjólfur var um árabil ræðismaður Chile á Íslandi og hlaut árið 2008 heiðursorðu „Chilean Order al Merito“. Hann var sæmdur riddarakrossi íslensku fálkaorðunnar RÍF árið 1994.
Eftirlifandi eiginkona Brynjólfs er Þorbjörg Kristín Jónsdóttir rekstrarhagfræðingur, f. 1962, þau giftu sig 1993. Börn þeirra eru 1) Brynjólfur Jón, háskólanemi í Boston, f. 2002, og 2) Helena Kristín, viðskiptafræðingur og viðskiptastjóri hjá Arion banka, f. 1995, sambýlismaður Oddur Stefánsson. Börn Brynjólfs með fyrri eiginkonu sinni, Kristínu Thors, (þau skildu 1990), og stjúpbörn Þorbjargar, eru; 3) Birgir Örn, rekstrarhagfræðingur og forstjóri Antarctica Advisors, f. 1983, maki Kiley Larson. Þau eiga 2 syni; Björn Leo og Emil Atlas. 4) Kristjana, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri miðla hjá Sýn, f. 1976, maki Þorvarður Jóhannesson. Þau eiga þrjú börn; Óla Fannar, Töru Björgu og Höllu Helgu. 5) Helga Birna, viðskiptafræðingur og verkefnastjóri hjá Sýn, f. 1974, maki Þórhallur Ágústsson. Þau eiga þrjú börn; Tjörva, Emblu og Kristínu Hallberu, og 6) Bjarni, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri Arngrímsson Partners f. 1966, maki Þorgerður Ólafsdóttir. Börn hans með fyrri eiginkonu sinni Guðbjörgu Eiríksdóttur (þau skildu 2018) eru; Brynjólfur Jóhann, Berglind Lára og Gunnar Stefán, og barnabarnabörnin eru tvö; Karlotta Lára og Ína Sóley.
Uppeldisdóttir Brynjólfs og Þorbjargar er Sandra Yildiz Castillo Calle sem kom til þeirra frá Perú 2007, framhaldsskólakennari f. 1985, maki Sigurjón Kjærnested. Börn þeirra eru þrjú; Guðmundur Rafael, Emilía og Sverrir.
Útför Brynjólfs fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 25. mars 2025, klukkan 15.
Fórum gegn normi og væntingum,
með storminn í fangið,
en samstíga sálufélagar frá fyrstu stund;
samhentir vinir
ást og áherslur
jafnræði og virðing.
Hvíl í friði ástin mín.
Djúp þökk fyrir samfylgd án skugga.
Dídí.
Elsku pabbi Brynjólfur. Það er mjög margt sem mig langar að segja þér og þakka þér fyrir. Takk til þín og Dídíar fyrir að opna dyrnar að húsinu ykkar og leyfa mér að vera partur af fjölskyldunni ykkar. Takk fyrir að leyfa mér að sjá og hafa ykkur sem mína eigin fjölskyldu og fyrir að kynna mig sem dóttur ykkar fyrir öðru fólki. Þú varst og ert pabbinn sem ég átti ekki heima í Perú. Frá fyrsta degi þegar ég kynntist þér hefur þú sýnt mér hlýju, ást, umhyggju, virðingu og hefur alltaf verið fyrirmynd og til staðar og hvatt mig áfram.
Ég á svo margar góðar minningar með þér og þótti svo vænt um þegar þú gladdist með mér þegar mér gekk vel í skólanum, þegar ég útskrifaðist úr háskóla, þegar ég fékk ríkisborgararétt og margt fleira. Ef ekki hefði verið fyrir þig hefði þetta aldrei gerst.
Það eru svo eftirminnilegar allar stundirnar þegar þú komst heim úr vinnunni og svo allt í einu varstu kominn í svuntu og fórst að elda. Þær voru svo skemmtilegar þessir stundir þegar við sátum öll saman við borðið, spjallandi og hlæjandi. Ég man eftir yndislegum ferðalögum til Frakklands, Spánar og Englands. Þú stóðst alltaf með mér í röðinni í vegabréfsáritun til þess að passa að ég kæmist alla leið. Ég man líka eftir öllum ferðalögunum til Lamba, þegar þú fórst með mér og sýndir mér Hveragerði. Við fengum okkur ís og skoðum gróðurhúsin og hverina. Þú sýndir mér Heklu og kenndir mér nöfnin á fjöllunum og stundum reyndum við að tala spænsku saman. Við skoðuðum Íslandskort og merktum hvaða staði ég var búin að fara og skoða. Þú kenndir mér að borða íslenskan mat og varst svo glaður þegar við gátum fengið okkur að borða saman sviðakjamma, bjúgu eða harðfisk.
Þú ert fyrirmynd fyrir okkur öll. Það er mjög erfitt að missa þig. Ég sakna þín mjög mikið. Þú verður alltaf í hjarta okkar. Börnin mín eru líka farin að sakna þín mikið. Þegar þau fengu fréttirnar um afa Brynjólf urðu þau miður sín og fyrsta spurningin sem kom var hver yrði dómari í leikjunum í Lamba á fjölskylduhátíðinni í sumar. Ég sagði þeim að þú yrðir áfram með okkur að leiðbeina okkur, áfram með okkur í lífinu og áfram fyrirmyndin okkar. Þessar yndislegu minningar munu lifa alltaf með okkur og þú verður verndarengillinn okkar.
Sandra, Sigurjón, Guðmundur Rafael, Emilia Björg og Sverrir Alexander
Sagt er að ástæða þess að minningargreinar eru skráðar í dag er sú að til forna hafi einhver þjóðflokkur skráð með hinum látnu, meitlað í stein eða skráð á skinn, lýsingu á hinum látna fyrir guðina að lesa og gera sér grein fyrir hvernig mann hinn látni hafði að geyma.
Við sátum í Þjóðleikhúsinu á milli foreldra okkar, sátum framarlega á stólbríkinni og með hendur á stólbaki bekkjarins fyrir framan okkur til að horfa á leikritið Gullna hliðið. Afi Brynjólfur lék þar karlinn og höfðum við meiri áhuga að sjá hann en hvað fór þar fram í leikritinu, hann lék þar bónda sem lést í rúmi sínu, kona hans náði að setja sálu hans í strigapoka og hnýtti vel fyrir, fór með pokann að hinu Gullna hliði þar sem Lykla-Pétur tók á móti henni. Hún vildi að sál karlsins fengi inn um hið Gullna hlið, en Lykla-Pétur var eitthvað tregur til því eitthvert óhreint korn var í pokahorninu. Þeim fóru einhver orð á milli en að lokum tókst kerlu að henda pokanum inn um hið hálflokaða Gullna hlið og var sálu hans þar með borgið.
Mér er til efs að slíkt hafi verið þegar sál Brynjólfs fór þar um, frekar að Lykla-Pétur hafi opnað hliðið upp á gátt og þá, ef eitthvað, lotið höfði. Brynjólfur hafði góða nærveru, náði góðum árangri við þau mörgu störf sem hann sinnti, sem og í öðrum málum sem voru til hagsmuna og fyrir velferð okkar þjóðfélags, það var auðvelt að vera stoltur af bróður.
Það þarf því ekki að skrá fleiri orð til guðanna.
Þorbjörg mín og afkomendur hans og ykkar, mín nærfjölskylda vottar ykkur samúð, en megið þið finna styrk í minningu um hugulsaman og ráðagóðan eiginmann, föður og afa.
Hvíl í friði kæri bróðir, skilaðu kveðju til hinna bræðranna, þá þið allir eru farnir.
Björn Bjarnason.
Afi var mjög góður, skemmtilegur og ráðagóður maður. Hann var svo glaður þegar hann hélt á mér nýfæddum, af því að ég var hans fyrsta barnabarn. Við afi áttum góðar stundir saman og hann hefur sýnt mér mikla væntumþykju og umhyggju. Hann var mjög duglegur að nýta sín frí í samverustundir með fjölskyldunni og spjallaði við okkur um hitt og þetta. Þegar ég var lítill var það hefð hjá afa að bjóða fjölskyldunni til sín í laufabrauðsskurð. Þá fengu allir að skera út laufabrauðin og gerðu sín eigin listaverk úr þeim.
Mér fannst mjög gaman að fara í fjölskylduferðir í bústaðinn hans afa þegar haldnar voru fjölskylduhátíðir. Þar leystum við þrautir og tókum þátt í leikjum. Svo voru haldin partí þar sem tónlist var spiluð og fólk sat og spjallaði um heima og geima.
Við afi fórum nokkrum sinnum til útlanda og þær ferðir voru mjög eftirminnilegar. Árið 2000 var farin fjölskylduferð til Danmerkur þar sem ég keyrði gokart-bíl, fór í tívolí og hann kynnti fyrir okkur „Jómfrúarveitingastað“.
Síðan var það skíðaferðin til Frakklands um jól. Við komuna til Frakklands uppgötvaðist að það vantaði helminginn af farangrinum. Afi fór í málið og farangurinn var kominn daginn eftir.
Við afi gerðum þrjár tilraunir til að komast á Tottenhamleik í London, fyrst 2014 en þá var leikurinn færður yfir á annan dag og við komnir út, síðan 2022 og um það bil sem við vorum að fara á völlinn þá kom tilkynning um frestun vegna covid. Það var svo í maí í fyrra sem tilraun okkar tókst. Við sáum Tottenham vinna Burnley á glænýjum velli þeirra. Í þessum þremur ferðum náði ég að kynnast afa mjög vel og hann gat miðlað til mín þekkingu um siði og menningu þegar við vorum á þessum ferðalögum.
Mig langar til að þakka afa mínum fyrir að hafa sýnt mér alla þá væntumþykju, góðmennsku og umhyggju sem hann hefur sýnt mér.
Brynjólfur Jóhann Bjarnason.
Kær vinur okkar, Brynjólfur Bjarnason, er fallinn frá. Kynni okkar hófust í Verslunarskóla Íslands fyrir meira en 60 árum og voru náin og traust alla tíð. Þótt stundum hafi liðið lengri tími en ella á milli samfunda þegar allir voru á kafi í vinnu, barnauppeldi og öðru því sem lífið færði okkur, rofnaði vinskapurinn aldrei.
Árin í Verslunarskólanum voru áhyggjulaus, alltaf var líf og fjör og mikið var um að vera. Brynjólfur var góður námsmaður, skemmtilegur og heilsteyptur, og þarna varð til góður hópur vina. Eftirminnilegt er frá þessum árum þegar við hjónin ásamt Brynjólfi og fleirum vorum valin til að taka þátt í leikritinu „Allra meina bót“ sem flutt var á nemendamóti skólans. Binni var í einu aðalhlutverkanna sem hann skilaði einstaklega vel, enda átti hann ekki langt að sækja leikhæfileikana verandi barnabarn Brynjólfs Jóhannessonar, leikara. Vakti hann mikla lukku og kátínu. Tíminn leið hratt á þessum góðu árum og eftir Versló tók alvara lífsins við, vinna og Háskóli Íslands og seinna meir framhaldsnám hjá Brynjólfi í Bandaríkjunum.
Eftir HÍ var stofnaður skákhópur bekkjarfélaga úr viðskiptadeildinni, sem haldist hefur síðan. Skákkvöldin voru á heimilum félaganna þar sem heimsmálin voru einnig rædd og krufin. Það var einnig mikið hlegið og spaugað enda miklir húmoristar þar á ferð. Góður vinskapur varð einnig til meðal eiginkvenna og hefur hópurinn allur gert ýmislegt skemmtilegt saman svo sem að ferðast bæði innan lands sem utan, t.d. til Riga, Parísar og Ítalíu. Gott var líka að koma í Fljótshlíðina, Paradís þeirra Þorbjargar og Brynjólfs. Síðustu árin hefur taflið svolítið látið undan síga og gjarnan er núna hist á kaffihúsum.
Fyrir áratug lágu leiðir einnig saman þegar nokkrir félagar ásamt Brynjólfi stofnuðu Marinvest fjárfestingarfyrirtæki með aðstöðu í Sjávarklasanum. Þar hittast menn reglulega og þar eiga sér stað umræður og skoðanaskipti um atvinnulífið, spennandi tækifæri og málefni líðandi stundar. Það verður mikill sjónarsviptir að Brynjólfi, sem hafði alltaf mikið til málanna leggja.
Við hjónin höfum átt því láni að fagna að geta eytt góðum tíma undanfarin ár í Suður-Frakklandi með Brynjólfi og Þorbjörgu. Þar nutum við lífsins, spiluðum golf, ferðuðumst um og neyttum góðs matar og vína og ekki er lengra en síðan í september sl. að við vorum þar öll saman.
Brynjólfur átti einstakan starfsferil og kom mjög víða við, bæði í atvinnu- og menningarlífi landsmanna. Hann var traustur, heiðarlegur og skoðanafastur og var ávallt í forustuhlutverki hvar sem hann bar niður. Í veikindum sínum var hann með eindæmum æðrulaus og yfirvegaður og þakklátur fyrir líf sitt og fjölskyldu. Andlegur styrkur hans var með ólíkindum til hinstu stundar. Þorbjörg stóð eins og klettur alla tíð við hlið hans.
Við sendum Þorbjörgu, öllum börnum þeirra og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.
Hvíl í friði kæri vinur.
Bryndís Helgadóttir og Halldór Vilhjálmsson.
Strax frá fyrstu kynnum okkar Brynjólfs Bjarnasonar hafði ég á tilfinningunni að við ættum eftir að vinna náið saman síðar á starfsævinni. Þegar ég settist svo í stjórn Arion banka haustið 2018 hafði Brynjólfur setið þar í um fjögur ár og við þekkst í um áratug. Var ég ekki síst spenntur fyrir nánara samstarfi við Brynjólf þegar ég settist í stjórn bankans.
Vissi ég sem var að þekking Brynjólfs á íslensku viðskiptalífi væri einstök, enda í sveit forystumanna í atvinnulífinu í nærri hálfa öld. Þegar hann kom heim frá námi í Bandaríkjunum á áttunda áratug síðustu aldar var hann í hópi örfárra sem lagt höfðu stund á stjórnunarnám á háskólastigi enda fór það svo hann varð forstjóri í leiðandi fyrirtækjum á Íslandi og sinnti samhliða bæði félags- og fræðslumálum af ástríðu.
Segja má að Brynjólfur hafi verið kallaður aftur til forystu árið 2014 þegar hann tók sæti í stjórn Arion banka og verkefnin voru ærin. Eitt mikilvægasta verkefnið var án efa uppbygging öflugs viðskiptalífs í kjölfar endurreisnar fjármálakerfisins. Brynjólfur hafði komið að því verkefni sem forstjóri Framtakssjóðs Íslands sem hafði verið settur upp af lífeyrissjóðum landsins í lok árs 2009. Á aðalfundi Arion banka árið 2019 var hann svo kjörinn stjórnarformaður. Þegar það kom að því að ráða nýjan bankastjóra féll það í hans skaut sem stjórnarformanns að leiða það ferli. Stjórn bankans veitti mér traustið og örlögin höfðu þá hagað því þannig að fram undan var náið samstarf okkar tveggja.
Ég sá fljótt að Brynjólfur var næmur á og áhugasamur um fólk og naut sín því vel í stjórnarstörfum hjá Arion þar sem fjölmargir stjórnendur og sérfræðingar samstæðunnar komu reglulega inn á fundi og kynntu sín verkefni. Þar nutum við víðtækrar þekkingar hans og þess að hann fylgdist vel með atvinnulífinu, alþjóðamálum og nýjungum sem kynnu að leiða til framþróunar og breytinga í samkeppnisumhverfinu. Tölvupóstar og samskipti milli funda snérust gjarnan um þessi mál auk þess sem hann grennslaðist fyrir um hvernig gengi í rekstrinum og hvað væri að frétta af starfsfólkinu og fjölskyldunni. Við höfðum það fyrir reglu að heyrast í síma að minnsta kosti einu sinni í viku, á föstudagsmorgnum, meðan hann starfaði sem stjórnarformaður og héldum áfram góðum samskiptum eftir að hann steig af sviðinu á aðalfundi bankans á síðasta ári.
Ég verð ætíð þakklátur fyrir hve góðan tíma hann gaf sér í okkar samskipti, hve hlýr hann var og ráðagóður. Skipti þá engu hvort málin voru smá eða stór, alltaf miðlaði hann af reynslu sinni og þekkingu. Hann var leiðbeinandi af guðs náð. Brynjólfur kenndi mér hversu mikilvægt það er í samskiptum og stjórnun að búa jafnt að mildi og fastheldni. Þakklátur er ég fyrir heimboðið til þeirra Þorbjargar fyrir stuttu síðan og ég veit nú að þá kvaddi Brynjólfur mig þó ég hafi ekki verið reiðubúinn að meðtaka það á þeim tímapunkti.
Ég kveð Brynjólf Bjarnason með söknuði en ríkari af kynnum okkar. Hvíl í friði minn kæri vinur. Þorbjörg og fjölskylda, mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Benedikt Gíslason
Það er kyrrlátur sumarmorgun í Fljótshlíð og við njótum hægagangs heima í húsi, skipuleggjum verkefni dagsins í huganum en förum að engu óðslega. Fljótlega er þó kyrrðin rofin og heyra má taktinn í Ferguson sem fer um tún með sláttuvélina í eftirdragi. Brynjólfur Bjarnason er haldinn af stað inn í daginn, kominn í ullarsokka og gúmmískó, búinn að setja upp derhúfu og sólgleraugu, genginn í verkin. Það var eins og ferðir á hinum gráa gamla Ferguson væru hans hugleiðsla og slökun, og ekki þótti manni mikið hafa bæst í vöxtinn á túnunum þegar hann var lagður aftur af stað í næsta slátt.
Brynjólfur var einstakur vinur vina sinna og Hulda hefur þekkt hann alla sína ævi, fyrst í gegnum fyrra hjónaband hans og Systu frænku hennar. Síðar urðum við góðir vinir þeirra Þorbjargar og stundirnar í Hlíðinni eru óteljandi og eftirminnilegar. Þau voru sérlega samrýnd hjón og áttu sterkt og ástríkt samband. Þau deildu lífsýn og nálgun, forgangsröðun í lífinu og voru sannkallaðir sálufélagar og bestu vinir. Fjölskyldan var alltaf í fyrsta sæti hjá þeim og er aðdáunarvert að fylgjast með hversu vel öll í fjölskyldunni leggja sitt af mörkum til að skapa einstaklega hlýja og samrýnda fjölskyldu. Og skemmtilega.
Fáir höfðu jafn gott lag og Brynjólfur á að rekja úr manni garnirnar. Áhugi hans á mönnum og málefnum var óþrjótandi, hann vildi vita hvað manni fyndist og af hverju maður kysi að fara þá leið sem farin væri. Hann þráspurði þar til hreinskilið einlægt svar lá fyrir. „Það er svoleiðis,“ sagði hann þá gjarnan. Hann var víðsýnn og vel að sér um flest, skildi mikilvægi lista, menningar og menntunar fyrir samfélagsgerðina og uppbyggingu hennar. Það sem einkenndi samtöl við Brynjólf var sú einstaka lífsreynsla sem hann bjó yfir og var viljugur að deila.
Brynjólfur átti magnaðan feril í íslensku atvinnulífi, var stjórnandi í hálfa öld. Pétur vann með honum hjá Skiptum. Það er ekki alltaf góð hugmynd að blanda saman vinskap og vinnu en Brynjólfur var þannig yfirmaður að það dýpkaði vinskapinn og það segir sína sögu að við sem störfuðum náið með honum hjá Skiptum höfum haldið hópinn með þeim hjónum í dýrmætum vinskap.
Með sorg í hjarta kveðjum við og þökkum fyrir vináttuna. Minningin lifir.
Hulda Stefánsdóttir, Pétur Þ. Óskarsson.
Ég hef undanfarna áratugi fylgst með farsælum störfum Brynjólfs Bjarnason hvort sem var í fyrirtækjarekstri eða félagsstarfi. Leiðtogahæfileikar hans voru augljósir, jafnvel fyrir mér sem tengist allt annarri atvinnustarfsemi.
En leiðir okkar lágu fyrst í alvöru saman í ársbyrjun 2012 þegar ég var stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands. Þá ákváðum við í stjórninni að bjóða honum starf sem framkvæmdastjóri sjóðsins eftir að fyrrverandi framkvæmdastjóri lét af störfum. Þá höfðum við farið vandlega yfir fjölmargar góðar umsóknir, en niðurstaðan var sú að leita út fyrir hóp umsækjenda og bjóða Brynjólfi starfið enda átti reynsla hans og yfirburðaþekking á atvinnulífinu eftir að reynast Framtakssjóðnum vel.
Það var eftirminnileg stund þegar við hittumst síðdegis í byrjun árs 2012 og hann átti ekki von á þessu boði heldur ræða störf sín sem stjórnarmaður í Icelandic Group, sem var eitt af félögunum sem Framtakssjóðurinn átti hlut í. Hann fékk stuttan frest m.a. til að ræða við Þorbjörgu eiginkonu sína, sem var áreiðanlega hans sterki bakhjarl í fjölskyldulífi og sem ráðgjafi í hans daglegu störfum. Hann sló sem betur fer til og starfaði síðan sem farsæll framkvæmdastjóri hjá sjóðnum í tvö ár. Hann lét af störfum að eigin ósk árið 2021 eftir viðburðaríkan og árangursríkan tíma.
Starfslok Brynjólfs voru mér jafn óvænt og fyrir hann þegar hann var ráðinn til starfa. Hann hafði tekið sér gott frí um áramót og þegar hann kom úr fríinu sagði hann við mig: „Ég á stóra og góða fjölskyldu og mörg áhugamál og því varð sú löngun að vera herra eigin tíma sífellt áleitnari, ekki síst núna loksins í góðu fríi.“ Fram kom síðan í viðtali við hann í fjölmiðlum að tíminn hjá Framtakssjóðnum hefði verið sérlega ánægjulegur og hann hefði átt gott samstarf við starfsfólkið og alla þá sem tengjast starfseminni. Aldrei bar skugga á okkar samstarf.
Brynjólfur lagði mikið af mörkum á stuttum starfstíma eins og aðrir framkvæmdastjórar sjóðsins. Hagnaður sjóðsins á 10 ára starfstíma skilaði sér til eiganda sjóðsins sem voru 16 lífeyrissjóðir sem stóðu að stofnun sjóðsins og Landsbanki Íslands.
Með andláti Brynjólfs er genginn einn áhrifamesti stjórnandi og forystumaður íslensks atvinnulífs á síðustu áratugum tuttugustu aldar og fram eftir þessari öld.
Ég færi Þorbjörgu Jónsdóttur og börnum þeirra, barnabörnum og öðrum aðstandendum einlægar samúðarkveðjur.
Þorkell Sigurlaugsson.
Brynjólf Bjarnason sá ég fyrst á kappræðufundi á milli Heimdallar og ungliða Alþýðubandalagsins sem haldinn var í veitingahúsinu Sigtúni við Suðurlandsbraut. Fundurinn var haldinn í janúar árið 1978. Þrír þátttakendur voru frá hvorum flokki. Fyrir okkur töluðu Davíð Oddsson þá borgarfulltrúi, Friðrik Sophusson þá framkvæmdastjóri og Brynjólfur Bjarnason hagfræðingur. Þeir voru afar ólíkir þessir mætu menn en urðu síðar góðir vinir og samstarfsmenn og framúrskarandi hver með sínum hætti.
Mér er það sérstaklega minnisstætt hversu málefnalegur Brynjólfur var, yfirvegaður og rökfastur í þágu hins frjálsa markaðskerfis. Hann kom með annan vinkil á umræðuna. Ég hreifst mjög af þessum manni sem þá var 32 ára. Ég var hins vegar nemi í Verzlunarskóla Íslands.
Ekki óraði mig fyrir því að ég ætti eftir að njóta þeirra forréttinda að eiga hann að besta vini í áratugi.
Ég kynntist honum síðan í starfi Sjálfstæðisflokksins og við urðum fljótt góðir mátar enda deildum við lífsviðhorfum.
Brynjólfur varð síðan forstjóri Bæjarútgerðar Reykjavíkur (BÚR), sem árið 1985 sameinaðist Ísbirninum undir heitinu Grandi og varð Brynjólfur forstjóri hins nýstofnaða félags. Þessi breyting BÚR og sameining við Ísbjörninn var einstaklega vel heppnuð, unnin af skynsemi og yfirvegun. Hún markaði þáttaskil. Davíð Oddsson þáverandi borgarstjóri hafði auðvitað veg og vanda af ráðningu Brynjólfs. Rök borgarstjórans unga voru þau að ólíðandi væri að skattar af Ísbirninum rynnu beint í stuðning við taprekstur BÚR. Nær væri að einkavæða hana og þá biði betri tíð. Sú varð auðvitað raunin undir stjórn Brynjólfs og nýrra eigenda.
Ég átti sæti í stjórn Granda hf. á upphafsárum félagsins og varð síðan framkvæmdastjóri dótturfélags Granda og þar var Brynjólfur stjórnarformaður. Starfaði ég með honum og undir hans stjórn í tæp þrettán ár. Hann var lærifaðir minn í rekstri og stjórnun en þar fór einstaklega sanngjarn stjórnandi. Skipulagður, hófsamur og úrræðagóður. Það var því engin furða að hann nyti trausts þeirra sem kynntust honum í leik eða starfi. Hvarvetna var sóst eftir kröftum hans og liðsinni. Einstök ferilskrá Brynjólfs lýsir best því trausti sem hann naut og hversu fjölhæfur hann var. Honum var falin forysta í mörgum af stærstu félögum landsins. Þar voru bankar, sölufyrirtæki, sjávarútvegsfélög, tæknifyrirtæki, iðnfyrirtæki að ótöldum félagasamtökum sem sóttust eftir atbeina hans. Ég efast um að aðrir slíkir finnist hér á landi.
Brynjólfur var hófsemdarmaður í öllu tilliti og laus við græðgi. Viljinn til árangurs og góðra verka rak hann áfram hvern dag. Hann var ekki að skara eld að eigin köku. Brynjólfur var ávallt ungur í anda og fylgdist vel með þróun mála í efnahags- og stjórnmálum heimsins. Anna hafði oft á orði hversu ungur í anda hann væri og áhugasamur um hag unga fólksins. Hann fygldist vel með framgöngu ungmennanna í námi og starfi og ræddi við þau sem jafningja. Við fundum hjónin á börnum okkar og tengdabörnum hversu vel þau mátu og litu upp til hans. Þau litu ekki síður á hann sem sinn vin.
Það munar um menn á borð við Brynjólf Bjarnason, ekki síst í litlu samfélagi á borð við Ísland. Slíkir eru mennirnir sem koma málum á hreyfingu og draga vagn atvinnulífsins fram veginn í átt til meiri velsældar í allra þágu. Athafnaskáldin eru ómetanleg og Brynjólfur var sannarlega eitt þeirra.
Sterk vináttubönd tengja fjölskyldur okkar og nálægðin mikil. Aðeins seilingarfjarlægð er á milli heimila okkar og börnin okkar yngstu á sama aldri. Við ferðuðumst saman, veiddum saman og öll erum við áhugafólk um mat og drykk og áttum athvarf í sveitinni spölkorn frá hvert öðru.
Það var því oft glatt á hjalla undir borðum og góðra vína neytt. Við höfðum þann sið vinirnir að skála í viskíi á slíkum stundum. Síðasta gleðifund áttum við á heimili þeirra hjóna í Nýhöfn í desember og nutum við þar strákarnir Macallan-viskís en stúlkurnar kampavíns. Gómsætir réttir úr eldhúsi Þorbjargar fylgdu. Allir vissu hvert stefndi með heilsu Brynjólfs en okkar góði vinur lét á engu bera, höfðinglegur og rökfastur með sínar ákveðnu skoðanir. Hann bar höfuðið hátt og kvöldið var yndislegt. Ógleymanleg stund.
Það er sárt að missa slíkan vin. Það gerir mann eiginlega utan gátta. Harmi sleginn og trúir því illa að fundirnir verði ekki fleiri. Endalausar ánægjulegar minningar um einstakan vin munu þó án efa verða einhver huggun.
Við hjónin sendum Þorbjörgu og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi almáttugur guð geyma okkar góða vin og styrkja fjölskyldu og vini í söknuði og sorg.
Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson,
Anna Júlíusdóttir.
Hvernig getur maður þakkað fyrir vináttu sem hefur varað í 64 ár?
Við Brynjólfur höfum verið samskipa á lífsleiðinni síðan við kynntumst fyrir 64 árum. Við fylgdumst að í Verslunarskóla Íslands í sex ár og sátum saman í viðskiptadeild Háskóla Íslands í fjögur ár.
Við tókumst á við ýmis verkefni í félagslífi Versló, m.a. lékum við í uppfærslu 6. bekkjar á „Allra meina bót“, þar sem Brynjólfur fór á kostum í hlutverki sem afi hans hafði gert frægt nokkrum árum áður.
Í stúdentapólitíkinni stóðum við hlið við hlið þegar umbrot '68-kynslóðunnar bar hæst og vorum á þessum árum virkir í starfi Vöku. Við vorum einarðir baráttumenn aukins frelsis og minni ríkisafskipta.
Þegar lífsbaráttan hófst áttum við samleið á ýmsum vettvangi íslensks atvinnulífs, m.a. á vettvangi Vinnuveitendasambandsins og íslensks sjávarútvegs. Það var gott að vinna með Brynjólfi. Hann var athugull, nákvæmur og vildi skoða viðfangsefnin vel áður en ákvörðun var tekin. Þegar búið var að móta stefnuna fylgdi hann henni eftir af miklum krafti.
Ég veit að aðrir munu fjalla um hina viðmiklu þátttöku Brynjólfs í atvinnu- og menningarlífi síðustu áratuga og öll hans trúnaðarstörf.
Mínar minningar tengjast okkar nánu vináttu og samfylgd í gegnum lífið.
Fyrri eiginkona Brynjólfs var Kristín Thors og vann hún með eiginkonu minni, Gunnhildi Gunnarsdóttur, um árabil á förðunardeild Þjóðleikhússins. Við Brynjólfur vorum því á annan áratug fylgdarsveinar hvor annars á nánast allar frumsýningar Þjóðleikhússins þessi ár.
Við hittumst svo lengi vikulega í vinahópi sem kenndur hefur verið við útgáfu tímaritsins Eimreiðarinnar. Þar var oft tekist hraustlega á um það sem efst var á baugi í þjóðmálunum.
Þegar aldurinn færðist yfir okkur og menn héldu að þeir væru að fara að hægja á sér mynduðum við hóp eldri borgara sem leigði sameiginlega skrifstofu í Sjávarklasanum, hjá vini okkar Þór Sigfússyni. Þar kynntumst við öflugum frumkvöðlafyrirtækjum, fórum í sameiginlegar heimsóknir til fyrirtækja víða um land. Við fórum með mökum okkar í ferðalög, bæði innanlands og utan.
Við félagarnir hittumst vikulega og höfum því fylgst náið með hetjulegri baráttu Brynjólfs við þann sjúkdóm sem varð honum að aldurtila. Hann horfðist í augu við hið óumflýjanlega af mikilli ró og reisn, með ómetanlegri hjálp Þorbjargar og allrar fjölskyldunnar.
Nú er komið að leiðarlokum. Ég vil þakka Brynjólfi fyrir vináttuna, samstarfið og félagsskapinn. Í lífsins ólgusjó er dýrmætt að eiga góða vini.
Við Gunnhildur vottum Þorbjörgu og allri fjölskyldunni innilega samúð. Guð geymi okkar gamla vin.
Magnús Gunnarsson.
Það sem kemur upp í hugann þegar ég minnist Brynjólfs Bjarnasonar vinar míns og samstarfsmanns til næstum 40 ára er hvað hann var traustur, ráðagóður og hjálpsamur.
Árin sem ég starfaði með Brynjólfi voru mér einstaklega gefandi og gæfurík. Þar bar aldrei skugga á. Hann var góður yfirmaður og ekki síður góður vinur.
Brynjólfur tókst á við mörg flókin og erfið uppbyggingarverkefni. Ég fékk að kynnast því sem fjármálastjóri Iðnaðarbankans hve öflugur hann var sem stjórnarformaður bankans við sameiningu bankanna fjögurra í Íslandsbanka um áramótin 1989/90.
Um miðjan níunda áratuginn tók hann að sér að stýra Granda sem hafði orðið til við sameiningu Bæjarútgerðarinnar og Ísbjarnarins. Hann hófst strax handa við að gera rekstraráætlun fyrir veiðar og vinnslu fyrirtækisins, sem var mjög fátítt í útgerðinni í þá daga. Ég réðst til félagsins 1994 og sá hve Brynjólfur fylgdist vel með öllum veiðiferðum skipanna og lét halda sérstakt bókhald fyrir hverja ferð. Hann spurði gjarnan „hvað veiddust mörg tonn í dag?“ og þá vissi hann nákvæmlega hvernig fjárhagurinn stóð. Brynjólfur var óvenju skarpsýnn auk þess að hafa metnaðinn og dugnaðinn sem þurfti til að breyta fyrirtækinu úr taprekstri yfir í að verða eitt stærsta og glæsilegasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Undir hans stjórn varð Grandi eitt af fyrstu fyrirtækjum landsins sem skráð var í Kauphöll Íslands.
Eftir Grandaævintýrið tók Brynjólfur árið 2002 að sér rekstur Landssíma Íslands. Ég var svo lánsöm að fá að fylgja honum þangað. Verkefnið var að breyta þunglamalegu ríkisfyrirtæki í nýtískulegt síma- og tæknifyrirtæki. Þar nutu einstakir stjórnunarhæfileikar Brynjólfs sín vel. Fyrirtækið var selt árið 2005 og var skráð á markað í framhaldinu. Ekki kom á óvart að nýir eigendur kusu að hafa Brynjólf áfram við stjórnvölinn eða þar til hann hætti að eigin ósk sex árum síðar.
Samstarfið við Brynjólf var alla tíð krefjandi. Einstaklega gott var að vinna með honum. Hann var hreinn og beinn og honum mátti alltaf treysta. Mér er minnisstætt að við úrlausn flókinna verkefna kom hann ávallt fram með ný sjónarhorn og krefjandi spurningar. Sagði t.d. að samningur við bankann ætti alltaf að vera tvíhliða, ekki einhliða. Ef þú getur orðið gjaldþrota, þá geta bankar líka orðið gjaldþrota. Aldrei að gefa sér svarið fyrir fram. Alltaf að spyrja: ef og hvað þá? Þannig nálgaðist hann bestu niðurstöðuna. Brynjólfur var á þessum árum ávallt í framvarðarsveit íslensks atvinnulífs og það var engin tilviljun. Fjölskyldan var þó alltaf númer eitt hjá honum, jafnvel þegar vinnuálagið var sem mest.
Að leiðarlokum vil ég þakka Brynjólfi fyrir vináttu og samstarf í langan tíma. Kona hans Þorbjörg hefur aldrei verið langt undan á þessu langa ferðalagi og vinátta okkar Þorbjargar hefur varað frá miðjum níunda áratugnum og fram til dagsins í dag.
Elsku Þorbjörg, við Óli sendum þér og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Kristín Guðmundsdóttir.
Kynni okkar Binna hófust vorið 1995 þegar hann mætti á kynningarfund á Hótel Loftleiðum fyrir hlutafjáraukningu Bakkavarar. Hann tók sæti í stjórn félagsins skömmu síðar og við það kynntist ég í fyrsta skipti faglegum vinnubrögðum við stjórnun fyrirtækja. Fyrir ómenntaðan og lítið reyndan stjórnanda eins og ég var á þessum árum reyndist hann mikil uppspretta þekkingar og reynslu sem hann var alltaf tilbúin að miðla til mín. Margt af því sem hann kenndi mér varð undirstaða margra góðra hluta síðar á lífsleiðinni. Með árunum þróaðist sterkur vinskapur á milli okkar og fjölskyldna okkar sem aldrei bar skugga á. Kynni okkar hafa verið mér ómetanleg og fyrir það þakka ég. Hvíl í friði kæri vinur.
Ágúst Guðmundsson.
Heiðskír himinn, sólin komin upp, fyrsti kaffibollinn og þá heyrist í sláttuvél. Binni kominn út að slá. Það er komið vor.
Við Binni vorum unglingar þegar við kynntumst. Seinna eignuðumst við Stefán Pétur vináttu þeirra Þorbjargar og hefur „sambúð“ húsanna í Hlíðinni staðið yfir í 25 ár. Í sveitinni var slakað á yfir góðri máltíð um leið og mál líðandi stundar voru krufin. Oft komumst við á flug og ekki voru allir alltaf alveg sammála en svo mátti líka alltaf skipta um skoðun. Þetta var og er einstakt samband sem byggir á gagnkvæmu trausti, virðingu og stuðningi eins og þau hjónin sýndu okkur fjölskyldunni á erfiðum tíma við fráfall Stefáns Péturs.
Binni var réttsýnn og ráðagóður enda leituðu margir ungir sem aldnir ráða hjá honum og hann hafði líka einstakt lag á að ná til þeirra sem hann hitti á förnum vegi í rannsóknarleiðöngrum sínum um sveitina eða bara í búðinni að kaupa rjóma. Áhugi hans á hvernig gengi, hvað þeir væru að gera og á skoðunum þeirra var ósvikinn.
Oftast var fámennt en góðmennt í helgarboðunum en svo var stundum efnt til stórhátíða, grillað, saxað niður, hrært og bakað. Jafnvel slegið upp stóru veislutjaldi með dansgólfi og græjurnar settar í gang. Þá mættu allir sem gátu því Þorbjörg og Binni héldu vel um stóra hópinn sinn og studdu.
Ég sé Binna fyrir mér, snyrtipinnann, gangandi um með málningardós og pensil að ditta að, eða með garðklippur að klippa til runna og tré. Svo var hann útsjónarsamur þegar kom að viðgerðum og alveg ótrúlegt hvað mikið er til af skrúfum, skífum og róm í skúrnum. Stundum nægði að vísu bandspotti. Hann var að rifna úr stolti þegar honum tókst að gera við gömlu sláttuvélarnar og koma þeim í gang á ný.
Binna leið vel í sveitinni, þar vildi hann helst vera. Við munum sitja þar og minnast hans með þakklæti í framtíðinni þegar við horfum út yfir sveitina og til Eyja. Góður maður, sem lét sér annt um okkur öll, er genginn.
Kristín Gunnarsdóttir (Stína).
Félagsskapurinn Kátir krakkar var stofnaður 1963-64 af hressum krökkum 16-17 ára, sem höfðu það að markmiði að ferðast um landið, njóta lífsins, skemmta sér og hafa það huggulegt. Ferðalögin voru fjármögnuð þannig, að meðlimir hópsins tóku að sér að þvo og bóna bíla, en helstu viðskiptavinir voru foreldrarnir. Einnig var komið upp sölutjaldi á 17. júní í Lækjargötu og seldar pulsur, blöðrur og gos. Vinskapurinn sem myndaðist hefur heldur betur enst og er í dag enn í fullu gildi. Það var í þessu umhverfi sem við öll kynntumst Binna. Hann var hrókur alls fagnaðar, hafði líflega frásagnargáfu og var drífandi að skipuleggja og framkvæma. Hann var mikill vinur vina sinna. Samskipti unga fólksins taka breytingum, það fer til náms, stofnar fjölskyldu og börnin byrja að koma í heiminn. Þegar það kemur heim frá námi eða byrjar að fóta sig á starfsbrautinni tekur við nýr kafli í samskiptunum. Anna og Finnur hefja árlegan julefrokost, sem hefur haldið velli allt fram á þennan dag. Við tóku ferðir um landið og var gist í tjöldum, fjallaskálum og félagsheimilum. Þessar ferðir reyndust þétta hópinn og börnin kynntust. Það var glatt á hjalla, leikrit sett upp og mikið sungið og vakað fram á nótt. Hluti af hópnum hafði mikinn áhuga á mat, víni og matargerð og varð til matarklúbbur af því tilefni. Binni og Þorbjörg voru frumkvöðlar að klúbbnum og voru aðaldriffjaðrirnar. Við borðuðum til skiptis á heimilum okkar og lögð var áhersla á nýjungar í mat og val á góðum vínum. Þorbjörg skipulagði vínsmökkunarnámskeið fyrir karlana. Þau Binni höfðu forgöngu um utanlandsferðir til Toscana og til Síle. Í Síle skipulögðu þau í Central Valley matarupplifun hjá belgískum meistarakokki ásamt vínpörun. Ferðin til Suður-Ameríku var algjört ævintýri. Binni hefur með frumkvæði sínu ásamt Þorbjörgu skapað okkur ógleymanlegar minningar og fyrir það erum við honum óendanlega þakklát. Þorbjörgu og börnunum vottum við okkar dýpstu samúð.
Agnar, Anna Páls, Anna og Finnur, Birna og Viðar, Guðrún, Ágúst (Gústi) og Erla, Jóhanna, Jón og Steinunn, Kristín.
Nú þegar dagurinn fer að lengjast og vorið virðist vera að minna á sig þá er komið að kveðjustund. Alltof oft birtist dauðinn okkur óvænt, er miskunnarlaus og skilur eftir sig djúp og illlæknanleg sár. En dauðinn á sér einnig aðra hlið, bjarta og líknandi. Þannig trúi ég að hann hafi birst Brynjólfi þegar hann kvaddi eftir erfið veikindi, umvafinn sínum nánustu.
Brynjólfur var gæfumaður, bæði í leik og starfi. Hann var afburðamaður er kom að viðskiptum og vann með nokkrum kynslóðum á vinnumarkaði. Frá því að hann tók við sínu fyrsta ábyrgðarstarfi sem forstöðumaður hagdeildar Vinnuveitendasambands Íslands 1973 og þar til hann kvaddi sem stjórnarformaður Arion á síðasta ári hafa orðið ótrúlegar samfélagsbreytingar og ekki síst í viðskiptalífinu. Það er ekki fyrir meðalmann að ganga í gegnum slíkar breytingar og vera í stafni viðskiptalífsins í yfir 50 ár. Það ber vott um ótrúlega framsýni, glöggskyggni og elju.
Leiðir okkur lágu saman hjá gamla góða Landssímanum upp úr aldamótunum þegar hann kom inn sem forstjóri. Hann var sannarlega réttur maður til að taka við félaginu á þeim tíma og leiða í gegnum einkavæðingu og umbreyta hinu gamalgróna ríkisfyrirtæki.
Þótt við höfum ekki starfað saman í langan tíma var ætíð ákveðinn trúnaður og góður kunningsskapur okkar á milli. Síðustu árin voru samskipti okkar meiri þegar hann var stjórnarformaður Arionbanka. Eins og áður setti hann sig vel inn í þau verkefni sem voru í gangi og hann sendi mér alloft athugasemdir, hugmyndir eða bara hvatningu. Hann hafði skýra sýn á markaðinn, bæði hérlendis og erlendis, og skoðanir á því hvert ætti að stefna.
Ég kveð Brynjólf með söknuði en þó fyrst og fremst með þakklæti og virðingu.
Ég sendi Dídí og fjölskyldu þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur. Vegur sorgarinnar er vissulegar langur og strangur en hvorki ófær né endalaus.
Heiðrún Jónsdóttir.
Brynjólfur Bjarnason var forystumaður af bestu gerð. Hann var glaðlyndur og það var bjart yfir honum. Brynjólfur var einstaklega laginn að laða það besta fram hjá öðru fólki og skipta verkum. Hann var glöggur, horfði á stóru myndina og var yfirleitt fljótur að taka ákvarðanir.
Brynjólfur sat í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins sem formaður á árunum 1997-2006 og leiddi á þeim tíma meðal annars tvær sameiningar. Við eigum góðar minningar um Brynjólf og það er verðugt viðfangsefni að jákvætt viðhorf hans og drifkraftur lifi áfram.
Samstarf okkar Brynjólfs var náið á þessum árum. Við töluðum saman fyrir og eftir fundi, um það sem vildum ná fram og síðar um hvernig til tókst. Hann var hreinskilinn, gat verið kröfuharður en var alltaf sanngjarn. Og það var alltaf gaman hjá okkur.
Ég sendi fjölskyldu og aðstandendum Brynjólfs samúðarkveðjur.
Gunnar Baldvinsson.
Áhrifavaldur áður en orðið áhrifavaldur varð til. Þetta var Brynjólfur, hann var alltaf með'etta – á undan flestum öðrum, enda fáir leiðtogar á Íslandi með eins farsælan feril og Brynjólfur Bjarnason. Leiðir okkar lágu saman hjá Símanum – þegar Brynjólfur, með framsýni, ákvað að hafa fjölbreytileikann í fyrirrúmi við ráðningu í nýja framkvæmdastjórn Símans. Þar skyldi blandað saman reynslumiklum aðilum, konum og körlum, bæði innan úr Símanum en einnig að fá inn fersk utanaðkomandi augu, þar komum við Orri, Kristín og ég til leiks. Þarna má þó ekki gleyma þætti Þorbjargar K. Jónsdóttur, eiginkonu Brynjólfs, en hann naut hennar sýnar á hvað þyrfti til að setja saman gott teymi, enda sérfræðiþekking hennar á því sviði.
Frelsi er einnig orð sem ég tengi við Brynjólf og í víðum skilningi. Öll vitum við að hann brann fyrir frelsi og allt samstarfsfólk hans fékk einhver verkefni sem tengdust því að auka frelsi í viðskiptum. Ekki allir vita að hann sem leiðtogi veitti teyminu sínu frelsi til athafna, frelsi til að taka ákvarðanir, frelsi til að mistakast og frelsi til að bera ábyrgð. Þetta er veganesti sem við höfum öll tekið með okkur í okkar hlutverkum í lífinu – og við erum ekki fá enda snerti Brynjólfur marga. Við Brynjólfur vorum ólík, og það kenndi mér að ráða ekki spegilmynd mína með mér í verkefni. Brynjólfur rólegur, yfirvegaður, ráðgefandi, ég meiri sprengja og vildi hlaupa hratt. Hann sagði við mig að ég væri eins og veðhlaupahestur sem þyrfti að halda í beislið á, ég sagði við hann að þessi veðhlaupahestur hefði dregið hann lengra – þannig gátum við talað og mikil virðing okkar á milli.
Ég var svo lánsöm að eftir árin okkar hjá Símanum og Skiptum héldum við nokkur hópinn og úr varð þéttur vinskapur. Þannig varð Brynjólfur að Binna og Þorbjörg að Dídí. Höfum við átt margar góðar stundir saman, þar sem allt litróf samfélagsins hefur verið rætt, og ekki skorti á skemmtilegar rökræður við okkar besta mann.
Það hefur einnig verið aðdáunarvert að fylgjast með sambandi Binna og Dídíar, enda hefur Dídí verið einn af aðalráðgjöfum Binna bak við tjöldin, sem ekki allir hafa gert sér grein fyrir. Þeirra samband var einstakt, sem skilaði tveimur heilsteyptum einstaklingum, þeim Helenu og Bonna, og sama á við um Bjarna, Helgu Birnu, Nanný og Bigga, sem öll endurspegla þann góða kjarna sem Binni hafði. Missir þeirra er mikill. Við yljum okkur öll við minningarnar og þökkum fyrir áhrifin sem Brynjólfur Bjarnason hafði á mig og allt sitt samferðafólk.
Mikið þakklæti.
Katrín Olga
Jóhannesdóttir.
Fáir Íslendingar öfluðu sér viðlíka þekkingar og reynslu í fyrirtækjarekstri og Brynjólfur Bjarnason. Á löngum starfsferli stjórnaði hann og sat í stjórnum fjölda fyrirtækja á fjölmörgum sviðum. Hann var eftirsóttur stjórnandi, ekki síst þegar breytingar stóðu fyrir dyrum. Hann var vinsæll samstarfsmaður, fylginn sér, örlátur á góð ráð og laginn við að koma sjónarmiðum sínum hávaðalaust á framfæri. Styrkur hans lá í góðri rekstrarþekkingu, mannlegum samskiptum og almennri skynsemi.
Við ólumst báðir upp í Hlíðunum og vissum hvor af öðrum án þess að samskiptin væru mikil framan af. Í Háskólanum áttum við samstarf í skólapólitíkinni og síðar á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Við vorum hvor í sinni klíkunni, hann í Eimreiðarhópnum og ég í Miðvikudagsklúbbnum. Árið 1983 kallaði Sverrir Hermannsson þáverandi iðnaðarráðherra á okkur ásamt Val Valssyni bankastjóra Iðnaðarbankans til að veita ráðgjöf um málefni ráðuneytisins. Í hönd fór eftirminnilegur tími í skemmtilegum og fróðlegum umræðum með ráðherranum, sem oft fór um víðan völl í sinni frásagnarsnilld. Þarna var lagður grunnur að vináttu okkar þremenninganna og hún varð nánari þegar fram liðu stundir.
Undanfarna áratugi höfum við þrír ásamt eiginkonum okkar gert okkur ýmislegt til upplyftingar. Við höfum farið í útreiðartúra, hist í sumarhúsum og eitt sinn heimsóttum við Sigríði Dúnu, þegar hún var sendiherra í Osló. Var ævinlega glatt á hjalla í þessum vinahópi.
Því miður getum við Sigríður Dúna ekki verið viðstödd útför okkar góða vinar. Við kveðjum hann með söknuði. Hugur okkar er hjá Þorbjörgu og fjölskyldunni, sem við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Friðrik Sophusson.
Ég átti því láni að fagna að kynnast Brynjólfi Bjarnasyni þegar ég var rétt um tvítugt. Mér var falið af stórum hópi ungs fólks að leita liðsinnis Brynjólfs við áform sem okkur þótti auðvitað afar merkileg, en til þess að koma þeim í framkvæmd þörfnuðumst við stuðnings leiðtoga úr atvinnulífinu. Viðtökur Brynjólfs voru einstaklega jákvæðar og það reyndist leikbreytir fyrir okkur. Áform okkar unga fólksins breyttu kannski ekki miklu í heiminum eins og við ætluðum, en ég eignaðist hins vegar einstaklega ráðagóðan vin í Brynjólfi sem ég gat síðar alltaf leitað til.
Mörgum árum seinna mætti þessi höfðingi í Íslenska sjávarklasann ásamt stórum vinahópi til að kynna sér nýsköpun í sjávarútvegi, sem Brynjólfur hafði alla tíð brennandi áhuga á. Hópurinn ákvað að koma sér upp smáfundaraðstöðu í klasanum við Grandagarð og varð hann fljótt mikilvægur partur af menningu hússins. Í þessu umhverfi kom saman fólk með ólíka reynslu og þekkingu og þannig þróuðust hugmyndir í alvöruverkefni sem sköpuðu verðmæti fyrir Ísland. Hópurinn varð fljótt nátengdur fjölda sprota og það þótti mikill heiður að fá að hitta og læra af þessari lávarðadeild Sjávarklasans, eins og hún er stundum nefnd. Það sýndi sig strax að í þessu umhverfi hentuðu mörg af flottustu persónueinkennum Brynjólfs; einlægur áhugi á fólki og hugmyndum, ekki síst okkar ungu frumkvöðlum, hæfileiki til að greina kjarnann frá hisminu og metnaður fyrir velferð og árangri annarra.
Það hefur verið eitt helsta aðalsmerki íslensks atvinnulífs að nýsköpunarfólk hefur átt auðveldan aðgang að fyrirtækjum og notið leiðsagnar leiðtoga þeirra. Þetta er einstakt og þekkist ekki í mörgum löndum. Og í þessu felast mikil verðmæti. Menn eins og Brynjólfur, með brennandi áhuga á fólki og hugmyndum og áratuga sögu í forystu íslensks atvinnulífs, hafa haft þarna mikið að segja. Löng og farsæl saga þessa mikla framtaksmanns og vinar á að vera okkur hvatning að halda hans hugsjónum á lofti.
Ég þakka vini mínum fyrir ómetanlega leiðsögn og vináttu og við Halldóra sendum Þorbjörgu og fjölskyldu innilegustu samúðarkveðjur.
Þór Sigfússon.
„Nú skal ég tala og þú hlustar.“ Þessi orð hafði Brynjólfur yfir áður en við fórum á einn fundinn með mögulegum styrktaraðilum. Þau reyndust heilladrjúg. Hann hafði fallist á að leiða fjársöfnun til kaupa á aðgerðarþjarka fyrir Landspítala Háskólasjúkrahús. Markmiðið var að safna á annað hundrað milljónum króna sem gekk eftir og kaupin urðu að veruleika fyrir um áratug síðan. Þessi gjörningur hefur reynst mikið framfaraspor í skurðlækningum sem á þriðja þúsund Íslendinga hafa notið góðs af.
Brynjólfur hafði næman skilning á þýðingu þess að fá gott fólk til starfa og halda því ánægðu að verki en það var leiðarstef okkar í þessu verkefni. Við áttum gefandi samtöl um hvernig nota mætti aðferðir framleiðslunnar til þess að yfirfæra á heilbrigðisþjónustu hvar í báðum tilvikum hæfur mannskapur og góður tækjabúnaður er í lykilhlutverki og stöðugt einblínt á skilvirkni og gæði. Ég vissi af hans mikilvæga starfi í þágu íslensks sjávarútvegs og gat sjálfur vitnað um hvernig farið var með sjávarafla á áttunda áratug síðustu aldar áður en tekið var rækilega til í þeim ranni. Með sterkri aðkomu sinni að Þjarka-verkefninu flýtti Brynjólfur fyrir þróun íslenskrar heilbrigðisþjónustu og sýndi með því mikinn þegnskap sem þakkað er fyrir á þessari stundu.
Við áttum samtal skömmu fyrir andlátið og þó svo hann segðist mega mæla var greinilega verulega af honum dregið. Hugsunin þó skýr að vanda og mér fannst gott að geta tjáð honum hversu mikið mér þætti til hans koma. Hann kvaddi með virktum vitandi að hverju óðum dró. Brynjólfs verður minnst þegar góðs manns er getið.
Eiríkur Jónsson.
Fallinn er frá vinur okkar Brynjólfur Bjarnason.
Brynjólfur var ekki verklatur maður og lét til sín taka á mörgum sviðum þjóðlífsins. Margir munu minnast starfa Brynjólfs í atvinnulífinu, m.a. umbreytingar verklags í sjávarútvegsfyrirtækinu Granda og innleiðingar nútímalegra stjórnarhátta þar á mörgum sviðum, ekki síst á sviði fjár- og áhættustýringar.
Við minnumst Brynjólfs sem góðs vinar og félaga. Ferðalög með þeim hjónum voru skemmtileg. Brynjólfur hafði gott lundarfar og var fróðleiksfús í meira lagi. Forvitni hans náði til allra sviða mannlífs og leitaði hann upplýsinga ekkert síður hjá tilfallandi leigubílstjórum en sprenglærðum sérfræðingum. Brynjólfur vildi ræða flest mál og var með opinn hug. Hann var hins vegar staðfastur þar sem hann hafði myndað sér skoðun. Sjávarútvegsmál voru eitt af þeim málum þar sem Brynjólfi varð ekki haggað. Var það nokkur skemmtun að sjá suma vini okkar ræða þau mál við Brynjólf.
Margar góðar samverustundir koma upp í hugann á þessum tímamótum. Ferðir í Evrópu og Ameríku og ekki síður hér innanlands, oft með börnum Brynjólfs og Þorbjargar og okkar eigin. Þá var glatt á hjalla og margt til gleði gert, gönguferðir, spilað og eldaður góður matur en þar var Brynjólfur liðtækur eins og í mörgu öðru. Veiðiferðir og skíðaferðir eru minnisstæðar svo og ekki síður heimsóknir til þeirra hjóna í Fljótshlíðina.
Brynjólfur átti miklu barnaláni að fagna. Börnin voru það mikilvægasta í lífi Brynjólfs og ekki fór á milli mála að hann var stoltur af börnum sínum. Enda undi hann sér best með Þorbjörgu í sveitinni sinni með öllum afkomendum sínum.
Við þökkum Brynjólfi vináttuna og vottum Þorbjörgu og börnum Brynjólfs okkar innilegustu samúð.
Arndís og Sigurður.
Á Íslandi ríkir sú venja að skrifaðar eru minningargreinar um þá sem falla frá og þá sagðir kostir á lífsferli þeirra. Það má segja að sé annmarki á þessum skrifum að hinn látni fær ekki sjálfur að njóta þess jákvæða sem samborgararnir hafa um þá að segja að lífsferlinum loknum. Slík skrif þjóna samt verðmætum tilgangi við að varðveita minninguna um hinn látna og mannkosti hans. Og frá sumum þeirra er næstum ekkert að segja annað en jákvæðar minningar. Að mínum dómi háttar á þann veg minningunni um Brynjólf Bjarnason. Við kynntumst fyrir meira en 50 árum. Þau kynni hófust með því að við tókum báðir þátt í að gefa út Eimreiðina, sem var tímarit sem flutti greinar og rökfærslur um hugsjón sem við Brynjólfur höfðum báðir um frelsi manna og persónulega ábyrgð þeirra á þeim verkum sem þeir tóku þátt í.
Segja má um Brynjólf að hann brást aldrei hugsjón sinni. Við vorum nokkrir „Eimreiðarmenn“ sem hittumst reglulega tvisvar í mánuði til að ræða um frelsishugsjónina í landi okkar auk þess að ræða um þjóðfélagsmálin almennt. Í hópnum voru menn sem hafði verið trúað fyrir ábyrgðarstörfum í þjóðfélaginu og voru á þeim vettvangi þjóðþekktir fyrir störf sín. Sumir þeirra sem voru á öndverðum meiði við okkur í viðhorfi sínu til stjórnmála reyndu stundum að halda því fram að við sætum á launráðum við þjóðfélagið og vildum koma einhverjum misgjörðum í verk. Ekkert var fjær sanni. Við hittumst bara til að ræða sameiginlegar hugsjónir okkar sem orðið höfðu til á þeim árum er við stunduðum nám í háskólum. Þær beindust aldrei að neinu öðru en því að styrkja frelsi og ábyrgð í þjóðfélaginu á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, sem öllum mönnum mátti jafnóðum vera kunnugt um.
Þetta voru hugsjónir sem vinur minn Brynjólfur Bjarnason brást aldrei. Reyndar ber litríkur ferill hans í trúnaðarstörfum þess ríkuleg merki. Ég man aldrei eftir að okkur hafi greint á um þessi hugsjónamál. Hann var sannkallaður mannkostamaður sem oft var kallaður til þátttöku í margvíslegum málefnum sem lutu að því að styrkja hugsjónina sem hafði leitt okkur saman. Minning hans mun því lifa um langa framtíð. Blessuð sé minningin um vin minn Brynjólf Bjarnason.
Jón Steinar Gunnlaugsson.
Örlagavaldar eru ekki á hverju strái. Brynjólfur Bjarnason var einn slíkra. Hann hafði áhrif á lífsframvindu margra – þar á meðal mína.
Fyrir áeggjan Brynjólfs fluttum við fjölskyldan heim frá Ameríku árið 2003, talsvert fyrr en til stóð. Rólyndislegur sannfæringarkraftur Brynjólfs leiddi til þess að lítil fjölskylda í Boston tók sig upp og ég réðst til starfa hjá Landssíma Íslands, sem var ríkisfyrirtæki á þeim tíma. Slíkt eignarhald var í mínum huga eins óeftirsóknarvert og hægt var að hugsa sér.
Hokinn af reynslu úr sjávarútvegi og frá einkavæðingu Granda áratugum fyrr spáði Brynjólfur því að Síminn yrði seldur úr ríkiseigu áður en langt um liði. Sú varð raunin og með Brynjólf við stýrið hjá Símanum þótti félagið traust eign og nutu íslenskir skattgreiðendur hagfelldustu sölu sögunnar. Alls átti ég eftir að starfa með hléi hjá því góða fyrirtæki í fimmtán ár, þar af fjögur fyrstu við hlið Brynjólfs.
Brynjólfur var gamli skólinn, í bestu merkingu þess orðs. Hans gildi voru réttsýni og áreiðanleiki. Fastur fyrir, klárlega, en ávallt framsýnn og kurteis. Ákvarðanir skyldu teknar á traustum forsendum – ekkert flumbur eða fát. Það sem er sagt er gert. Það sem er gert er sagt.
Við Brynjólfur héldum virku sambandi áratugina sem liðu frá daglegri samvinnu okkar. Nú síðast fyrr í mánuðinum áttum við í gáskafullum samskiptum. Þá sem fyrr var hann móttækilegur fyrir aulahúmor og endalokin virtust hvergi í augsýn. Skömmu síðar vék skipstjórinn, sem kenndi okkur fjölmörgum hásetunum á áttavitann, hnarreistur frá borði, af sömu röggsemi og einkenndi siglingu hans alla gegnum lífið. Ég votta hans stóru góðu fjölskyldu hluttekningu.
Orri Hauksson.
Brynjólfur Bjarnason var einn helsti áhrifavaldurinn í mínu lífi. Brynjólfur var forstjóri og stjórnarformaður sem mátti treysta, sama hvað gekk á. Hann talaði fyrir gildum sem færðu íslensku þjóðina frá því að vera ein sú fátækasta yfir í að vera ein sú ríkasta. Hann gerði meira en að tala, hann framkvæmdi og leiddi með verkum sínum. Hann var fulltrúi verðmætasköpunar og vinnandi stétta. Fáir þekktu betur gangverk viðskipta, bæði hérlendis og á alþjóðavísu. Fyrir unga konu sem var að stíga sín fyrstu skref sem stjórnandi í viðskiptalífinu var Brynjólfur ekki bara fyrirmynd heldur líka lærifaðir. Hann kenndi mér hversu miklu máli yfirvegun, þrautseigja, þekking og sjálfstæði skiptir í viðskiptum.
Brynjólfur hafði gott auga fyrir hæfileikum og hann kom auga á þá í gegnum stöðu og stétt. Þegar hann hóf störf sem forstjóri Símans réði hann konu í framkvæmdastjórn sína, Katrínu Olgu Jóhannesdóttur. Hún er ein öflugasta og hæfileikaríkasta konan sem við eigum á sviði viðskipta, hún er líka einn fremsti talsmaður kynjajafnréttis í íslensku viðskiptalífi. Hann réði konuna sem réði mig til þess að stýra einu dótturfélaga Símans þegar ég var ekki orðin þrítug. Á kvennadaginn 19. júní 2007 fól Brynjólfur mér þá ábyrgð að stýra ekki bara einu heldur tveimur dótturfélögum Símans, hann gerði mig að fyrstu konunni til að gegna hlutverki sjónvarpsstjóra á Íslandi. Rúmu ári síðar tókumst við á við eitt stærsta verkefnið í íslensku viðskiptalífi þegar alþjóðlegir fjármálamarkaðir lokuðust fyrir íslenskum fyrirtækjum, gengi krónunnar hrundi og verðmæti margra fyrirtækja í Kauphöll Íslands varð að nánast engu. Fundir sem áður höfðu verið mánaðarlegir urðu vikulegir og daglegir. Félögin sem Brynjólfur leiddi lifðu öll, sú mikilvæga þjónusta sem þau sinntu var óskert og grunngildi hans í viðskiptum stóðust áraunina.
Brynjólfur var talsmaður þess að forstjórar fyrirtækja tækju sjálfir virkan þátt í gerð kjarasamninga á vinnumarkaði og sinntu því mikilvæga starfi sem unnið er á vettvangi Samtaka atvinnulífsins. Árið sem ég fæddist starfaði Brynjólfur sem forstöðumaður hagdeildar Vinnuveitendasambands Íslands, forvera samtakanna. Hann hvatti mig til þess að bjóða mig fram í stjórn samtakanna og hann studdi mig þegar ég tók sæti í stjórn vinnudeilusjóðs samtakanna. Brynjólfur vissi hvers megnug samtökin eru. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þeirra verða alltaf málsvarar verðmætasköpunar, viðskiptafrelsis, einkaframtaks og alþjóðaviðskipta. Brynjólfur var hér fyrir fimmtíu árum og við sem erum hér núna störfum eftir gildum hans.
Fjölskyldu Brynjólfs votta ég mína dýpstu samúð. Hann lifði allt of stutt en hann lifði vel. Hann lifir áfram í ykkur öllum, ekki síst dætrum sínum. Hann lifir áfram í verkum okkar allra sem þekktum hann, ekki síst þeim dætrum landsins sem hafa ástríðu fyrir viðskiptum.
Sigríður Margrét Oddsdóttir.
Vináttan er dýrmæt. Ég er afar þakklátur fyrir vináttu okkar Brynjólfs. Hann hefur í gegnum tíðina verið mér einstaklega traustur og góður vinur. Þá hafa synir okkar verið bestu vinir allt frá barnæsku og fjölskyldan öll verið okkur dýrmætir vinir.
Brynjólfur átti einstakan feril í íslensku viðskiptalífi. Það þarf ekki að rekja það hér en það sem ég dáðist alltaf að var hlýja hans gagnvart fólki almennt, ásamt óendanlegum áhuga á mönnum og málefnum líðandi stundar. Þrátt fyrir allt hans annríki gátum við alltaf sest niður og rætt málefni líðandi stundar. Allt krufið til mergjar og gaf hann sér nægan tíma. Aldrei tók hann sig hátíðlega og leit á alla sem jafningja. Brynjólfur var mér einstök fyrirmynd og mikill stuðningsmaður en fyrir það er ég mjög þakklátur.
Á síðustu tveimur áratugum höfum við unnið tvívegis saman, þar sem við sinntum saman fjölmörgum verkefnum, fórum á ófáa fundina og hafa ferðirnar erlendis verið fjölmargar í gegnum tíðina. Brynjólfur var einstakur vinnufélagi og yfirmaður. Þá var hann frábær ferðafélagi og þar kom heimsmaðurinn Brynjólfur í ljós. Á milli okkar ríkti alltaf traust og ákveðin tegund af umhyggju sem var mér mjög dýrmæt. Við allt þetta bætti hann svo góðum húmor sem oft er líka nauðsynlegur, einkum þegar þörf hefur verið á að stíga vaxandi ölduna.
Við Lilja erum þakklát og stolt að hafa átt Brynjólf og Þorbjörgu að góðum vinum í um tvo áratugi. Samband þeirra og umhyggjusemi gagnvart vinum sínum er einstök á allan hátt.
Eftir lifa minningar um einstakan og traustan vin, umhyggjusemi, vinnuferðirnar erlendis og óteljandi gleðistundir. Brynjólfur var traustur og hélt afar þétt um sína nánustu sem nú syrgja sárt. Elsku Þorbjörg, börn og ástvinir, við Lilja og fjölskylda vottum ykkur okkar dýpstu samúð og megi góður himnafaðirinn taka vel á móti Brynjólfi Bjarnasyni.
Þór Hauksson og Lilja Aðalsteinsdóttir.
Skákklúbburinn saknar nú vinar í stað þegar Brynjólfur Bjarnason er fallinn frá. Klúbburinn, sem frá upphafi hét bara Skákklúbburinn, varð til þegar meðlimir hans voru að ljúka námi við viðskiptadeild HÍ fyrir rúmlega hálfri öld. Tilgangur klúbbsins var fyrst og fremst að viðhalda og vernda þau vinabönd sem bundin höfðu verið á námsárunum. Skák var valin sem tilefni til klúbbfunda, enda þótt meðlimir gætu vart talist til afreksmanna í þeirri íþrótt. Fyrstu tvo eða þrjá áratugina voru skákfundir haldnir tvisvar í mánuði yfir veturinn. Síðan fóru fundir að strjálast vegna fjarveru félaga til skiptis, í viðskipta- eða vinnuferðum erlendis. Til að bæta fyrir fundaföll var þó farið í margar ferðir innanlands og utan ásamt mökum en síðustu árin hafa skákfundir breyst í kaffihitting þegar fundarfært gat talist. Það hefur því miður orðið æ sjaldnar því Brynjólfur er sá fjórði úr skákklúbbnum sem kveður. Eftir situr hálfur hópurinn, hnípinn og saknar góðra vina. Hver veit nema nú hittist hinum megin Brynjólfur, Ágúst Einarsson, Gísli Benediktsson og Guðlaugur Björgvinsson og geta þar teflt á tveimur borðum. Við undirritaðir söknum þeirra og gleðjumst yfir góðum minningum af skemmtilegum samverustundum.
Halldór Vilhjálmsson,
Jón Helgi Guðmundsson,
Snorri Pétursson,
Stefán Friðfinnsson.
Það eru ekki margir sem skilja eftir sig jafn djúp spor í lífi manns og Brynjólfur Bjarnason. Hann var minn leiðtogi, minn mentor og vinur – og um leið ein af þeim manneskjum sem skilja mest eftir sig með nærveru sinni, trausti og því hvernig þeir koma fram við annað fólk.
Ég kynntist Brynjólfi þegar hann tók fyrst við forystu Símans og síðar Skipta. Hann leiddi félögin með yfirvegun, fagmennsku og djúpri trú á mikilvægi þess að byggja upp traust, faglegt umhverfi og skýra sýn. Áhrif hans spönnuðu þó mun víðara svið – hann var virkur þátttakandi í að móta íslenskt viðskiptaumhverfi og naut trausts víða fyrir skýra hugsun, yfirvegaðan stíl og sterka siðferðiskennd.
Í Brynjólfi bjó leiðtogahæfni af dýrmætustu gerð. Hann setti kröfur um vönduð vinnubrögð og árangur, en skapaði jafnframt rými þar sem fólk óx, blómstraði og fann til ábyrgðar.
Hann veðjaði á fólk – hvatti það áfram, hlustaði og studdi – og var ætíð nálægur í samskiptum, bæði í gleði og í áskorunum.
Sjálfur fékk ég að njóta þess trausts þegar hann fól mér fyrst að leiða farsímasvið Símans, síðar fyrirtækjasviðið og loks – með tíma – forstjórastöðuna. Sú vegferð var ekki sjálfsögð, heldur sprottin af trú Brynjólfs á möguleika fólks þegar því er veitt tækifæri og ábyrgð. Hann hafði þann hæfileika að sjá styrkleika í öðrum og kalla þá fram – með ró, nánd og festu. Hann hvatti til þátttöku í samfélaginu og að fólk sinnti því sem nærði það utan vinnu.
Orð Brynjólfs voru innihaldsrík og höfðu skýran tilgang. Hann talaði skýrt, krafðist gæðavinnu og árangurs – en um leið var alltaf auðvelt að gleðjast með honum. Hann var hlýr, nærgætinn og staðfastur í öllum samskiptum. Þeir sem unnu með honum þekkja þessa sérstöðu vel: hvernig hann byggði upp umhverfi þar sem fólk fann til ábyrgðar og um leið öryggis.
Ég á honum mikið að þakka. Hann hafði djúp áhrif á mig sem stjórnanda og sem mann. En mikilvægara en það – hann hafði áhrif á fjölda fólks með sinni nálgun, sinni ró og þeirri sýn sem hann stóð með alla tíð. Minningin um Brynjólf lifir áfram í því sem hann byggði, og í hjörtum þeirra sem honum þótti vænt um – og það voru ófáir.
Við Hafdís Hannesdóttir sendum Þorbjörgu Kristínu Jónsdóttur, eiginkonu Brynjólfs, og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Sævar Freyr Þráinsson.